Félag byggingariðnaðarmanna Árnessýslu 60 ára

2012 55 AK 02903

Í vor eru sextíu ár liðin frá stofnun FBÁ sem er eitt af þeim félögum sem myndar grunninn sem síðar varð að Félag iðn- og tæknigreina

2012 55 AK 02903

Mánudaginn 20. apríl 1959 komu nokkrir iðnaðarmenn í byggingageiranum saman á Selfossi og ákváðu að stofna félag um hagsmuni sína. Þetta voru iðnaðarmenn af ýmsu tagi.
Nokkur undirbúningur hafði átt sér stað fyrir fundinn. Þannig voru tilbúin drög að lögum félagsins, sem og hugmyndir um félagsgjöld. Í fundargerð kemur fram að það hafi verið trésmiðir sem höfðu forgöngu um stofnun félagsins.

Í stofnfundargerð kemur fram að Jón Kristjánsson hafi sett fundinn og skipað Sigurð Ingimundarson fundarstjóra og nafna hans Guðmundsson fundarritara. Fundarritarinn las uppkast að lögum fyrir félagið og gaf síðan orðið laust. Í fundargerðinni kemur fram að nokkrar breytingar hafi verið gerðar á drögunum, en ekki hverjar þær voru. Á hinn bóginn gefa fyrirspurnir Kristjáns Finnbogasonar og svör Jóns Kristjánssonar við þeim góða hugmynd um hvers konar félag hugmyndin var að stofna þarna á fundinum.

1. Hversu stórir meistarar mega vera í félaginu?
Svar: Skv. 5. grein félagslaga má enginn vera í félaginu sem er atvinnurekandi í það stórum stíl að hagsmunir hans standi nær vinnukaupanda en verkafólki að áliti félagsfundar.

2. Hvaða réttindi þurfa menn að hafa til að fá inngöngu í félagið. Nægir að menn hafi vinnuréttindi eða staðbundin réttindi?
Svar: Skv. 3. grein félagslaga hafa þeir einir rétt til inngöngu, sem lokið hafa tilskyldu námi og staðist sveinspróf í húsasmíði, húsgagnasmíði, málaraiðn, múrverki eða pípulögnum.

3. Hefur undirbúningsnefndin aflað sér upplýsinga um hversu há árgjöld eru í hliðstæðum félögum?
Svar: Í hliðstæðum félögum er árgjald félagsmanna 10–15 krónur á viku. Í framlögðum félagslögum er lagt til að árgjaldið verði ákveðið frá ári til árs.

Sigurður Ingimundarson velti fyrir sér hver tilgangurinn væri með stofnun þessa félags; hvaða gagn félagsmenn gætu haft af því. Hann benti á að æskilegt væri að félagið hefði að einhverju leyti með mannaráðningar á vinnustöðum að gera. Einnig gætu iðnaðarmenn stofnað ýmsa sjóði með slíkum samtökum, til stuðnings félagsmönnum.
Eftir að umræðum lauk var fyrsta stjórn Félags byggingariðnaðarmanna Árnessýslu kjörin og var hún þannig skipuð:

Jón B. Kristinsson, formaður
Sigurður Guðmundsson, ritari
Friðrik Sæmundsson, gjaldkeri
Guðmundur Guðnason, varaformaður
Sæmundur Bæringsson, meðstjórnandi.

Stofnfélagar hafi verið 28 en ekki kemur fram hvort þeir hafi allir verið mættir á fundinum eða hvort einhverjir þeirra gerst stofnfélagar síðar.

2011 39 JÞS 04454Stjórn Félags byggingariðnaðarmanna í Árnessýslu. Efri röð f.v.: Valdimar Þórðarson, Ágúst Magnússon, Erlendur Guðmundsson og Guðmundur Helgason. Neðri röð f.v.: Hákon Halldórsson, Páll Árnason, Sigurður Ingimundarson og Einar Elíasson. 

Sjúkrasjóður og ASÍ

Það er augljóst að stjórnarmenn hafa ekki setið auðum höndum, því á fyrsta aðalfundi félagsins, 27. mars 1960, er samþykkt að stofna sjúkrasjóð og skyldi hluti félagsgjalda renna í þann sjóð.
Á félagsfundi 6. nóvember sama ár kemur fram að sótt hafi verið um aðild að Alþýðusambandi Íslands en þeirri beiðni hafi verið synjað. Ástæðan var sú að innan félagsins væru menn sem hefðu aðra í þjónustu sinni. Á fundinum var samþykkt tillaga um að færa þá félagsmenn á aukaskrá sem hefðu aðra í þjónustu sinni. Var það samkvæmt uppástungu stjórnar Fulltrúaráðs verkalýðsfélaga Árnessýslu. Slík tilhögun átti að auðvelda félaginu inngöngu í ASÍ.

Viku síðar, 13.nóvember, er enn boðað til fundar og þá til að kjósa einn fulltrúa á 27. þing ASÍ og einn til vara. Á fundinum kom fram að fyrrnefnd breyting á meðlimaskrá félagsins gerði að verkum að rétt væri að senda fulltrúa á ASÍ-þingið, þar sem líklegt væri að Félag byggingariðnaðarmanna Árnessýslu yrði tekið inn í Alþýðusamband Íslands. Fyrsti fulltrúi FBÁ á ASÍ-þing var kjörinn Guðmundur Helgason og varamaður hans Jón B. Kristjánsson.
Í skýrslu formanns á aðalfundi 19. mars 1961 kom síðan fram að félagið hefði verið tekið í Alþýðusamband Íslands.

Sameiningar, samstarf og félagsslit

Saga FBÁ er í raun keimlík sögu annarra verkalýðsfélaga; gerist mest á sviði kjara- og réttindabaráttu. Félagið geldur nokkuð smæðar sinnar og leitar samstarfs við önnur verkalýðsfélög til að auka styrk sinn. Í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar gengur félagið í Samband byggingarmanna (SBM) og jafnvel rætt um hugsanlega sameiningu félagsins og Trésmiðafélags Reykjavíkur. Þriggja manna nefnd var skipuð til að skoða það mál. Á félagsfundi í desember 1992 var sameining SBM og Málm- og skipasmiðasambandsins (MSÍ) til umræðu. Gestur fundarins, Þorbjörn Guðmundsson frá SBM, lætur þess getið í máli sinu að á síðasta SBM-þingi hafi fulltrúar FBÁ einmitt þrýst fast á um skipulagsmál.
Á félagsfundi í ársbyrjun 1995 sagði formaðurinn, Ármann Ægir Magnússon, frá fundi sem fram hafði farið í desember árið áður. Þar höfðu fulltrúar frá FBÁ og Iðnaðarmannafélagi Rangæinga hitt iðnaðarmenn úr Vestur Skaftafellssýslu. Fundarmenn urðu sammála um að kanna vilja til að stofna félag sem næði yfir svæðið frá Lómagnúpi í austri að Kópavogi (Hellisheiði) í vestri.

Á þessum félagsfundi FBÁ er samþykkt ályktun, orðuð svo í fundargerð:
Félagsfundur FBÁ samþykkir fyrir sitt leyti að stofnað verði sunnlenskt iðnfélag sem nái yfir Suðurland frá Lómagnúpi að Kópavogi í vestri. Stofnfundur verði 12. mars 1995 ef tillagan fæst samþykkt í báðum félögunum. Þeim mönnum sem saman komu 20. desember 1994 í Vík í Mýrdal til undirbúnings, verði falið að vinna að undirbúningi stofnunar nýs félags. Það er: Að ljúka uppgjöri félaganna. Halda aðalfund og slíta félögunum sama dag og stofnað verður nýtt félag, þar sem allir félagsmenn geta notið sömu réttinda, nýtt nafn yrði valið, lög staðfest og stjórn kjörin. Jafnframt yrði tekið tillit til nýs félagssvæðis.
Þessi tillaga var samþykkt samhljóða eftir nokkrar umræður.

Þann 12. mars 1995 er svo síðasti aðalfundur FBÁ haldinn, þar sem félaginu er slitið. Þetta var hefðbundinn aðalfundur, þar sem flutt var skýrsla stjórnar og gjaldkera og umræður fóru fram um þær. Eftir að þeim umræðum lauk bar Ármann Ægir, formaður félagsins upp tillögu um að eignir félagsins og skuldbindingar verði nýja iðnaðarmannafélagsins, sem stofnað yrði á Hvolsvelli þennan sama dag. Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Þá bar Ármann Ægir fram tillögu um að félaginu yrði slitið og var sú tillaga einnig samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

„Að lokum þakkaði formaður öllum fyrir fundarsetu og samstarf á liðnum árum og sleit síðan þessum síðasta fundi Félags byggingariðnaðarmanna Árnessýslu,“ segir í fundargerð.
Lauk þar með sögu Félags byggingariðnaðarmanna Árnessýslu.

Ármann Ægir Magnússon var síðasti formaður FBÁ og því tilvalið að taka hann tali við þessi tímamót.

Patreksfirðingurinn Ármann Ægir Magnússon flutti suður í Hveragerði til að læra húsasmíði þegar hann var 21 árs gamall. Félagsmálaáhuginn vaknaði fljótlega; hann var kosinn formaður Iðnnemasambands Íslands á námsárunum, „tók við af Þorbirni Guðmundssyni húsasmið,“ segir hann.
Eftir að hafa lokið námi og sveinsprófi flutti hann ásamt Rakel Mónu Bjarnadóttur, eiginkonu sinni til Strömmen í Noregi. Þar starfaði hann við trésmíði í tvö ár og Rakel sem leikskólakennari.
Stjórnmálaáhuginn blundaði og Ármann starfaði með SV, Socialistisk Venstreparti meðan hann var í Noregi. Spurður hvers vegna í ósköpunum hann hafi flutt aftur til Íslands, dregur hann svarið við sig:
„Það er nefnilega það. Á þessum árum voru Norðmenn búnir að finna olíuna, peningarnir hrúguðust upp og verið var að setja Olíusjóðinn á stofn, eftirlaunasjóð fyrir alla Norðmenn. En þá var mynduð vinstri stjórn á Íslandi og mig langaði þangað. Þegar maður er ungur trúir maður.“ Og hlær.
Eftir heimkomuna árið 1979 gekk Ármann Ægir í FBÁ.

ArmannAegir

„Ég hafði mig ekkert í frammi í félaginu. Mætti á fundi en sagði lítið og lét ekkert til mín taka á neinn hátt, fyrr en ég bauð mig fram til formanns á aðalfundi 1991.“
–Varstu beðinn að bjóða þig fram?
„Nei, ég bara tranaði mér fram þarna á fundinum. Ég fann að eitthvað var að, einhver hnútur í samskiptunum við meistarana, vegna innheimtu gjalda aftur í tímann. Mér fannst að þeir sem stjórnuðu félaginu væru orðnir of stór hluti af vandanum til að geta leyst hann, svo ég bauð mig fram.“
Ekkert mótframboð kom í formannskjörinu þannig að Ármann Ægir varð sjálfkjörinn. Hann var formaður FBÁ þar til það var lagt niður 1995 og Sunniðn stofnað.

–Og alltaf sigldur lygn sjór?
„Ekki alltaf, en oftast þó. Í verkföllum vildi slá í brýnu. Ég man að einu sinni vorum við í verkfallsvörslu í Þorlákshöfn og höfðum þann háttinn á að ef þeir voru að vinna sem ekki máttu það, tókum við af þeim verkfærin og settum í skottið á bílnum mínum. Þegar við komum að trésmiðjunni Mát, sem heitir Fagus í dag, voru þar nokkrir að og við tókum af þeim verkfærin og stungum í skottið hjá mér. Einn eigandinn, mikið heljarmenni, óð að mér og hóf mig á loft með annarri hendi og hafði á orði að réttast væri að drepa mig. Lét samt orðin duga.
Þegar við svo komum á Selfoss úr þessari ferð fór ég í skottið að sækja tólin, en þar voru þá engin verkfæri. Í ljós kom að félagar mínir í verkfallsvörslunni höfðu tekið þau úr bílnum mínum og falið þau. Þeir vissu að þetta var ólögleg aðgerð og vildu vernda mig.“

–Það er mikið að gera í samstarfs- og sameiningarmálum á þeim tíma sem þú ert formaður. Þið gangið í Samband byggingarmanna, veltið fyrir ykkur hugsanlegri sameiningu við Trésmiðafélag Reykjavíkur og gerið ykkur mjög gildandi í umræðum um skipulagsmál á SBM-þingum.
„Stækkun félagssvæðisins og aukin samvinna iðnaðarmanna hafði lengi verið áhugamál mitt. Meðan uppi voru hugmyndir um að við sameinuðumst Trésmiðafélaginu reistum við okkur meira að segja sumarhús í landi TR, Stóra-Hofi í Gnúpverjahreppi. Síðan þróuðust mál þannig að ég fór að ræða við menn annars staðar. Menn eins og Yngvar Þorsteinsson á Hellu. Við tveir urðum miklir trúnaðarvinir. Við höfðum samband við fleiri félagsmálamenn í austurhlutanum og mótuðum þannig hugmyndina um eitt félag iðnaðarmanna í byggingariðnaði í Árnes-, Rangárvalla- og Skaftafellssýslum. Undirtektirnar voru mjög jákvæðar, ekkert mál að fá menn til að vera með.
Þegar við Yngvar byrjuðum að ræða þessi mál átti Verkalýðsfélagið Þór á Hellu eigið húsnæði. Yngvar veiktist illa meðan á þessu ferli stóð, dauðveikur í nýrunum. Hann tók af mér loforð áður en hann dó, að nýja félagið myndi halda verkalýðshúsinu og það varð. Nú er búið að sameina bæjarskrifstofurnar á Hellu og Verkalýðshúsið í einu húsi, ef svo má segja.
FBÁ átti á þessum tíma hlut í hæð að Eyravegi 15, á móti verslunarmönnum sem við vorum í samstarfi við. Við eignuðumst svo hálfa hæð á Eyravegi 29 og vorum alltaf með starfsmann í hálfu starfi eftir Það. Seinna fluttum við svo að Austurvegi 56.“

2010 92 SJ 12111

Smiðir útskrifast frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. F.v.: Ármann Ægir Axelsson, Magnús Ólafsson, óþekktur, Njörður Helgason, Gestur Þráinsson, Gísli Björnsson og Sigurður Sigursveinsson. skólameistari.

Viðræður iðnaðarmanna vítt og breitt um Suðurland gengu vel. Svo vel að á félagsfundi í FBÁ í janúar 1995 skýrir formaðurinn frá fundi sem hann hafði átt 20. desember árið áður með fulltrúum Iðnaðarmannafélags Rangæinga og iðnaðarmönnum úr Vestur-Skaftafellssýslu.
„Á þessum fundi urðum við sammála um að kanna vilja manna til að stofna félag sem næði yfir svæðið frá Lómagnúpi í austri að Kópavogi í vestri. Einnig að á fyrirfram ákveðnum degi skyldi leggja niður þau félög sem fyrir væru og stofna sama dag þetta nýja félag byggingariðnaðarmanna.“ Á fundinum og lagði Ármann Ægir síðan fram tillögu um hvernig staðið skyldi að málum. Sú tillaga var samþykkt samhljóða.
„Þetta var allt mjög vandlega undirbúið, svo öruggt væri að allt færi fram samkvæmt lögum og réttinda allra væri gætt. Þannig að á síðasta aðalfundi FBÁ, 12. mars 1995, var samþykkt að félagið skyldi lagt niður og sameinað byggingarmönnum í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu í nýju félagi. Sama dag var nýja félagið formlega stofnað á Hvolsvelli og hlaut nafnið Sunniðn.“

Ármann Ægir var kosinn fyrsti formaður Sunniðnar. Aðrir í fyrstu stjórninni voru þeir Sverrir Einarsson, Selfossi; Sveinn Þórðarson, Vík; Árni Þorgilsson, Hvolsvelli og Ingólfur Rögnvaldsson.
Sunniðn starfaði í 8 ár, þar til það sameinaðist Félagi iðn- og tæknigreina, FIT, árið 2003 og var lagt niður í kjölfarið. Þá var Ármann kjörinn gjaldkeri FIT og gegnir því starfi enn.

–Var enginn á móti því að leggja Sunniðn niður?
„Nei, eiginlega ekki. Kannski einn eða tveir, en almennt var stuðningurinn mjög afgerandi. Við ferðuðumst í alla kjarna á Suðurlandi og héldum fundi. Það var bara gleði og gaman. Það er reyndar skemmtilegt að geta þess, að söðlasmiðir á Suðurlandi gengu í Sunniðn á sínum tíma.“

–Finnst þér stofnun félags á borð við FIT hafa verið fyrirhafnarinnar virði fyrir félagsmenn?
„Ekki spurning. FIT er aðili að Samiðn, sem er samband 12 verkalýðsfélaga víða um land og er öflugt samband.
Þegar við vorum komnir í FIT héldumm við áfram að rækta sambönd við menn í félögum utan félagsins og fá þá í samstarf með okkur. Ég get nefnt Suðurnesjamenn sem dæmi. Við Sigfús Eysteinsson, formaður Iðnsveinafélags Suðurnesja, kynntumst vel. Forystumenn Suðurnesjamanna voru harðákveðnir í að ganga ekki í FIT. En við ræddum saman og það fór fram allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna Iðnsveinafélagsins og þar var samþykkt að ganga í FIT. Þeir voru svo vel stæðir að þeir voru með mann í fullu starfi á skrifstofunni hjá sér. Sá heitir Ólafur S. Magnússon og er í dag ritari í stjórn FIT.
Eitt af því ánægjulegasta sem áorkað hefur verið er stofnun IÐUNNAR-Fræðsluseturs. Ég held því fram að IÐAN sé hreinn lífselexír. Hún er orðin geysistór og öflug stofnun vegna þess að okkur tókst að semja við atvinnurekendur okkar um endurmenntunargjöld. Þau eru ákveðið hlutfall af launum félagsmanna. Þarna er námskeiðahald fyrir allar iðngreinar í slíkum mæli að í raun er stöðugt verið að nútímavæða greinarnar. Hildur Elín Vignir framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn IÐUNNAR hafa lyft grettistaki í þeim efnum,“ segir Ármann Ægir að lokum.

Haukur Már Haraldsson