Bara í orði en ekki á borði
Iðnaðarlög
Það er gersamlega óþolandi að fylgjast með aðgerðarleysi stjórnvalda þegar kemur að iðnaðarlögum. Þar virðast þau bara vilja tala fjálglega um þessi mál á tyllidögum en þegar kemur að aðgerðum verður minna úr hlutum. Undanfarin ár hefur eftirlitshluti hins opinbera verið algjörlega óásættanlegur og höfum við gagnrýnt þetta aðgerðarleysi sem og úrræðaleysi stjórnvalda til að stöðva kolólöglega starfsemi ófaglærðra í löggiltum iðngreinum. Til hvers erum við að hafa lög sem ekki er fylgt eftir? Hvar eru refsiákvæðin?
Félag iðn- og tæknigreina hefur um árabil verið leiðandi í baráttu gegn þessari vá og við höldum þeirri baráttu áfram svo lengi sem hún fær að viðgangast í íslensku þjóðfélagi. Þrátt fyrir að hafa tekið frumkvæðið að víðtæku samstarfi við Vinnumálastofnun, Ríkisskattstjóra og fleiri opinberar stofnanir, ásamt því að vera með öflugt vinnustaðaeftirlit, gengur hægt að uppræta þessa ógn. Er það aðallega vegna skilningsleysis opinberra aðila. Það er varla til hagsbóta fyrir neytendur!
Við köllum eftir því að stjórnvöld beiti sér af hörku gegn þessu vandamáli. Við höldum baráttunni áfram og segjum upphátt að við líðum ekki svona framferði. Stjórnvöld eru hvött til að gera eitthvað í málum í stað þess að tala bara um þau!
Vinnutímastytting
Stytting vinnutíma er stórt hagsmunamál fyrir félagsmenn FIT og er því ekki að undra að vinnutímastyttingin sé eitthvað sem félagið leggur mikla áherslu á þegar kemur að kjarabótum. Stytting vinnuvikunnar er veruleiki sem þegar er byrjaður að sjást í kjarasamningum. Æ fleiri félög setja þetta á oddinn hjá sér og hvetjum við félagsmenn til að kynna sér þetta mál vel, þar sem fjallað er um það hér í blaðinu. Hið sama gildir um launakönnunina. Hún er gríðarlega mikilvægt tæki í allri umræðu og segir okkur hvar við erum stödd hverju sinni.
Við hvetjum félagsmenn til að fara yfir könnunina og sjá sína stöðu á vinnumarkaði. Gagnsæi í upplýsingagjöf á borð við þetta hjálpar okkur í baráttunni fyrir réttum launum og því nauðsynlegt að hún endurspegli veruleikann.
Viðhorfskönnun
FIT gerði einnig nýverið viðhorfskönnun meðal félagsmanna sinna. Líklega er óhætt að fullyrða að niðurstöðurnar hafi verið einstaklega jákvæðar og sýni það vel að við erum á réttri leið í hagsmunagæslu fyrir okkar félagsmenn, enda er félagið ekkert án félagsmannanna. Í könnunni, sem komin er á heimasíðu FIT, má meðal annars sjá að þegar spurt var hvernig félagsmönnum FIT þætti félagið standa sig kemur í ljós að ánægjan hefur aukist um 5% á milli ára og óánægja minnkað um 6%.
Þá var einnig spurt hversu vel félagar þekktu réttindi sín, þar var um 4% aukning á þeim sem þekktu réttindi sín vel og um 5% fækkun á þeim sem ekki þekktu réttindi sín vel. Það er alltaf ánægjulegt að sjá að við séum á réttri leið og við hvetjum félagsmenn í FIT til að taka þátt í viðhorfskönnununum, því fátt gefur okkur gleggri mynd af vegferð okkar en einmitt þær.
Jafnrétti
Hún er afar ánægjuleg sú þróun að konum sé að fjölga jafn ört og raun ber vitni í iðngreinum. Sérstaklega hefur aukning verið undanfarið í bílgreinum, því hefðbundna karlavígi. Konur eru í auknum mæli að sækja í þessar greinar og láta gamaldags viðhorf sem vind um eyru þjóta. Í blaðinu sjáum við m.a. viðtal við Þórunni Önnu sem hefur alla ævi langað að verða bifvélavirki. „Það af hvaða kyni maður er, á ekki að stöðva mann í að gera það sem mann dreymir um“ segir Þórunn Anna og hittir þar naglann á höfuðið.
Það er undir körlunum komið að taka vel á móti öllum þeim konum sem vilja læra þessar áður hefðbundnu karlagreinar og við hjá FIT treystum því að fordómar heyri sögunni til. Enda segir Þórunn Anna: „Flestum þykir þetta bara flott hjá mér og ég verð ekki vör við mikla fordóma nema frá fáeinum aðilum, þá helst einhverjum af eldri kynslóðinni hvort sem það séu konur eða karlar. Mér finnst fordómarnir aðallega vera gagnvart konum og ekki endilega konum í bifvélavirkjun t.d. þetta klassíska, að konur viti ekkert um bíla. Það er nefnilega líka til alveg fullt af strákum sem vita ekkert um bíla.“
Innra starfið
Undir lok nóvember opnaði Hús Fagfélaganna formlega á Stórhöfða 31, en þar er nýtt skrifstofuhúsnæði FIT, Rafiðnaðarsambandsins, Matvís, Samiðnar og Byggiðnaðar. Félögin eru með sameiginlega móttöku og bætir þetta margfalt þjónustu við félagsmenn, þar sem nú er sambærileg starfsemi félaganna hlið við hlið. Þetta skapar meiri nánd, meira samtal og betra upplýsingaflæði. Þá er hið öfluga innra starf í gangi sem aldrei fyrr og má þar nefna heldrimannaferð félagsins. En sjaldan verður of sagt hversu mikilvægt það er að tryggja tengingu eldri félagsmanna okkar við FIT, sem og að geta leitað í reynslubrunn þeirra.
Samningamál
Það hefur mikið gengið á í kjaramálum félagsins. Þegar hefur verið gengið frá einhverjum samningum og má þar nefna kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga en hann var samþykktur með ríflega 80% atkvæða. Fleiri samningar eru í vinnslu og félagsmenn FIT geta verið fullvissir um að félagið leggur mikla vinnu í þessi mál. Stór hópur fólks vinnur myrkanna á milli við að tryggja sem besta niðurstöðu í þessu mikilvæga máli sem kjarasamningar eru. FIT er á verði fyrir ykkur og vonandi náum við að tryggja þá niðurstöðu sem við óskum eftir.
Hilmar Harðarson, formaður FIT
Desember 2019