Blikksmiðir tveggja tíma

Þeir Ingiberg Guðbjartsson og Arnór Ágústsson eru menn tveggja tíma, blikksmiðir tveggja tíma getum við sagt. Ingiberg fékk sín fyrstu kynni af blikksmíði sumarið 1954, þá 15 ára, Arnór Ágústsson hóf hins vegar nám í Blikksmiðnum haustið 2004 og hefur unnið þar síðan.

„Ég kynntist þessu fagi í Blikksmiðju J.B. Péturssonar sumarið 1954, mitt fyrsta sumar við vinnu í Reykjavík en þá bara í sumarvinnu,“ segir Ingiberg. „Ég ákvað að ganga í fyrirtæki og athuga með vinnu, eftir stopula tíð við höfnina og ýmis tilfallandi verk. Einhversstaðar hlyti að vanta starfskraft. Þegar ég gekk niður Ægisgötuna minntist ég þess að fimm árum áður hafði ég litið inn í Blikksmiðju J.B.P. og umsvifalaust rekinn út aftur, því staðurinn væri of hættulegur fyrir börn. Ég fór þar inn með hálfum hug án þess að vita að einmitt þann sama dag höfðu þeir auglýst eftir starfsmönnum. Þá var tekið betur á móti mér og ég ráðinn upp á unglingakaup. Launin voru greidd vikulega og við fyrstu útborgun sá ég að það var alltof mikið í umslaginu. Ég fór til eigandans með umslagið og sagði að ég hefði fengið of mikið útborgað. Hann sagði að þetta væri rétt útborgað, ef unglingar stæðu sig vel fengju þeir fullt kaup. Slík voru fyrstu kynni mín af Kristni Péturssyni. Hann átti eftir að vera húsbóndi minn næsta áratuginn.

Sumarið eftir, þegar ég hafði lokið landsprófi, var mér svo boðin vinna aftur og síðan námssamningur, sem ég þáði. Meistarinn minn var Kristinn Pétursson, sonur Péturs Jónssonar, sem var fyrsti blikksmiðurinn í Reykjavík, þannig að ég tilheyri þriðju kynslóð blikksmiða í Reykjavík.“

J.B.P. hafði enn á þeim tíma öll verkfæri til að smíða dósir fyrir niðursuðu. Þótt heimaniðursuða á haustin væri liðin tíð smíðaði Kristinn Pétursson dósir fyrir aldraða viðskiptavini á hverju ári og hélt áfram að þjónusta þau heimili sem stunduðu að sjóða niður matvæli, þegar Ingiberg byrjaði að starfa þar. Þetta var arfleifð frá tímum Péturs Jónssonar, en hafði dregist ansi mikið saman vegna breytinga í samfélaginu. „Þetta var gert einu sinni á ári fyrir þá kúnna sem fylgt höfðu fyrirtækinu í áratugi, en minnkaði stöðugt og áreiðanlega ekki rukkað mikið fyrir dósirnar. Þær voru handsmíðaðar hjá okkur og svo þurfti að loka þeim þegar þær höfðu verið fylltar af soðnum mat. Þá fór Sigurþór Þórðarson heim í eldhús til kvennanna til að lóða dósirnar aftur með tini. Sýrur voru ekki notaðar heldur harpix. Ég náði í endann á þessu, en fór aldrei inn í eldhús, var of ungur. Þetta var eins og hver önnur hefð hjá fyrirtækinu, að þjóna þessu fólki meðan það entist.“

Mjög fjölbreytt starfsemi

Þegar Ingiberg er spurður um helstu verkefni blikksmiða á þessum tíma segir hann að fyrstu verkefni hans hafi verið að smíða rennur og niðurföll fyrir íbúðahús og setja þær upp. „Þetta var smíðað í meterslöngum bútum og svo lóðað saman á staðnum. Verkfærin voru handverkfæri. Skipulagið var þægilegt hjá okkur að því leyti að við vorum með aðskilda beygjuvél og völsun, þannig var það ekki í öllum smiðjum. Í sumum smiðjunum var völsun, beygjuvél og úlster sambyggt í einu tæki.“

–Og úlster er hvað?

„Úlster var m.a. notuð til að gera rennukanta. Sem sagt, þetta voru mestan part handverkfæri sem miðuð voru við smásmíði, litla hluti. Á þessum tíma var þjónustunni við útgerðina að ljúka. Smiðjan hafði smíðað alls kyns ljós og luktir fyrir skipin, en þarna var farið að flytja slíka hluti inn.“

Annars var starfsemi J.B.P. mjög fjölbreytt. Kjarninn var að sjálfsögðu blikksmíði ásamt stáltunnugerð sem síðar varð sérstök verksmiðja sem framleiddi ýmsar vörur fyrir byggingaiðnaðinn og verslun með járnvörur auk þess að flytja inn.

„Tunnuverksmiðjan var um það bil að leggjast niður þegar ég byrjaði hjá J.B. Péturssyni,“ segir Ingiberg. „Ég tók þátt í að smíða nokkur þúsund tunnur, enda voru græjurnar ekki settar í gang nema fyrir lágmark þúsund tunnur.

Blikksmiðir smíðuðu annars flest það sem þurfti úr blikki til húsbygginga, allt frá þakgluggum til sökkulklæðninga, allar lagnir til útloftunar, þakrennur og niðurföll af þökum. Fullkomin loftræstikerfi voru að ryðja sér til rúms og stokkalásavélar voru almennar hér. Þar nutu menn verkmenntunar frá ameríska hernum.

Mikið var smíðað fyrir skip og báta og útgerðina, einnig bensín- og olíutanka fyrir litla og stóra bíla, jafnvel vatnstanka á slökkviliðsbíla. Endanlegur listi yfir framleiðsluna yrði langur, því sáralítið var flutt inn á þessum árum.

„Viðskiptavinurinn kom með teikningu af því sem hann vildi fá, oftast útlínur með nokkrum málum. Í samráði við kúnnann var síðan valið efni, endanleg útfærsla gerð og síðan samsetning hlutarins og öll gerð hans.

Stærsti stóllinn og stærsta trektin

Gott dæmi um eftirminnileg verkefni er smíði stærsta stóls í heimi fyrir sýninguna Heimilið 1977. Vinnufélagar mínir Guðjón Brynjólfsson og Vilhelm Guðmundsson urðu að útfæra og gera smíðateikningar og smíða síðan stólinn rúmlega sjö metra háan úr 65 sm. rörum sem samtals vógu ellefu tonn.

Annað verkefni, aðeins minna í sniðum, var smíði á módeli fyrir stærstu olíutrekt í heimi. Þá var mér rétt gömul auglýsing frá olíufélagi og sagt að smíða trekt eftir myndinni. Þegar ég hafði gert það var farið með trektina í Stálsmiðjuna, sem smíðaði eftir henni stærstu trekt í heimi. Hugmyndin og myndavalið var listamannsins. Þannig eru mörg listaverk, góð hugmynd, en oft þarf iðnaðarmenn til að ljúka verkinu.“

–Hvernig var hollustu- og öryggismálum háttað þegar þú byrjaðir?

„Það hefur ansi margt breyst í því og allt til batnaðar sýnist mér. Öryggisskór þekktust til dæmis ekki; ég sá einu sinni mann á léttum leðurskóm missa tær þegar járnklumpur datt af borði. Öryggisskór hefðu komið í veg fyrir svo alvarlegt slys. Loftræsting var víða léleg og ég vissi dæmi um sinkeitrun við suðu á sinkhúðuðu efni. Margir misstu heyrn varanlega þar sem heyrnarhlífar þekktust ekki og sumir töldu varasamt að troða bómull í eyrun, gerði jafnvel illt verra. Stundum lá móða yfir vinnusölunum vegna mengunar frá suðutækjum og lóðboltum. Lyftarar voru sjaldséðir á þessum árum og oftast var handaflið það eina sem stóð til boða.

Þarna var hönnun líka vanmetin. Flestar teikningar voru skissur með helstu málum og útfærslan í höndum iðnaðarmannanna. Við smíðuðum skápa fyrir rafbúnað í margar síldarbræðslur á Austurlandi og með einni pöntuninni fylgdu sænskar smíðateikningar með öllum skurðarmálum, hvar skyldi boruð göt, ásamt merkingum fyrir beygjur og samsetningu. Tímasparnaður var gífurlegur og efnisnýting mun betri.

–Þannig að þið hafið þjónað sjávarútveginum. En hvað um frystihúsin?

„Við unnum ekki mikið fyrir þau fyrr en farið var að endurnýja húsin vegna krafna um hreinlæti og hollustuhætti. Partur af þeirri endurnýjun var að setja upp loftræstikerfi og við smíðuðum mikið af þeim. Fórum um allt land til að setja þau upp.“

Flautandi katlar og reykháfar

–Hvaða framleiðsla í blikksmiðjum varð helst fyrir barðinu á innflutningi?

„Það er erfitt að átta sig á því, en líklega voru það aðallega ýmsir smáhlutir. Í blikksmiðjunni Gretti á Grettisgötunni höfðu lengi verið framleiddir katlar sem flautuðu þegar vatnið í þeim sauð. Þannig katlar voru í öðru hverju eldhúsi og sveitabæ um allt land, mjög vinsælir. Svo var farið að flytja svona katla inn og þá fjaraði fljótlega undan þessari framleiðslu. Blikksmiðjurnar voru svolítið sérhæfðar hver á sínu sviði. Upp úr 1960 var sérhæfingin orðin það mikil að sumir vildu skipta blikksmíðinni upp í tvö fög; loftræstingar og uppsetningu þeirra sem sérstakt fag en almenna blikksmíði sem annað fag. Það væri í sjálfu sér ekki óeðlilegt, í Danmörku er búið að skipta þessu fagi í a.m.k. þrjá hluta. Þessi hugmynd fékk ekki hljómgrunn hér. Meðal annars vegna þess að á þessum tíma komu til sveinsprófs þættir sem þeir nemar sem aðallega höfðu verið í loftræstikerfum höfðu aldrei smíðað. Oft t.d. reykháfa á báta, sem gátu verið alla vega.

Til sveinsprófs máttu nemendur koma með eigin teikningar af hlutum sem prófnefndin taldi gildar og uppfylltu þær kröfur sem gerðar voru til sveinsprófa. Sem dæmi get ég sagt frá því, að þegar leið að sveinsprófi hjá mér teiknaði ég garðkönnu með öllu sem henni fylgdi og ætlaði að smíða hana. Þá kom til mín vinnufélagi minn sem átti að fara í sveinspróf á undan mér og vissi ekkert hvað hann ætti að smíða, svo ég lét hann fá teikninguna mína. Þegar kom að mínu prófi gat ég auðvitað ekki smíðað sömu könnuna og varð að draga mér verkefni. Dró reykháf.“

–Voru nemendur þá ekki tilbúnir í prófið eftir fjögurra ára námstíma?

„Þetta var yfirleitt þannig að það var mjög einhæft sem nemendur fengust við megnið af námstímanum. Það var ekki fyrr en á síðasta árinu sem þeir fengu að smíða eitthvað annað en það sem atvinnulífið krafðist. Ég tók eftir þessu á sínum tíma og þetta er svona enn í dag. Það eru ákveðnir menn sem smíða vandasamari hluti. Hinir fá ekki tækifæri til þess, fá ekki að spreyta sig.“

Arnór: „Það er þannig að verkstjórarnir velja bestu mennina í hvert verkefni. Ég er til dæmis ekki að smíða það sama og Ingiberg, þótt ég sé búinn að vera þetta lengi í faginu, ég hef hreinlega ekki kunnáttu í það. Menn tala um að gömlu mennirnir þekki handbragðið og ýmislegt sem þeir ungu þekki ekki.“

Tækin hafa batnað

–Eru einhver af gömlu tækjunum sem þú notaðir þegar þú byrjaðir í faginu, Ingiberg, orðin úrelt. Einhver sem Arnór t.d. gæti ekki unnið með?

Ingiberg: Erfitt er að fullyrða að tæki séu úrelt, það hafa bara komið önnur betri á markaðinn. Það er ein vél niðurfrá sem notuð er töluvert mikið enn í dag. Þetta er amerísk vél og var notuð til að búa til lása á loftstokka. Það má segja að ein vél sé úrelt. Sú var notuð til að búa til lása á mjó rör. Í dag er lásinn einfaldlega settur á rörið áður en það er valsað, miklu öruggara.

Svo má ekki gleyma að ungu mennirnir geta smíðað sömu hlutina og þeir eldri, en gera það öðruvísi. Þegar maður til dæmis smíðaði hring í plötu mældi maður þetta upp og teiknaði og setti í hringskera og svo kom gatið og maður var voða flinkur. Þeir ungu teikna tölvumynd af þessu sama, setja plötu í skurðarvél og svo kemur stykkið tilbúið út.“

Arnór: „Þarna kemur munurinn á handbragðinu. Við ungu mennirnir kunnum á tölvur. Ég hef horft á Inga gera þetta; hann veit hvar punktarnir eru og svo klippir hann og allt smellur saman. Þetta er reynsla og þekking sem hann hefur aflað sér. En þegar kemur að því að smíða rennur, niðurföll og niðurfallsbeygjur, eru ekki margir af okkur ungu mönnunum sem geta það án þess að þurfa að teikna það allt frá grunni.“

Ingiberg: „Þetta er eins og að læra á hljóðfæri: þú þarft ekkert að sjá hvar nótan er, þú bara veist það.“

–Þegar þú komst inn í fagið ungur maður, Arnór, fékkstu þá í hendur svona tæki eins og þau sem Ingiberg var að vinna með þegar hann byrjaði? Kanntu eitthvað á þessi gömlu verkfæri?

Arnór: Já og nei. Ég kem inn í smiðjuna áður en hún fer að nútímavæðast. Hún var orðin svolítið á eftir í tækjavæðingunni þannig að ég náði í skottið á gamla tímanum. Beygjuvélin stóra, þar sem beygt var með handaflinu og Ingiberg nefndi áðan var til en ekki notuð. Þannig að ég notaði ekki mikið þessi gömlu tæki en skil hugmyndina á bak við þau.

Ingiberg: Gömlu vélarnar í Blikksmiðnum voru bara seldar og keypt ný og betri tæki. Þessar vélar eru í grunninn mjög einfaldar og unga fólkið gæti unnið á þær allar. Mín kynslóð þurfti að horfa á þær notaðar einu sinni og þá kunnum við á þær. Ég held að unga fólkið í dag þurfi ekki heldur að horfa tvisvar.

Við tölum í hundruðum, aðrir í milljónum

–Er þá blikksmíðin orðin tölvuvædd að einhverju ráði?

Ingiberg: „Já, mjög tölvuvædd. Þetta var mjög líkamlega erfið vinna, en er miklu léttari í dag. Ég er ekki viss um að ég gæti unnið við hana í dag, kominn á minn aldur, ef sú breyting hefði ekki orðið.“

Arnór: Tækin hafa breyst. Handknúin tæki eins og hnífar, sem voru býsna þungir að vinna á, eru orðnir sjálfvirkir í dag.

Breytingin á tækjunum frá því í gamla daga er mest sú að áður fyrr þurftirðu að hafa meiri líkamlegan styrk, beita meira líkamlegu afli við vinnuna. Beygjuvélin núna er þannig að þú stimplar inn tölu og hún beygir; áður þurftirðu að taka meira á. Þetta er kannski mesti munurinn, það er alltaf verið að framleiða tæki til að létta starfsmanninum vinnuna.

Við fórum á tækjasýningu í Þýskalandi í fyrrahaust. Þegar menn eru að tala um verð og framleiðslugetu á svona sýningum þá er verið að ræða um framleiðslutölur upp á milljónir stykkja. Við hér tölum um hundruð stykkja. Við erum ekki að tala um fullkomnustu vélarnar á markaðnum eða þær stærstu því markaðurinn hjá okkur er svo lítill. Framfarir og tækni eru kannski ekki að útrýma manninum en hún er að taka yfir, gera lífið auðveldara.

–Hvað um tækni eins og leisitækni, er hún komin í blikksmíðina?

Arnór: „Ekki í smiðjuna til okkar, en komin í fagið. Líka plasmatækni, sem sker allt út. Og vatnsskurður. Einhverjar smiðjur eru með svona vélar. En við notum plasmatækni við tölvustýrðan útskurð. Það er einmitt gott dæmi um það, hvernig verkefnin eru leyst á nýjan hátt.“

Ingiberg: „Talandi um þróunina, þróun verkfæra og breytt efni, þá er eitt sem hefur breyst mikið, það er hver á verkfærin. Þegar ég byrjaði að vinna í blikkinu voru eingöngu sameiginleg verkfæri, smiðjan átti þau. Iðulega kom fyrir að maður þurfti að bíða eftir verkfæri sem einhver annar var að nota. Ég spurði einhvern tíma verkstjórann hjá okkur hvort það væri ekki ansi mikið að þurfa að bíða kannski fimm mínútur af hverjum klukkutíma eftir verkfærum, eða jafnvel leita að þeim. Nei, honum fannst það ekki mikið mál. Ég benti honum á að þetta væri einn tólfti af klukkutímanum og yfir árið værum við heilan mánuð að leita að verkfærum í stað þess að vinna að framleiðslu. Það liðu ekki margir dagar þar til komnir voru verkfæraskápar fyrir alla starfsmennina, með öllum handverkfærum sem þörf var á fyrir hvern og einn. Í dag eiga allir blikksmiðir sín handverkfæri og fá greitt fyrir notkun þeirra. Þetta er gott dæmi um það hvernig hlutirnir þróast.

Verkfærin skapa vinnu

Verkfærin skapa vinnu. Smiðjurnar voru mjög hræddar við að kaupa svokallaðar beygjupressur. Þær gátu tekið þriggja metra langt stykki og mótað það eftir þörfum. Einn blikksmiðjueigandi spurði mig, þegar ég var að vinna vesturfrá, hvort það borgaði sig að kaupa svona tæki; það kostaði álíka mikið og ein íbúð. Ég svaraði honum að verkin kæmu til okkar eftir að við fengum þessa vél. Það var þörf fyrir hana. Eigandinn hafði verið á sýningu í Þýskalandi og sá þá þessa vél. Hann seldi lóð sem hann átti við Vesturgötuna og keypti vélina.“

–Eru einhverjar breytingar á efnisvali samhliða tækniframförum, hefur hráefnið, málmurinn, breyst?

Ingiberg: Ein breytingin er sú að flest af því efni sem við notum kemur nú í rúllum. Breiddin er einn og hálfur metri, en þykktin misjöfn. Svo er efninu raðað eftir þykkt. Menn velja sér það efni sem þeir nota, stilla á þá stærð sem þeir vilja láta klippa og vélin klippir það fyrir þá. Ef ég vil búa til stokk þá stimpla ég inn hvað ég vil hafa hliðarnar stórar og vélin beygir samkvæmt því og ég fæ stokkinn í hendurnar. Að vísu er lítilsháttar frágangur eftir, en þetta sýnir hve starfið hefur breyst.

Arnór: Ég náði þeim tíma þegar maður tók plötu, klippti hana í mál og beygði hana upp, jafnvel beygði í hana styrktarbrot áður en maður gat velt henni í stokk og læst henni.

Samtalið berst að vinnutímanum og breytingum sem hafa átt sér stað.

Ingiberg: „Sum fyrirtæki greiddu laun í veikindum starfsmanna mun lengur en samningar sögðu til um. Ég veiktist einu sinni frekar illa og var á spítala í rúma tvo mánuði, en átti ekki rétt á launum nema í mjög stuttan tíma. Kristinn Pétursson lét senda mér full laun upp á spítala allan tímann.

Eitt sem mér dettur í hug í sambandi við þessar samningaviðræður sem nú eru í gangi hjá verkalýðsfélögunum. Þar er einn þátturinn vinnutímabreytingar; það er talað um að fella niður kaffitíma og stytta matartíma. Ég vann í verkamannavinnu áður en ég byrjaði í smiðjunni. Þá byrjaði maður klukkan átta, tuttugu mínútna kaffitími um morguninn og klukkutími í matarhlé í hádeginu, tuttugu mínútna kaffitími eftir hádegið og hætt klukkan fimm. Þá var unnið á laugardögum. Þegar ég kom í smiðjuna var búið að breyta ýmsu þar og einnig í ýmsum öðrum fyrirtækjum. Við byrjuðum hálfátta og unnum þar með af okkur hálfan laugardaginn, svo var tekið kortér í kaffi í stað tuttugu mínútna og hálftími í mat; loks kortér í síðdegiskaffi. Eftir að dagvinnu lauk hafði verið tekinn kaffitími áður en eftirvinnan byrjaði, en honum var nú sleppt. Þessar styttingar gerðu klukkutíma sem við hættum fyrr á daginn. Það hefði engum dottið í hug að hætta að fara í kaffi. Það er margbúið að sanna að slíkar breytingar draga úr afköstum á vinnutímanum. Þá er stutt í kulnun í starfi, sem er vinnuleiði. Þessi þróun er ekki góð.“

–Voruð þið að smíða eitthvað í aukavinnu til að hafa á lager?

Ingiberg: „Jú, við framleiddum mikið af rafmagnstöflukössum og allskonar greinakössum fyrir rafvirkja; við vorum nokkrir sem fengum að smíða þetta í aukavinnu. Þetta gátu verið þrír-fjórir mánuðir sem við unnum mjög mikið við að framleiða þessar vörur. Það fór nú reyndar þannig að smiðjan var sífellt að bæta aðstöðuna, smíða tæki og mót sem gerði það að verkum að við urðum sífellt fljótari að smíða og framleiddum þar af leiðandi sífellt meira. Laun okkar fyrir hvern kassa voru hins vegar aldrei hækkuð og verðbólgan át alltaf upp ávinninginn. En svo þegar farið var að flytja svona kassa inn þá voru þeir innfluttu ekki samkeppnishæfir við okkar í verði.

Endurgerð gamalla húsa

–Svo voru það þakklæðningar, þær voru mikil sérhæfing hjá nokkrum fyrirtækjum, er það ekki? Þú komst að klæðningu á þaki gamla Iðnskólans við Tjörnina ef ég man rétt. Gott ef ekki í tvígang?

Ingiberg: „Ég hafði unnið við eirklæðningu turnsins á sínum tíma, þegar hann var endurbyggður. Seinna, þegar endurbyggja þurfti turninn eftir bruna í júní 1986, vildi borgin fá alla þá sem unnið höfðu við endurgerð turnsins nokkrum árum fyrr til að endurgera hann í sömu mynd. Ég hafði þá skipt um starfsvettvang en fékk leyfi til verksins hjá vinnuveitanda mínum, þótt reglan væri sú að starfsmenn hans máttu ekki vinna fyrir aðra. Þetta var sérstök undantekning.

Þegar læstar málmklæðningar voru enn við lýði notaði ég þær stundum. Það var bara einn galli, léleg hönnun. Svona klæðning var sett beint ofan á þakið þannig að ekkert loftaði undir. Svo fúnaði allt undir henni. Ég man þegar ég var að skipta um eirklæðningu á Fossvogskapellu, þá voru þök hinna ýmsu húsa að verða ónýt vegna þess að plöturnar höfðu verið lagðar beint á pappa sem var alltof þykkur; það vantaði loftun allsstaðar.

Leifur Blumenstein byggingafræðingur hjá Reykjavíkurborg sá um endurbyggingar á gömlum húsum. Hann velti þeim mikið fyrir sér og skoðaði gömul hús; vildi sjá hvað skemmdist og hvers vegna. Í flestum tilfellum vantaði útblástur, það komst alltaf raki inn. Þetta gerist enn í dag. Leifur bannaði þéttan tjörupappa, vildi aðeins nota vindpappa á allar standandi klæðningar. Svo vildi hann nota örþunnar tektur til að fá öndun. Sú aðferð var notuð þegar hann sá um viðgerð á þaki Iðnaðarmannahússins við Lækjargötu.“

–Þegar þú lítur til baka, Ingiberg, finnst þér þú hafa upplifað mikla þróun, tæknilega og faglega?

Ingiberg: Já, allir hlutir hafa þróast. Maður getur svo sem fundið að öllu; ég sakna þess stundum að hafa ekki smáverkfæri til að grípa til ef það er eitthvað lítilræði sem þarf að gera.

–Í bók Gunnars M. Magnúss um blikksmíði eru myndir af alls konar verkfærum, svo sem hömrum ýmiskonar. Eru svona verkfæri notuð enn í dag?

Arnór: Nei, sáralítið.

–En þú hefur notað þetta þegar þú byrjaðir, Ingiberg.

Ingiberg: Já, sumt notaði ég þá, en ekki í dag. En það eru til blikksmiðir sem sérhæfa sig í ýmsum verkefnum og sumir þeirra eru hreinir listamenn með hamrana.

–Er það svo að sá sem byrjar í faginu í dag geti algerlega notað þessi gömlu verkfæri vegna þess að það liggi nánast í augum uppi til hvers á að nota þau?

Arnór: Ég er ekki viss um að sá sem kemur inn í blikksmiðju blautur á bak við eyrun geti notað öll þessi gömlu góðu verkfæri. Allir þurfa tilsögn. Ekki síst vegna þess að allsstaðar, í skólakerfinu öllu, er verið að kenna á tölvur. Menn læra að nota tölvur, ekki hendurnar.

–Blikksmíði er þriggja ára nám; hvar fer verklega kennslan fram?

Arnór: Í Borgarholtsskóla í Reykjavík og eitthvað á Akureyri líka.

–Hvað eruð þið að smíða í verklega náminu; eitthvað upp á gamla móðinn eða eingöngu á nýjan máta?

Arnór: Langmest upp á nýja móðinn. Hjá mér eru það langmest verkefni sem tengjast loftræstikerfum og þakklæðningum.

–Er líf eftir blikksmíði, Ingiberg?

„Veit það ekki, er enn að vinna. Ég byrjaði að vinna hjá Blikksmiðnum, Malarhöfða 8, um síðustu aldamót. Þar kynntist ég algerlega nýjum tímum í faginu. Mestu líkamlegu átökin við vinnuna voru horfin, allar stærri vélar orðnar tölvustýrðar og unnu erfiðustu störfin sjálfvirkt eftir að búið var að forrita þær. Það var gert á mjög aðgengilega hátt. Verkefnin höfðu breyst að stórum hluta, en ég sá að ungu mennirnir gátu gert allt sem gert var áður, en gera það oft á annan og betri hátt.

Ég sé að nafnið á félaginu okkar, Félag iðn- og tæknigreina, er réttnefni.

 

Saga blikksmíði á Íslandi

  • Blikksmíði sem fag kemur upphaflega frá Skotlandi til Íslands á nítjándu öld. Þá til að mæta þörfum ferðaiðnaðar þess tíma. Breskir laxveiðimenn vildu gjarnan geta farið með niðursoðinn lax heim.
  • Andrés Fjeldsted fór til Skotlands að læra skipasmíði og blikksmíði og jafnframt lærði hann niðursuðu til að geta til að geta framleitt niðursuðudósir og allt sem til þurfti. Þetta vatt upp á sig, því þörfin fyrir blikksmíði var meiri en menn áttu von á. Andrés stofnaði fyrstu blikksmiðjuna á Íslandi árið 1862.
  • Hafliði Guðmundsson lærði blikksmíði hjá Andrési og stofnaði síðan blikksmiðju og niðursuðuverksmiðju á Siglufirði árið 1877.
  • Pétur Jónsson lærði blikksmíði hjá Hafliða á Siglufirði og stofnaði síðar fyrstu blikksmíðavinnustofuna í Reykjavík 1883. Hún varð seinna J.B. Pétursson.
  • Það var svo 25. maí 1935 sem Félag blikksmiða í Reykjavík var stofnað.

Birtist í fréttabréfi FIT í janúar 2019.