Fordómar gagnvart konum í bílgreinum á hröðu undanhaldi

Konum sem leggja fyrir sig bílgreinar í Borgarholtsskóla fjölgar jafnt og þétt og virðist það samdóma álit þeirra að fordómar gagnvart konum í þessum greinum séu á hröðu undanhaldi og séu jafnvel hreinlega fyrir bí.

Bílgreinar hafa jafnan verið taldar karlagreinar og ófáum sinnum hefur svipmyndinni af skítuga karlinum í samfestingi, útataður í olíu, hálfur ofan í húddinu, verið dreginn upp sem hin dæmigerða mynd. Það breytist hratt, því konum í þessum greinum fjölgar jafnt og þétt í náminu í Borgarholtsskóla.

Þær Ingibjörg Eir Sigurðardóttir og Þórunn Anna, stunda báðar nám í bifvélavirkjun og eru sammála því að kyn skipti engu máli þegar kemur að þessum greinum. „Áhugi minn á bifvélavirkjun kom fyrst fram þegar ég eignaðist minn fyrsta bíl. Faðir minn er rafvirki og hefur gaman af bílum og bílalagfæringum. Hann kom mér inn í þetta með því að kenna mér ýmsar grunnviðgerðir. Mér hefur alltaf fundist skemmtilegt að vinna í bílum og því meira sem ég prófaði með honum, því meira fór ég að gera sjálf. Seinna meir var ég farin alfarið að sjá um að laga mína bíla sjálf og farin að hjálpa vini sem á bílaverkstæði,“ segir Ingibjörg Eir Sigurðardóttir, sem er búin með fjórar annir í bifvélavirkjun.

„Námið er mjög fjölbreytt því það er svo margt sem hægt er að gera innan hennar, alltaf eitthvað nýtt að læra,“ segir hún og bætir við að námið henti öllum, hægt sé að vinna með náminu, sem sé opið og námsumhverfið gott.

Þórunn Anna tekur í sama streng, þetta sé gamall draumur. „Þegar ég var lítil langaði mig alltaf að verða bifvélavirki. Eftir að hafa prófað ýmislegt ákvað ég að prófa þetta, þar sem ég var ekki búin að finna mig í neinu öðru. Mér finnst að fólk eigi að læra það sem það vill, hvort sem það er kona eða karl eða skilgreina sig sem eitthvað annað. Það af hvaða kyni maður er, á ekki að stöðva mann í að gera það sem mann dreymir um,“ segir Þórunn Anna.

Mikil aukning hefur verið í fjölda kvenna sem fara í þessar greinar og samkvæmt upplýsingum Borgarholtsskóla eru konur nú helmingur allra sem stunda nám í bílamálunum og aukning er í bifreiðasmíðinni, svo allt horfir til betri vegar. Þegar talið berst að þessum hefðbundnu bílagreinum, er ekki hægt að halda áfram án þess að spyrja hvort þær hafi orðið varar við fordóma. „Persónulega finnst mér fólk verða meira hissa þegar ég segist vera að læra bifvélavirkjun. Flestum þykir þetta flott hjá mér og ég verð ekki vör við mikla fordóma, nema frá fáeinum aðilum, þá helst einhverjum af eldri kynslóðinni og gildir einu hvort það séu konur eða karlar. Mér finnast fordómarnir aðallega vera gagnvart konum, ekki endilega konum í bifvélavirkjun, til dæmis þetta klassíska að konur viti ekkert um bíla. Það er nefnilega fullt af strákum líka sem vita ekkert um bíla,“ segir Þórunn Anna. „Sem kvenmaður í bíliðnaðargreinum þá veit ég að áður fyrr voru einungis strákar að sækjast eftir því að fara í þetta nám, hvort sem það er bifvélavirkjun, bílamálun eða bílabygging. Ég sjálf hef ekki upplifað neina fordóma eða slíkt með því að vera kvenmaður í þessum geira og mér finnst að nú til dags sé fólk mjög opið og fagni þessari nýju stefnu. Mín skoðun er að nám sé ekki kynbundið og ef áhugi er fyrir hendi hvet ég alla til að fylgja sínu áhugasviði,“ segir Ingibjörg Eir.

Þórunn Anna segir líka skemmtilegra að sjá fleiri stelpur í náminu. „Við vorum þrjár stelpurnar þegar ég byrjaði í mínum hópi en nú er ég ein eftir. Það eru mun færri stelpur í bifvélavirkjun en bílamálun t.d. og ég sá í viðtali að nokkrar stelpur í bílamálun þorðu ekki í bifvélavirkjun út af fordómum, sem mér þykir sorglegt. Það hefði örugglega verið gaman að vera með fleiri stelpum í hópi, maður er ósjálfrátt smá útundan þegar maður er eina stelpan í hópi af strákum,“ segir Þórunn Anna. „Mín stefna er að klára námið, vinna sem nemi á góðu verkstæði í þann tíma sem krafist er fyrir sveinspróf og svo beinustu leið í prófið til að ná mér í bifvélavirkjaréttindi. Eftir það hef ég einnig hugsað mér að fara í mastersnám, hver veit nema maður opni sitt eigið verkstæði í lokin eftir góða reynslu á verkstæðum,“ segir Ingibjörg Eir.

Og Þórunn Anna reiknar líka með framtíðinni í greininni. „Ég hef verið að vinna á verkstæði Huyndai síðasta hálfa árið og er eina stelpan á verkstæðinu. Ég svo sem alla ævi verið í frekar karllægum störfum, ef svo má segja, og yfirleitt verið eina stelpan. Mér hefur verið vel tekið hvar sem ég fer og finnst ekki skipta máli að ég sé stelpa á þeim stöðum. Mér er tekið eins og hverjum öðrum. Það væri ánægjulegt að sjá fleiri stelpur gera það sem þær langar, hvort sem það er bifvélavirkjun eða eitthvað annað. Maður á ekki að láta einhverja kalla út í bæ stöðva sig. Ég væri að minnsta kosti frekar ósátt ef ég væri núna í einhverju fagi sem mig langaði ekki að vera í, af því að einhver sagði að ég gæti ekki orðið bifvélavirki.“

Á myndinni eru Þórunn Anna og Ingibjörg Eir.

Birtist í fréttabréfi FIT í desember 2019.