Með baráttuna að leiðarljósi

Hilmar Harðarson, formaður FIT – Félags iðn- og tæknigreina, þekkir baráttuna fyrir réttindamálum launafólks vel. Hann hefur staðið í eldlínunni frá stofnun félagsins. Hilmar er einnig formaður Samiðnar og er í miðstjórn og samninganefnd ASÍ. Það er því í mörg horn að líta hjá Hilmari og mörg mál sem þarf að sinna og berjast fyrir.

Mikilvægt að fagmenntaðir sinni iðnvinnu

„Ríkisstjórnin segist vera að beita sér fyrir því að styrkja iðngreinar og fjölga iðnmenntuðum en svo koma ótrúlegar ákvarðanir sem erfitt er að skilja. Enn og aftur á að taka lögverndunina af iðngreinum sem er með öllu óskiljanlegt. Það er mikilvægt að fagmenntaðir sinni iðnvinnu þannig að viðskiptavinir geti gengið að því vísu að það sé að kaupa þjónustu faglærðra en ekki einhverra fúskara sem hafa enga iðnmenntun að baki. Sama má segja um iðnaðarlögin, eða frumvarp sem liggur fyrir um þau og einföldun regluverks. Frumvarpshlutinn sem snýr að okkur iðnaðarmönnum heldur ekki vatni og rökin fyrir breytingunum eru skref í ranga átt. Það er ekki einu sinni haft samráð við iðnaðarmannafélögin við endurskoðun iðnaðarlaga. Við höfum sent inn umsagnir við þetta sérkennilega frumvarp þar sem skoðunum okkar er komið skýrt á framfæri. Stjórnvöld hafa talað fjálglega um að styrkja iðngreinar í sessi en taka síðan ákvarðanir sem eru í þveröfuga átt,” segir Hilmar.

Hann segir frumvarpið fyrir jafngildingu iðnnáms vera í vinnslu. „Verði frumvarpið að lögum þýðir það að sveinspróf verður jafngilt stúdentsprófi hvað varðar aðgang að háskólum. Þetta er gríðarleg mikil viðurkenning á mikilvægi iðngreina og það skiptir okkur miklu máli að félagar okkar geti sótt sér frekari menntun enda verðmæti í því fyrir þjóðfélagið að fjölbreyttur bakgrunnur búi að baki háskólamenntun.”

Mikil áhersla lögð á verkefnið „Allir vinna”

„Ég vil hrósa ríkisstjórninni fyrir að hafa sett í gang átakið „Allir vinna”. Við lögðum mikla áherslu á að átakið, sem felur í sér fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu við margvíslegar framkvæmdir, svo sem byggingarframkvæmdir íbúða og frístundaheimila og viðhald bifreiða, yrði framhaldið. Við höfum lagt áherslu á umrætt verkefni enda er það atvinnuskapandi og einnig mikilvægt út frá neytendasjónarmiðum enda tryggir það enn frekar að leitað sé til fagmanna sem er mikið kappsmál allra. Að sama skapi teljum við mikilvægt að umrædd endurgreiðsla á virðisaukaskatti taki einnig til framkvæmda á vegum sveitarfélaga. Stjórnvöld mátu það svo að átakinu „Allir vinna“ skyldi haldið áfram út árið 2021 og ber að hrósa stjórnvöldum fyrir þá ákvörðun,” segir Hilmar.

Hann segir að verkefnastaða iðnaðarmanna hafi verið góð í sumar en bætir við að það sé allsendis óvíst hvernig veturinn þróast. „Það má búast við áframhaldandi ágjöf á atvinnulífið. Það er því brýnt að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og stuðla að því að það skili mikilvægum virðisaukandi verkefnum til samfélagsins. Átakið „Allir vinna” lækkar kostnað almennings en það er mikilvægt að fólk geti leitað til fagmanna varðandi byggingarframkvæmdir og bílaviðgerðir og hins vegar verndar það mikilvæg störf í iðngreinum.”

Mikilvægt neytendamál

Hilmar segir að átakið „Allir vinna“ sé mikilvægt neytendamál. eFólk leitar nú frekar til faglærðra varðandi endurbætur og viðhald. Með átakinu er verið við að sporna gegn því að endurbætur á húsnæði, viðgerðir og viðhald ökutækja fari fram í svörtu hagkerfi um leið og við tryggjum faglærðum áframhaldandi vinnu. Þetta átak er því gríðarlega mikilvægt í báðar áttir. Það vinna allir. Það var einnig afar mikilvægt að víkka þetta átak út og að það taki nú einnig til viðhalds og viðgerða fólksbifreiða. Yfir 4.000 manns starfa í bílgreinum á Íslandi og er þetta mikilvægt skref til þess að halda uppi atvinnustigi í greininni auk þess sem það eykur umferðaröryggi.

Samiðn hefur lýst því yfir að mikilvægt sé að umrædd endurgreiðsla verði víkkuð út með þeim hætti að hún taki til allra skráningarskyldra ökutækja enda eru engin rök fyrir að undanskilja bifhjól, hjólhýsi, tjaldvagna eða önnur skráningarskyld ökutæki í þessu sambandi. Við höfum bent stjórnvöldum á þetta og við teljum brýnt að umræddar breytingar verði gerðar hið fyrsta.”

Aldrei mikilvægara að stjórnvöld horfi til atvinnuskapandi verkefna

Hilmar segist hafa átt von á meiri framkvæmdum á vegum ríkistjórnar og sveitafélaga á þessu ári. “Það hefur í raun aldrei verið mikilvægara en nú á samdráttartímum að stjórnvöld horfi til verkefna sem stuðla að atvinnusköpun. Ljóst er að mörg verkefni koma þar til greina, bæði á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar. Ég tel afar mikilvægt að framkvæmdir hefjist sem allra fyrst.

Verulega hefur skort á viðhaldsframkvæmdir hjá hinu opinbera síðustu miss erin og nú er lag að bregðast við uppsafnaðri þörf þar. Brýnt er að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og stuðla að því að greiðslur úr ríkissjóði skili mikilvægum virðisaukandi verkefnum til samfélagsins. Umrædd endurgreiðsla í átakinu “Allir vinna” tekur einnig til framkvæmda og viðhalds á öllu húsnæði í eigu sveitarfélaga. Nú er því lag að sveitarfélögin fari í framkvæmdir sem hafa lengi setið á hakanum sem og horfi til nýrra verkefna sem mikilvægt er að fara í.”

Verulega skort á viðhaldsframkvæmdir hjá hinu opinbera

Deilurnar um hjúkrunarrýmin hjálpa ekki til að sögn Hilmars. “Auðvitað þarf að gera stóran skurk í því enda kemur í ljós að ástand margra bygginga er mjög bágborið. Það væri mjög einfalt að setja af stað verkefni til að koma í veg fyrir að þessi húsnæði verði ónýt og uppfylli í staðinn þær kröfur sem settar eru á okkar tímum. Að undanförnu hefur verið mikil umræða um rakavandamál í byggingariðnaði, sér í lagi um myglu og áhrif hennar á líf okkar. Þetta er raunar mjög þörf umræða enda eru þess mörg dæmi að upp hafi komið alvarleg heilsufarsleg vandamál í tengslum við myglu.

Þá hefur komið til mikið fjárhagslegt tjón vegna myglu og annarra atriða sem tengjast henni. Auðvitað getur margt komið til þegar leitað er ástæðna fyrir myglu en ljóst er að eitt það mikilvægasta er þó að vanda til verka og leita til þeirra sem hafa þekkingu og færni á viðkomandi sviði. Löggiltir iðnaðarmenn eru frumforsenda fyrir fagmennsku í vinnubrögðum. Þá hefur átt sér stað mikil vitundarvakning á meðal faglærðra iðnaðarmanna um myglu og mikið framboð er af endurmenntun á þessu sviði fyrir iðnaðarmenn, m.a. hjá IÐUNNI fræðslusetri.

Þetta er enn ein ástæðan fyrir því hversu mikilvægt er að velja fagmennsku. Þarna er heilsa okkar í húfi og við eigum ekki að gefa neinn afslátt af henni. Við höfum skorað á stjórnvöld að hraða innviðauppbyggingu og setja í gang mannaflsfrekar framkvæmdir eins fljótt og frekast er unnt. Það er á svona tímum sem reynir á stjórnvöld að styðja við af fullu afli og ljóst er að enginn hörgull er af verðugum verkefnum sem ráðast þarf í.”

Höfum náð ýmsu í gegn í kjarasamningum

Hilmar bendir á að hagfræðideild Landsbankans hafi t.d. vakið athygli á því í haust að fjárfestingartölur hins opinbera væru ekki í samræmi við yfirlýsingar stjórnvalda. “Þar kemur m.a. fram að fjárfesting ríkissjóðs hafi minnkað um 17,1% milli fyrri árshelminga 2019 og 2020 og fjárfesting sveitarfélaganna um 9%. Við lýstum yfir vonbrigðum okkar með þetta og áréttuðum mikilvægi málsins. Þegar fyrirséð var að áhrif Covid-19 yrðu mikil á íslenskt samfélag boðaði ríkisstjórnin opinbert fjárfestingarátak. Hins vegar er staðan sú að fjárfestingar ríkissjóðs og sveitarfélaganna hafi ekki aukist í takt við þær yfirlýsingar. Við höfum ítrekað áskorun okkar til stjórnvalda að standa við orð sín og auka verulega umsvif sín í opinberum framkvæmdum sem allra fyrst.” Mikil vinna hefur farið í að fylgja eftir kjarasamningum. Við höfum náð ýmsu í kjarasamningum bæði við ríkið og sveitarfélög. Ég hefði samt sem áður viljað sjá vaxtalækkanir skila sér betur út í umhverfið,” segir Hilmar og heldur áfram: “

Margir kjarasamningar hafa verið opnir sem hafa farið út í harðar deilur m.a. við stóriðjuna ofl. Það hefur því verið nóg að gera á þessu sérstaka ári. Það hefur verið mikið álag á okkar starfsfólk í þessum kjarasamningum.

Viðræður eru hafnar um stofnanasamninga við ríkið en þeir eru komnir mislangt. Samiðn er komið með tengilið hjá hverri stofnun sem er viðloðandi viðræðurnar. Markmiðið er að klára umræddar viðræður sem fyrst í takt við þá niðurstöðu sem varð hjá Landspítalanum. Þá erum við einnig að undirbúa könnun á nýju ári sem snýr að sumarhúsum okkar og hvað megi betur fara þar.”

Mikil umræða um Planið

Talsverð umræða hefur skapast um Planið sem var á dagskrá Samiðnar fyrir nokkru. “Það er mikið um auglýsingar frá ófaglærðum aðilum og við höfum vitneskju um starfsemi sem er í gangi og er ekki í samræmi við lög og reglur. Samráð er hafið við LMB Mandat um næstu skref Samiðnar en ljóst er að það er vilji til að halda áfram með málið og það er nauðsynlegt.

FIT hefur kallað eftir að hið opinbera hætti að sýna linkind í þessum málum og sýni meiri hörku enda virðist það vera það eina sem þeir aðilar sem stunda svikastarfsemi á borð við þessa virðast skilja. Við þurfum refsiákvæði í iðnaðarmannalögin, tæki og tól sem duga til að kveða þessa ólöglegu starfsemi niður. Verið er að kortleggja næstu skref og til hvaða aðgerða eigi að grípa en ljóst er að FIT mun halda áfram að berjast í þessu máli með öllum leiðum sem færar eru.

Kennitöluflakk, svört atvinnustarfsemi og gerviverktaka er einhver mesta ógn við heilbrigða atvinnustarfsemi sem við erum að glíma við. FIT hefur um árabil verið leiðandi í baráttu gegn þessari vá og við höldum þeirri baráttu áfram svo lengi sem hún fær að viðgangast í íslensku þjóðfélagi. Því miður gengur hægt að uppræta þessa vá og þar miklu um að kenna skilningsleysi hins opinbera,” segir Hilmar.

Samstarf félaga iðnaðarmanna mjög gott

Samstarf félaga iðnaðarmanna hefur verið mjög gott að mati Hilmars. Hann segir menn hafa staðið þétt saman í kjaramálum og menntamálum.“

Samstaðan skiptir mjög miklu máli. Við höfum náð betri árangri saman en sundur. Við teljum okkur hafa náð meiri samleið eftir að við fluttum á Stórhöfða með hinum iðnfélögunum. „Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér“ á vel við um kjarnastarfsemi og tilgang FIT. Við stöndum sameinuð að verki og náum þannig þeim árangri sem við stefnum að. Það er gríðarlega mikill auður í þeirri þekkingu sem FIT býr yfir og hana nýtum við í vinnu okkar á hverjum degi, hvort sem er á þeim fjölmörgu vinnustöðum sem FIT félagar starfa á, eða í baráttunni sem stjórnað er frá skrifstofunni.

FIT stendur afar vel. Sjúkrasjóður félagsins er öflugur, endurmenntunarsjóður stendur afar vel, verkfallssjóður er sterkur og svo mætti áfram telja. Allt þetta ber vitnisburð um það öfluga starf sem unnið er hjá FIT.”

Árvekni er lykilatriði í öflugu félagi eins og FIT

Hilmar segir starfið hins vegar þess eðlis að aldrei megi sofna á verðinum. “ Árvekni er lykilatriði í öflugu félagi eins og FIT. Sífelld hagsmunagæsla félagsmanna er til staðar. Vinnustaðaeftirlit, vinnustaðaheimsóknir, samstarf og samvinna við fyrirtæki og opinbera aðila, öflugt innra starf, launakannanir, félagsstarf, harka þegar hörku er þörf í kjaraviðræðum, skilningur á sífellt breytilegu landslagi og þróun starfa, alþjóða samstarf til að tryggja að við séum alltaf með á nótunum; allt þetta gerir FIT að því öfluga félagi sem það er.”

Samiðn hefur ráðið nýjan framkvæmdastjóra Elmar Hallgríms Hallgrímsson. Elmar er einnig menntaður lögfræðingur og mun hann nýtast bæði Samiðn og FIT sem og öðrum iðnaðarfélögum mjög vel í okkar baráttumálum. „Við erum afar ánægð og fá Elmar til okkar. Hann mun reynast okkur öflugur liðsstyrkur. Það er alltaf gott að hafa gott fólk með sér og við erum mjög lánsöm að eiga öflugt starfsfólk hjá FIT með mikla hæfni og reynslu,” segir Hilmar og bætir við að hann sé bjartsýnn á að það takist að klára ýmis baráttumál sem á dagskrá eru á nýju ári.

Nauðsynlegt að koma af stað vinnustaðaheimsóknum á nýjan leik

„Ég vil ennfremur hrósa starfsfólki og öllum félagsmönnum fyrir mjög gott samstarf á árinu sem senn fer að líða. Þetta er búið að vera mjög sérstakt ár og krefjandi ár sökum þess fordæmalausa ástands sem hefur skapast í samfélaginu vegna Covid-19. Ég hlakka mikið til að komast aftur út og geta heimsótt okkar félagsmenn á vinnustöðum. Það hefur að mörgu leyti verið skert þjónusta við okkar fólk vegna þessa ástands en við á skrifstofu FIT höfum reynt okkar allra besta við að svara fyrirspurnum og vera til staðar. Það er nauðsynlegt að koma af stað vinnustaðaheimsóknum á nýjan leik og að okkar félagsmenn geti heimsótt okkur á skrifstofu FIT. Það jafnast ekkert á við það að hitta fólk og eiga eðlileg samskipti. Við horfum bjartsýn á nýtt ár og vonum að það megi veita okkur öllum gæfu,” segir Hilmar að lokum.