Aðstaðan er mjög góð og kennararnir mjög færir

Lilja Hildur Árnadóttir og Helga Guðrún Sigurðardóttir eru nemar á húsasmíðabraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Okkur langaði að forvitnast um hvaða skoðanir iðnaðarmenn framtíðarinnar hafi á ýmsu tengt náminu og hverjir þeirrar framtíðardraumar séu. Það er mjög mikilvægt fyrir samfélagið á Suðurnesjum að þar skuli vera tækifæri til að læra iðngreinar í nærumhverfinu.

Lilja Hildur Árnadóttir og Helga Guðrún Sigurðardóttir eru nemar á húsasmíðabraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Okkur langaði að forvitnast um hvaða skoðanir iðnaðarmenn framtíðarinnar hafi á ýmsu tengt náminu og hverjir þeirrar framtíðardraumar séu. Það er mjög mikilvægt fyrir samfélagið á Suðurnesjum að þar skuli vera tækifæri til að læra iðngreinar í nærumhverfinu.

Smíði varð fyrir valinu

„Ég held ég hafi farið í gegnum öll klassísku tímabilin sem barn getur farið í gegnum varðandi störf. Einn daginn vildi ég verða geimfari og þann næsta snyrtifræðingur,“ segir Helga Guðrún sem er 17 ára gömul. Hún bætir við að hún hafi snemma fengið áhuga á byggingum og var snemma komin á þá skoðun að ætla sér að verða arkitekt. Í kringum 13 ára aldur heyrði hún að smíði væri góður grunnur fyrir arkitektanám. Eftir það hefur Helga Guðrún haft það að markmiði sínu að verða smiður.“

Lilja Hildur, sem er 18 ára, tekur í sama streng. „Á mínum yngri árum langaði mig að verða hárgreiðslukona en sá draumur entist ekki lengi því ég fékk strax leið á að gera í hár. Síðan tók við nýr draumur um að verða flugmaður,“ segir Lilja Hildur.

Hún segist alltaf hafa haft gaman af því að vinna með höndunum og vera að brasa við að búa til hluti og því varð smíði fyrir valinu. „Ég fann að þetta væri mitt áhugasvið þegar ég var í 9. bekk í grunnskóla og sá fram á það að ég gæti staðið mig vel í því námi og myndi hafa gaman af því.“

Þegar talið berst að náminu og Fjölbrautaskóla Suðurnesja þá er ekki annað hægt en að spyrja þær um smíðakennsluna. „Aðstaðan er mjög góð og kennararnir mjög færir í að kenna út frá sinni reynslu. Við lærum grunninn í smíðum og það helsta sem viðkemur smíði. Við höfum verið að smíða allt frá dúkkurúmi upp í bústað,“ segir Lilja Hildur og Helga Guðrún heldur áfram „Aðstæðurnar í FS fyrir smíðanám hafa reynst mér mjög góðar og verkefnið hjá mér þessa önnina er að smíða sumarbústað með öllum hópnum mínum.“

Alveg nógu sterkar

Konur hafa verið að ryðja sér til rúms í ýmsum iðngreinum sem hafa í gegnum tíðina flokkast undir karlagreinar. Hvaða skoðanir ætli þessar ungu konur í smíðanáminu hafi á því?

Helga Guðrún er fyrri til að svara „Já, ég verð alveg vör við það að fólk er hissa og forvitið að kona sé í smíðanámi og ég fæ mikið af spurningum eins og ,,hvernig er að vera kona með öllum þessum strákum?” eða ,,ertu þá ekki eina konan?” Lilja Hildur bætir við: „Já, ég hef einnig orðið vör við það. Ég sá mig aldrei fyrir mér að vinna svokallaða „karlmannsvinnu“ en stelpur geta alveg unnið þessa vinnu eins og karlmenn geta hugsað um heimilið.“ Hún bætir við að hún þurfi væntanlega að vinna hörðum höndum í þessu starfi en starfið sjálft hentar báðum kynjum. Til dæmis þá eru konur oft miklu vandvirkari en karlar og er það góður kostur í þessu starfi.“

Lilja, Helga og Gunnar fyrir framan sumarhús í byggingu sem er
árlegt verkefni hjá FS

Helga Guðrún samsinnir þessu og segist vera fullviss um að konur geti unnið sem smiðir jafnt sem karlar. Hún hafði að vísu haft áhyggjur af því að vera ekki nógu líkamlega sterk fyrir námið og þá vinnu sem þarf að framkvæma en segist hingað til hafa verið alveg nógu sterk.“ Við höldum umræðunni áfram og þær stöllur koma inn á fordóma sem þær segjast finna fyrir

„Fólk hefur oft hneykslast á því að ég sé í þessu námi og til dæmis spurt hvort ég sé nógu sterk í hitt og þetta en slíkir fordómar hvetja mig bara til þess að vinna harðar og leggja meira á mig,“ segir Lilja Hildur og Helga Guðrún bætir við: „Því miður hef ég orðið vör við fordóma gagnvart því að vera kona í trésmíði og viðurkenni alveg að það tekur oft á að vera kona í þessum geira. En fólk tekur því nokkuð vel almennt að ég sé kona í smíði.“

Gott aðgengi að náminu

Við ákveðum að snúa okkur að framtíðinni. Hvenær ljúka þær námi og eru þær búnar að fá vinnu? „Ég ætla að taka stúdentspróf samhliða sveinsprófinu, þannig að stefna er að vera búin með allt á 4-5 árum en ég er núna að verða búin með eitt og hálft ár. Ég er því miður ekki komin með vinnu við fagið,“ segir Helga Guðrún ögn áhyggjufull og Lilja Hildur heldur áfram og segir:

„Ég er heldur ekki komin með vinnu á þessu sviði en ég reikna með því að ljúka náminu eftir tæpt eitt og hálft ár ef allt gengur að óskum.“ En hvaða skoðun ætli þessir ungu, glæsilegu fulltrúar iðnema hafi á því hvernig auka megi áhuga ungs fólks almennt á iðngreinum. „Smíði getur verið grunnur fyrir eitthvað mjög stórt og flest allar iðngreinar bjóða upp á marga möguleika. Þessar greinar eiga alltaf til með að gagnast okkur í framtíðinni og eiga bara eftir að stækka með árunum,“ segir Lilja Hildur stolt og ákveðin.

Helga Guðrún heldur áfram og bætir við: „Ég held að skemmtileg og áhugaverð fræðsla og gott aðgengi að náminu er aðalatriðið í því að ungt fólk fái áhuga á náminu. Ég vil bara hvetja alla þá einstaklinga sem vilja læra smíði eða hafa einhvern áhuga á því að „go for it!“ Það er komið að lokum spjallsins og veltum því fyrir okkur hvar þær sjái sig eftir 10 ár. „Ég sé fyrir mér að vera erlendis að klára arkitektanám sem hefur verið draumurinn minn síðan ég var 12 ára,“ segir Helga Guðrún hress í bragði og Lilja Hildur tekst á flug og hefur stóra drauma

„Ég sé mig fyrir mér vera búin með meistaraskólann og kannski eitthvað háskólanám að auki. Minn helsti draumur er samt að stofna fyrirtæki tengt þessari grein. Ég hef oft hugsað til þess að byggja umhverfisvæn hús.“ Eftir þetta spjall við Helgu Guðrúnu og Lilju Hildi er ekki hægt annað en að vera bjartsýnn fyrir hönd íslensks iðnaðaðar í heild sinni ef að þessi jákvæði hugsunarháttur er hjá flestum iðnnemum sem koma til með að taka við iðngreinunum í framtíðinni.

Birtist í Fréttabréfi FIT 2020.