Gott að hafa gaman í vinnunni

Steindór Sigfússon múrari hefur starfað í rúm 30 ár við múrverk. Hann er ættaður úr Skagafirðinum. „Ég er fæddur sama ár og Stalín dó árið 1953. Ég er sveitamaður í húð og hár. Ég er fæddur og uppalinn í Lýtingstaðahreppi hinum forna. Hreppurinn er í innanverðum Skagafirði, vestan Héraðsvatna. Lýtingsstaðahreppur er ekki til lengur því árið 1998 sameinaðist hann 10 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði.“

„Ég var í sveitinni fram að 15 ára aldri er ég dreif mig út á Sauðarkrók og fór í iðnskólann þar. Ég ætlaði þá að verða húsasmíðameistari en sá draumur rættist nú raunar aldrei en annað gott kom í staðinn,” segir hann og brosir. „Ég fór á síldarbát þegar ég var 17 ára haustið 1970. Það var í fyrsta skipti sem ég fór að heiman svo heitið geti. Ég var á síld á bátnum Hamravík KE75. Þetta var mikið fjör fyrir 17 ára gutta. Ég var svolítið sjóveikur til að byrja með en það fór þó fljótt af mér. Þetta var góð reynsla fyrir ungan mann.

Þarna lærði maður ýmislegt. Ég byrjaði síðan á sjó fyrir alvöru þegar ég réð mig á togara frá Sauðárkróki. Þá var ég 21 árs. Ég fór á Hegranes SK og var þar í rúmt ár. Ég hætti þar á Þorláksmessu 1975 og fór suður í Grindavík og var þar tvær vertíðar. Á sumrin var ég að vinna hér og þar. Árið 1977 flutti ég á Dalvík ásamt fjölskyldu minni. Ég hafði kynnst konunni minni, Jóhönnu Óskardóttur, í Hveragerði 1976 þar sem ég hafði unnið um tíma sem handlangari fyrir múrara. Ég bjó í 13 ár í Dalvík og starfaði sem sjómaður. Ég var fyrst á Stafnesinu en síðan réði ég mig á Harald EA62 og var í nokkur ár. Það var mjög vel að þeirri útgerð staðið,” segir Steindór.

Lærði múrverk og sér ekki eftir því

Hann ákvað síðan að flytja til Reykjavíkur 1990 og segist þá hafa verið farinn að huga betur að hvað ég ætti að gera þegar hann yrði stór. „Ég fór á samning hjá Erni Snævari Jónssyni múrarameistara. Vegna verkefnaskorts skipti ég um vinnu og kláraði samninginn hjá Reyni Hjörleifssyni múrarameistara. Ég fékk iðnnámið á Sauðárkróki metið að miklu leyti og allt bóklega námið, þegar ég fór í Iðnskólann í Reykjavík 1991. Þá var draumurinn um húsasmíðameistarann úr sögunni og ég var þá ákveðinn að læra múrverk og sé ekki eftir því.

Ég tók sveinsprófið 10. desember 1993 og fékk sveinsbréfið í janúar 1994. Ég fór ekki í meistaranámið. Ég reyndi að reka eigið fyrirtæki en það tók mig 10 mánuði að átta mig á því að það var ekki starfsvettvangur fyrir það. Ég sá þá fyrir mér að það væri raunar betra fyrir mig að starfa hjá meisturum heldur en að reka eigið fyrirtæki.”

Notalegur vinnudagur í sólbaði í Firðinum

Ég fór niður í múrarafélag og talaði við Helga Steinar formann og bað hann að benda mér á einhverja góða meistara sem ég gæti unnið hjá. Og úr varð að ég hef unnið hjá fjórum góðum meisturum sem hann benti mér á og það hefur varla dottið út dagur hjá mér í 30 ár. Ég hef haft meira en fulla vinnu síðan ég byrjaði í múrverkinu í ágúst 1990. Þeir meistarar sem ég hef unnið hjá á um 30 árum eru Reynir Hjörleifsson, Sigurður Heimir Sigurðsson, Guðmundur Hallsteinsson og Gylfi Ómar Héðinsson. Ég hef góða sögu að segja af þeim öllum. Þeir hafa allir staðið við sitt og það hefur verið gott að vinna fyrir þá alla. Þeir eru allir prýðismenn. Eigum við ekki að segja að líkur sæki líkann heim,” segir Steindór og brosir.

Aðspurður um einhverja skemmtilega sögu úr vinnunni segist hann luma á einni. „Við múrararnir vorum eitt sinn sendir suður í Hafnarfjörð. Þá átti að huga að því að gera við hús í Firðinum.

Vinnupallarnir voru á leiðinni og áttu að koma klukkan hálfníu um morguninn. Við vorum mættir snemma eða um klukkan 8 og það var sólríkur dagur. Við vorum í sólbaði allan daginn því kallarnir með pallanna komu ekki fyrr en daginn eftir. Þetta var því ansi notalegur vinnudagur í sólbaði í Firðinum,” segir hann glottandi.

Heppinn að hafa alltaf nóg að gera

Steindór hefur unnið mikið við að pússa skólabyggingar á höfuðborgarsvæðinu. “Ég hef pússað 14 skólabyggingar í Reykjavík, Hafnarfirði , Garðabæ og Kópavogi. Ég hef pússað upp sex íþróttahús á höfuborgarsvæðinu. Þetta voru allt mjög stór verk. Ég var t.d. í Haukahúsinu á Ásvöllum í 13 mánuði samfleytt um síðustu aldamót. Það var mjög mikil vinna í Haukahúsinu enda mikið verk m.a. sjálfur íþróttasalurinn og búningsklefar. Það var allt pússað að innan þarna, hver einasti flötur í öllum rýmum. Guðmundur múrameistari var með Haukahúsið. Við vorum að jafnaði sex iðnaðarmenn að vinna þetta verk. Ég var einnig 10 mánuði í Hofsstaðaskóla í Garðabæ og þar var mikið sem þurfti að vinna í múrverkinu. Sigurður Heimir var með þetta verk. Við vorum að jafnaði um fimm að vinna þetta saman enda bæði þessi verkefni mjög stór og viðamikil.”

Steindór segist telja sig hafa verið mjög heppinn alla tíð. „Ég hef alltaf haft nóg að gera. Ég hef unnið í þessu hefðbundna múrverki, að koma múrblöndunni upp á vegginn, rétta vegginn af og pússa. Þetta fer betur með mann heldur en flísalögnin. Þessi vinna á mjög vel við mig og því hef einbeitt mér að henni. Ég hef unnið nánast eingöngu á höfuðborgarsvæðinu. Eitt sinn fór ég í verkefni í Sandgerði en þar fyrir utan hafa öll mín verk verið unnin í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ.

Dýrafjörður fallegasti staðurinn

Aðspurður um áhugamál utan vinnunnar svarar Steindór: „Ég hef gaman af ferðalögum. Ég og konan ferðumst mikið um landið og frekar hér á landi heldur en erlendis. Mér finnst fallegasti staður landsins vera Dýrafjörður. Það er þó mjög mikið af fallegum stöðum hér á fallega landinu okkar. Mér finnst auðvitað gaman að koma heim í Skagafjörðinn og þá er ég líka alltaf ánægður að koma í Eyjafjörðinn. Fyrsta utanlandsferðin mín var til Majorka þegar ég var um tvítugt. Ég var þar í samfloti með skemmtilegum manni, Ólafi Helga Antonssyni, sem var skipfélagi minn á Hegranesinu. Hann kunni mikið af lögum og ljóðum og var auk þess leikari. Það var sérlega gaman að ferðast með honum í þeirri ferð.“

Áhugasamur um sund og frjálsar íþróttir

Steindór segist hafa fylgst vel með íþróttum síðan hann var strákur. „Ég er sérlega hrifinn af frjálsum íþróttum og sundi. Ég hef gaman að fylgjast með þessum íþróttagreinum í sjónvarpi. Ég reyni alltaf að taka frí þegar Ólympíuleikarnir eru. Ég horfi yfirleitt á landsleiki í knattspyrnu en er ekkert að eltast við einstaka leiki félagsliða. Ég horfi t.d. ekkert á enska boltann. Ég hef alla tíð verið duglegur að fara í sund og ég var lengi í hlaupum þ.e. skokkaði mikið. Ég skokkaði t.d. í vinnuna í mörg ár. Ég hef alltaf átt auðvelt með að hreyfa mig og hef gaman af því. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki verið mikið í félagsstörfum. Ég hef undanfarin ár verið í verðskrárnefnd fyrir múrara. Við náðum fyrir fimm árum að laga taxtann aðeins fyrir múrara þannig að um var að ræða töluverða bót fyrir okkur,” segir hann.

Steindór er 67 ára og það er ekki úr vegi að spyrja hann hvað hann geti hugað sér að vinna lengi: „Ég ímynda mér að ég geti unnið þar til ég verð sjötugur. Mér finnst ég hafa góða starfsorku. Mér líkar múrvinnan mjög vel og hef í rauninni gaman að þessu. Það er óskaplega gott að hafa gaman af vinnunni. Það er mín skoðun og jafnvel margra annarra að gott og snyrtilegt múrverk eins og á að vinna það, beinir veggir og hreinar kverkar, er það besta innanhúss.”