Langað að verða smiður síðan ég var 6 ára

Helena Bergsveinsdóttir er 35 ára með sveinspróf í húsasmíði, ásamt því að vera móðir, dóttir og eiginkona með kranaréttindi. Áskell Agnarsson hjá Húsagerðinni er meistarinn hennar.

Hún er alin upp í Hafnarfirði en dvaldi um tíma í Noregi þangað til leið hennar lá í húsasmíðanám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Núna er hún að byggja viðbyggingu við gamla skólann sinn. Helena er ein af þrettán starfsmönnum Húsagerðarinnar og þegar hún hóf störf þá var hún eina konan, sú fyrsta sem starfar sem smiður hjá fyrirtækinu í tæp 50 ár, en í dag eru þær orðnar tvær.

Frá því Helena var 6 ára vildi hún verða smiður „Pabbi minn er húsasmiður. Þegar hann kom heim úr vinnunni þá fannst mér alltaf svo góð smíðalykt af honum. Þegar ég smíðaði svo fyrsta pallinn minn með pabba mínum þá vissi ég að þetta ætlaði ég að verða þegar ég yrði stór,“ segir Helena með glampa í augunum.

Lífið

Samtalið heldur áfram um hvert lífið fer með mann eða eins og segir í frægu lagi eftir John Lennon: „Lífið er það sem gerist þegar þú ert upptekinn við að gera önnur plön“ og hvers vegna hún hafi ekki farið fyrr í smíðanámið. „Ég varð ólétt af stráknum mínum þegar ég var 16 ára og fór beint úr grunnskóla í að verða móðir. Þegar sonur minn er 2-3 ára er ég að vinna hjá pabba mínum við smíðar en á þeim tíma bjó ég hjá honum í Reykholti,“ segir Helena og heldur áfram að rifja upp sitt lífshlaup.

„Ég skráði mig á húsasmíðabraut í skólanum á Akranesi árið 2005 en um sumarið varð ég yfir mig ástfangin af núverandi manni mínum, þannig að ég gat ekki hugsað mér að fara í skóla og flutti í bæinn til hans. Árið 2011 fluttum við til Noregs en þar bjuggum við í 5 ár. Við ákváðum að flytja heim í júní 2016 en þá lét ég drauminn minn loksins rætast og skráði mig í FS á húsasmíðabraut og sé svo sannarlega ekki eftir því.“

Námið

Þegar talið berst að náminu og Fjölbrautaskóla Suðurnesja þá er ekki annað hægt en að spyrja um námið. „Ég byrjaði í FS í janúar 2017 á húsasmíðabraut og í apríl sama ár hringdi ég í meistarann minn hann Áskel og spurði hann hvort hann tæki nema á samning“ og hún bætir fljótt við „Hann sagðist gera það og spurði hvað drengurinn væri gamall, ég sagði honum að það væri fyrir mig og að ég væri 32 ára. Honum var smá brugðið en tók svo bara vel í það,“ segir Helena hlæjandi, við upprifjun á þessari skemmtilegu minningu og hún byrjaði að vinna hjá Húsagerðinni 15 maí 2017.

Helena heldur áfram að tala um námið í FS „Námið er mjög skemmtilegt og fjölbreytt, það mætti vera fleiri verklegir áfangar en aðstaðan er fín en smíðastofan mætti að vísu vera stærri. Það þarf meiri fræðslu til ungs fólks og kynna iðngreinar sem skemmtilegt fag.“

Sveinn í húsasmíði

Þegar hún er spurð út í það hvort hún hafi orðið fyrir fordómum í starfi segir Helena svo ekki vera „Ég hef ekki beint orðið var við fordóma en ég hef verið spurð hvort þetta starf henti konum, hvort þetta sé ekki of mikil erfiðisvinna. Ég hef samt oftar fengið góð viðbrögð þegar ég segist vera smiður,“ segir Helena og heldur áfram ákveðin: „Það hefur mikla þýðingu fyrir mig að vera sveinn í trésmíði, mig hefur langað að verða smiður síðan ég var 6 ára og það er loksins orðið að veruleika.“

Helena ætlar að halda áfram í sínu námi og hefur skráð sig í meistaraskólann eftir áramót „Ég er að fara að taka meistarann eftir áramót, vinnumarkaðurinn fyrir smiði er góður á Suðurnesjum, þannig að framtíðin er bara björt. Ég sé mig reka mitt eigið fyrirtæki í framtíðnni, vonandi taka að mér smíðanema og hjálpa þeim í gegnum sitt nám.“

Lokaspurning til Helenu er um hvað henni þyki skemmtilegast að gera sem smiður í sínu starfi „Mér finnst allt mjög skemmtilegt og áhugavert en fíla mig best í fínvinnunni eins og innréttingum, parketlögn og setja upp veggi. Ég er til í að prófa allt og læra allt.” Við óskum henni velfarnaðar í starfi, þökkum fyrir skemmtilegt spjall og erum ekki í vafa um að hún eigi eftir að láta drauma sína rætast.