Það er ekkert skrifað í stein

„Mig langaði alltaf til að verða kokkur, fór í MK til að læra kokkinn en það var ekki fyrir mig. Ég fór að aðstoða föður minn sem er bílabraskari, það varð til þess að mig langað að læra meira um bílaviðgerðir. Ég kláraði bifvélavirkjun og kláraði stúdentinn stuttu eftir það.“

Deivydas Brazaitis er ungur maður sem kom með foreldrum sínum frá Litháen þegar hann var einungis fimm ára gamall. Foreldrar hans voru að leita að betri framtíð fyrir sig og afkomendur sína eins og fjöldi manna í heiminum í dag. Þegar þau fluttu hingað til lands leigðu foreldrar hans pínu litla íbúð en í dag búa þau í rúmgóðu einbýli og foreldrar hans í góðum störfum og þeim gengur almennt vel í íslensku samfélagi.

Við ákváðum að ræða við Deivó eins og hann er kallaður um reynslu hans komandi ungur frá Eystrasaltsríki. Okkur langaði að forvitnast um hans sögu og spyrja hann nokkurra spurninga. Fyrsta spurningin er auðvitað eins og við spyrjum hér á landi, hvaðan kemur þú? „Ég fæddist í borg sem heitir Alytus en þar búa um 50 þúsund manns, þannig að þetta er alls ekki stór borg en ég man ekki mikið eftir mér þar, því ég flutti ungur til Íslands.“

Erfitt að læra nýtt tungumál

Deivó sem er 24 ára hélt áfram: „Foreldrar mínir fluttu til Íslands vegna þess að hér á landi áttu þau meiri möguleika á betra lífi, hærri launum og fleira í þeim dúr. Þegar við fluttum var litáíski gjaldmiðillinn litas með lítið verðgildi og man ég mjög vel eftir því að þegar ég fór til Litháen á sumrin frá Íslandi þá var allt svo ódýrt, gat keypt 10 sinnum meira nammi fyrir peninginn í Litháen heldur en á Íslandi. En það hefur skánað verulega því núna er notaðar evrur í Litháen.“

Deivó segist lítið muna eftir þeim tíma sem hann bjó í Litháen en þegar hann flutti til Íslands man hann eftir því hvað honum fannst erfitt að læra nýtt tungumál því íslenskan er svo ólík litháísku en síðan kom þetta og fljótlega varð hann altalandi á íslensku. Spurður út í það hvernig honum hafi fundist að alast upp með annan fótinn í litháeskum siðum og hefðum og hinn í íslenskum sagði hann.

„Ég lærði að tala íslensku í skóla en þegar ég var heima talaði ég alltaf litháísku. Fjölskyldan var ekki að horfa á neitt frá Litháen í sjónvarpinu en ég lærði að lesa og tala sæmilega litháísku heima og lærði líka smá rússnesku því foreldrarnir horfðu mjög mikið á rússneskt efni“ og umræðan hélt áfram í þessum dúr „Vinir mínir eru allir íslenskir og af því sem ég hef tekið eftir eru hefðir landanna í raun ekki svo ólíkar að mínu mati.“

Minni fordómar

„Það eru fleiri möguleikar á Íslandi, til að lifa betra lífi og meiri möguleikar á fjölbreyttu námi. Á Íslandi er til dæmis hægt að vera í skóla og vinna á sama tíma en það væri mjög erfitt að gera það í Litháen“ segir Deivó og heldur áfram að bragði „Já það er mjög mikill munur varðandi sum atriði í þessum ríkjum, fólk á Íslandi er fjölbreyttara, fleiri innflytjendur og koma frá mörgum löndum“.

Nú leggur bifvélavirkinn ungi enn meiri áherslu á orð sín og verður mjög alvarlegur þegar hann segir: „Ég finn einnig fyrir minni fórdómum hér gegn öðrum. Það er mikill rasismi í Litháen og sérstaklega miklir fórdómar í litlum borgum gegn minnihluta hópum eins og „LGBT“ en það er að skána en það er langt í að það mun vera eins og á Íslandi. Þetta er stórt vandamál í Litháen, ég man enn eftir þvi að þegar ég var yngri, svona 13 ára, þá var blótað, allskonar orðum, gegn þeim sem var klæddur „hommalega“ og þetta kom frá fólki sem þekktust ekki. Þetta er og hefur alltaf verið svona hjá AusturEvrópu ríkjum.“

Stoltur af árangri mínum

Við ákváðum að snúa umræðunni að öðru og að því þegar hann hóf nám í Borgarholtsskóla til að læra bifvélavirkjun og hvernig hann kunni við sig þar. „Það var tekið mjög vel á móti mér þar og það vantaði ekki félagslífið og einnig voru kennararnir mjög færir, námið fannst mér áhugavert, lærði mikið og ég nýti þá kunnáttu sem ég lærði þar daglega“ Deivó heldur áfram og segir stoltur: „Ég kláraði bifvélavirkjan 2017 og kláraði stúdentinn stutt eftir það. Ég er mjög stoltur af árangri mínum og var að byrja í iðnmeistaranum sem bifvélavirki.“

Þessi ungi duglegi bifvélavirki hefur einnig sín plön fyrir framtíðina. „Mögulega eftir 10 ár er ég kominn með mitt eigið fyrirtæki en það kemur bara í ljós seinna. Það ekkert skrifað í stein.“

Það hefur verið afskaplega skemmtilegt og fræðandi að ræða málin við Deivó og að lokum tókum við upp léttara spjall og fórum að ræða við hann um hans áhugamál sem er parkour en íslenska orðið er götuleikfimi og hafa nokkrar fimleikadeildir haldið námskeið í parkour. „Ég æfi parkour, hef æft það núna í um 10 ár og mun gera það áfram. Við vinirnir erum með parkour hóp, FlowOn á Youtube þar getið þið skoðað vikulega upptöku hjá mér og fleirum ef þið viljið.“

Birtist í fréttabréfi FIT í febrúar 2021