Með pípulagnir í genunum

Sigurður Pálsson, eða Siggi Páls eins og hann er kallaður, er fæddur í Kringlumýrinni árið 1948. Af sjálfu leiddi vegna staðsetningarinnar að hann gekk í Fram í æsku til að spila fótbolta og gekk í Laugarnesskólann. Hann er enn Frammari. Eftir 2. bekk í gagnfræðaskóla fór hann út á vinnumarkaðinn, þá á fimmtánda ári. En hann hafði svo sem reynt á sig áður; var í sveit á bænum Hvassafelli undir Eyjafjöllum frá 6 ára aldri þar til hann varð 13 ára. Telur sig heppinn að hafa fengið þá lífsreynslu.

Spurður hvort hann hefði þá ekki haft áhuga á að verða bóndi, svarar hann því jánkandi og hlær við, „en stelpurnar vildu ekki giftast mér“. Seinna fór svo faðir hans að byggja íbúðarhús þar sem nú heitir Skipholt. Kringlumýrarvegur var lagður af og Skipholtið kom í staðinn og svo Háaleitisbraut upp að því. Þá var Sigurður gerður að handlangara hjá múrurum.

„Gerður að yfirhandlangara“

– Pabbi var pípulagningarmaður og hann byrjaði að byggja þarna. Föðuramma mín átti þarna mikið landsvæði sem tekið var eignarnámi þegar Álftamýrin og það svæði var byggð. Hann byggði sunnan við húsið Höfn. Ég var gerður að yfirhandlangara og líkaði það illa. Þetta var sóðaleg vinna og erfið og ég hafði satt að segja engan áhuga á henni.

Svo heyrði ég einu sinni í hádeginu að það var auglýst eftir vönum háseta á togara. Ég fór og sótti um. Var spurður hvort ég væri vanur, ég sagðist aldrei hafa mígið í saltan sjó, en maður yrði ekki vanur nema fá að prófa. Maðurinn skrifaði niður símanúmerið mitt og sagðist mundu hafa samband. Um kaffileytið fór ég svo til ömmu gömlu til að athuga hvort einhver hefði hringt, en svo var ekki, svo ég fór aftur út.

En eftir klukkan fjögur kom amma út og kallaði mig í símann. Þar var skipsstjórinn og hann spurði hvort ég gæti verið tilbúinn strax. Ég hafði þegar pakkað niður og sagðist vera tilbúinn. „Hringdu þá á bíl frá Steindóri og komdu niður á bryggju.“ Ég gerði það og var fluttur á báti út á ytri höfnina þar sem lá einhver kolsvartur togari. Það var Jón forseti. Ég prílaði um borð og var skráður og festi kaup á vinnugalla. Þegar ég svo kom aftur í, var þar þvílíkt fyllerí og huggulegheit. Mér var boðin Bloody Mary og þáði það. En þegar ég sá hvað fór í blönduna leist mér ekkert á það, íslenskt brennivín og tómatsósa frá Val og pipar eða eitthvað sem ég man ekki hvað var. Þessu var hrært saman og sagt gjörðu svo vel. Ég sagði takk og fékk mér sopa. Hljóp svo út á dekk og ældi.

„Ég var á Jóni forseta“

Þessi fyrsti túr minn á togara endaði mjög skemmtilega. Farið var beint á Selvogsbanka til að veiða kola. Til stóð að fara með skipið í klössun til Englands en veiðin gekk ekkert, eftir þrjá daga var siglt inn til Vestmannaeyja og keypt þar 100 tonn af kola. Áhöfnin var send heim nema einhverjir fimm menn. Þannig að þetta var mjög stuttur túr.

Daginn eftir að ég kom heim labbaði ég niður á höfn. Þar lá þá togari sem hét Ingólfur Arnarson, grámálaður og fallegur. Ég fór um borð og spurði hvort þá vantaði ekki háseta. „Ertu vanur?“ spurði skipstjórinn. „Já, ég var á Jóni forseta,“ sagði ég og var ráðinn.

Ég fór tvo túra á Ingólfi Arnarsyni, en ég var svikinn um laun eftir fyrri túrinn og svo aftur eftir þann síðari svo ég fór ekki með þeim aftur. En þá var Jón forseti kominn heim úr klössuninni og ég skellti mér um borð og og fór með honum tvo túra, sigldi til Cuxhaven í þeim báðum og hafði það huggulegt. Frá Cuxhaven var siglt til Færeyja til að taka ís um borð og síðan farið beint á veiðar. Þá voru Bítlarnir nýbúnir að slá í gegn og þegar ég kom heim úr siglingunni klæddist ég gráum Bítla jakka, támjóum skóm og þröngum buxum með leðurröndum upp skálmarnar utanverðar. Spegilgleraugu og hár niðu á herðar fullkomnuðu myndina. Það gerðist ekki flottara.

„Við pípulagnir í 55 ár“

Á leiðinni heim af skipsfjöl gekk ég eftir Skipholtinu laust eftir hádegi. Mætti þá Ford ´54 sem ég þekkti og veifaði. Svo heyrði ég bíllinn snarstoppar og reykspólar svo til baka. Þá var þetta pabbi gamli. „Ert þetta þú?“ spurði hann og starði á mig. Ég staðfesti það. Þá bauð hann mér í bílinn og ók mér rakleiðis niður á Skólavörðustíg til Péturs rakara og þar var ég klipptur. Svo var farið með mig heim, ég látinn fara í vinnugalla og þar með var ég kominn í pípulagnirnar. Þetta var árið 1964. Við pípulagnirnar starfaði ég til áramótanna 1999/2000, í 55 ár.

Ég byrjaði að læra fagið í september 1964 og tók sveinsprófið vorið 1969. Vann sleitulaust við það til 1988, en þá fékk ég slæmt brjósklos og var frá vinnu í níu mánuði. Þá hafði ég verið formaður Sveinafélags pípulagningarmanna frá 1980 og lét af því starfi 1989, ári eftir að ég veiktist.

„Mín fyrstu kynni af félagsstörfum“

Félagsstörfin byrjuðu reyndar nokkuð snemma. Upphaflega mætti ég stundum á fundi en tók ekki virkan þátt í starfinu. Svo var það árið 1974 að ég fékk hringingu og var sagt að ég yrði að mæta á fund í félaginu, þar sem ég hefði verið kosinn ritari á síðasta aðalfundi og þyrfti að rita fundargerð. Reglan var sú að í upphafi funda las ritarinn upp fundargerð síðasta fundar. Næsta fund á undan þessum hafði Gústaf Kristiansen ritað fundargerð, en nú kom það kom í hlut hins nýja ritara að lesa fundargerðina. Ég mætti sem betur fer tímanlega á fundinn, því í ljós kom að Gústaf ritaði nánast ólæsilega rithönd. Alls ekki illa, því skriftin var mjög falleg, en maður þurfti að þekkja hana til að geta lesið.

Ég fékk Gústaf til að lesa fundargerðina með mér tvisvar áður en fundurinn hófst. Síðan fór ég í pontu og flutti fundargerðina. Ég man ekkert eftir þessu atviki, leit aldrei fram í salinn, það var allt dimmt. Ég var svona stressaður. Þetta voru mín fyrstu kynni af félagsstörfum.

„Hver voru helstu verkefni pípulagningamanna þegar þú byrjaðir í faginu?“

– Um þetta leyti var verið að tengja íbúðarhúsin við hitaveituna, hún tröllreið öllu. Olíukyndingin var smátt og smátt að hverfa. Þetta fór dálítið eftir hverfum, ég man að það var verið að byggja inn við Sæviðarsund á þessum tíma og þar var lögð olíukynding, hitaveitan var ekki komin svo langt út í hverfin.”

„Miklar breytingar í faginu“

Lagnir voru allar sverar og mikið handsnitti. Líka svokallaðir þrælar ef maður var í mjög sveru. Það var svona lítil maskína með miklu skefti með svakalegum snitthaus. Það var stórmál að snitta eina gengju þótt þær væru ekki nema um tveggja sentimetra langar.

En þótt tenging eldri húsa við hitaveituna hafi verið aðalviðfangsefnið þá var auðvitað mikið um nýbyggingar. Þarna var til dæmis Borgarspítalinn í Fossvogi að rísa og ég var að vinna þar. Svo unnu pabbi og hans félagar mikið fyrir borgina um tíu ára skeið, m.a. við verkamannabústaði í Breiðholtinu, í Bökkunum og efra Breiðholti. Asparfellið, Æsufellið og lönguvitleysuna og svo botnlangana út frá þeim.

Svo var mikið um viðhaldsvinnu og þar fannst mér ég læra mest. Þar kynntist ég, ungi maðurinn, því sem gamalt var og maður lærði að bjarga sér. Enda fannst mér gaman að koma í gömul hús; þar gekk maður beint að biluninni.

„Þú kemur þá kannski á þeim tíma í fagið þegar ýmislegt er að breytast, efni, tæki og vinnubrögð.“

– Já, í byrjun áttunda áratugarins, 1971 og næstu ár þar á eftir verða miklar breytingar. Þá er plastið að koma til sögunnar. Það það var mikil breyting, allt í einu gat maður tekið fimm skolpstamma í fangið, tveggja metra rör fyrir greinar fyrir salerni, handlaugar baðkrana. Áður gat maður tekið eitt svona rör, það var svo miklu þyngra.

Stammarnir voru tengdir saman með því að troða tjöruhampi niður í múffuna og þétt ýmist með blýi eða brennisteini. Framan við múffuna var sett pulsa úr asbesti og hún klemmd saman að ofanverðu. Síðan var blýi eða brennisteini hellt um op sem myndaðist þar sem pulsan var klemmd saman, til að þétta samskeytin. Utandyra voru notuð steinrör en tjöruhampur og steypa notuð til þéttingar.

„En fóru þá þessi gömlu, þungu efni ekki í bakið á ykkur?“

– Jú, mikil ósköp. Í dag er ég baklaus ef svo má segja og mjaðmirnar eru slæmar. Maður bograði mikið í þessu starfi og þeir gera það stundum enn, sérstaklega þegar verið er að fást við eldhúsvaska. Maður skilur ekki hvers vegna skápurinn fyrir vaskinn þarf að vera svona lítill og þröngur, af hverju má hann ekki vera tíu sentimetrum breiðari? Stórfurðulegt.

„Feiknalegar framfarir“

Aðstæðurnar voru satt að segja alveg ömurlegar. Í nýbyggingum var ekkert í gluggaopunum. Húsin voru steypt upp á sumrin og á haustin vorum við sendir inn til að leggja pípulagnirnar og múrararnir svo á eftir okkur. Þannig að ef kalt var úti þá var kalt inni, ef rigndi úti þá barst rigningin inn til okkar.

Seinna komu svo olíuofnar til sögunnar, svokallaðir Indíánar. Það var hrein bylting, að hita upp vinnuumhverfið. Og plast í gluggaopin. Það voru algjör jól. En svo áttuðu menn sig á því að ofnarnir voru ekki bara jákvæðni. Þeir ósuðu, það rauk úr þeim sótið þannig að það þurfti að þrífa allt umhverfið áður en hægt var að byrja að pússa. Ofnarnir voru inni í óloftræstum herbergjum og sótuðu og við sátum þarna í kaffitímunum og borðuðum nestið okkar.

„Þannig að framfarir í efni og aðbúnaði hafa verið miklar?“

– Já, alveg feiknarlegar. Á þessum fimmtíu árum sem ég hef verið í faginu hefur orðið hrein bylting, bæði í efnum og verkfærum. En því miður eru alltaf margir sem halda að það sé ekkert mál að leggja pípulagnir af því að það sé bara sýsla við plast- eða álrör.

„Fór ekki einhver glans af faginu þegar léttari efni komu í stað þeirra gömlu þungu?“

– Ja, sko menn þurftu eftir sem áður að standa sig í faginu. Margir sem voru að byggja virtust halda að þar sem þetta létta plast var komið í staðinn fyrir gömlu groddalegu rörin gætu bæði Pétur og Páll lagt lagnir. Þeir söguðu sundur rörin en hefluðu ekki endana og eyðilögðu þannig þéttinguna. Svo var allt pressað saman og míglak þegar þrýstingurinn var settur á. Þá þurftum við fagmennirnir að koma til sögunnar og lagfæra fúskið.

Ég man þegar plastefnin komu. Þráinn heitinn Karlsson, sem starfaði þá hjá byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar, barðist fyrir því að fá þar til gerðar festingar á rörin. En það kostaði peninga, þannig að menn fóru bara að búa til teina og rafsuðu svo hosuklemmu. Við erum með svo heitt vatn Íslendingar að teinarnir aflöguðu rörin eftir því sem árin liðu og allt stíflaðist. Menn skyldu ekkert í þessu. En Þráinn barðist eins og ljón við að koma mönnum í skilning um eðli málsins. En allt þetta nýja aukadót kostaði peninga. Verktakarnir voru búnir að bjóða í verkin og voru ekki tilbúnir að nota dýrari aðföng en gert hafði verið ráð fyrir í tilboðinu.

Svo voru ofnarnir. Þilofnarnir komu, bæði helluofnar og þungir pottofnar, sem voru alveg skelfilegir að vinna við. Helluofnarnir voru framleiddir af Ofnasmiðjunni og voru ágætis vara, en þungir. Og vinnan við ofnana var öll unnin í höndunum, það mátti helst ekki fá neina lyftigræjur, talíur eða eitthvað. Það voru bara múrararnir sem fengu þannig græjur til að hífa upp sand og sement og slíkt. En við pípararnir vorum ekkert of góðir til að bera þessa ofna upp og niður alla stiga. Pottofnarnir voru skelfilega þungir, en það eru samt einu ofnarnir sem halda einhverjum hita að ráði. En þeir geta stíflast, sérstaklega þegar settir eru á þá þessir nýju kranar, retúrkranar og svoleiðis. Það sest í þá alls konar óþverri úr vatninu, kísill og þess háttar. En ef þeir eru óstíflaðir og eru ekki bronsaðir eru þeir fínir. Sumir eigendur voru að bronsa þá til að gera þá fallega en bronsið einangrar þá og minnkar þar með hitastreymið frá þeim. Margir hafa farið flatt á því.

„Ekki bölvaður klósettkafari“

„Manstu eftir einhverjum skemmtilegum sögum úr starfinu?“

– Já, það er stundum gaman að rifja þær upp. Man eftir einum strák sem var að vinna með okkur, skemmtilegur strákur að mörgu leyti. Hann hafði mjög gaman af að bora. Við vorum með stóran Black&Decker bor, herjans mikið tæki. Það var þannig að ef borinn festist í járni, þá varð maður að vera viðbúinn til að halda jafnvæginu. Þú máttir ekki halda í endann á handfanginu heldur hafa hendurnar sem næst miðju. Strákurinn stóð í stiga og var að bora upp fyrir sig þegar borinn festist. Stiginn datt undan honum svo hann hékk á handfanginu og sveiflaðist fram og til baka.

Þrír síðustu formenn Sveinafélags pípulagningamanna. Frá vinstri: Sigurður Pálsson, formaður 1980-1989, Birgir Hólm Ólafsson, formaður 1989-1999 og Helgi Pálsson, formaður 1999-2007.

Svo man ég eftir finnskum vinnufélaga sem alltaf var með vinnuvettlinga á höndunum. Talaði svolítið bjagaða íslensku. Einhvern tíma skaut ég því að honum að svona vettlingar væru ekki hentugir í pípulögnum. „Taktu af þér þessa vettlinga, maður,“ sagði ég, „Þá geturðu kannski unnið almennilega.“ „Nei, Sigurður“ sagði hann. „Þegar ég á balli um helgina þá ég skrifstofumaður, ekki bölvaður klósettkafari.“

„Mælingastofan“

„Aftur að félagsmálunum. 1974 varstu kosinn ritari Sveinafélagsins; var það upphafið að félagsmálastarfinu?“ – Já, ég var ritari til ársins 1980. Þá var ég kosinn formaður og gegndi því starfi til 1989. Um það leyti var ég farinn að starfa á Mælingastofunni og fannst ekki viðeigandi að vera formaður Sveinafélagsins líka. Þegar ég varð formaður var embættið launalaust, sem var auðvitað ekki alveg í lagi. Maður var hlaupandi úr vinnu þegar eitthvað þurfti að gera eða var að gerast og mörg kvöld fóru í það at sem fylgir svona félagsstörf – um. En ég fékk það í gegn 1986 eða ´87 að greiddir væru sem svaraði 700 tímum í dagvinnu fyrir formennskuna. Birgir Hólm Ólafsson tók við formennskunni af mér og Helgi bróðir minn af honum og var seinasti formaður Sveinafélagsins áður en það gekk í FIT.

Þegar ég svo hætti á Mælingastofunni fór ég að praktísera sem einyrki, vann fyrir tryggingarfélögin og hina og þessa aðra. Um mitt ár 2000 réði ég mig til Alhliða pípulagna ehf og vann þar í næstum 20 ár, 20. desember 2019 var síðasti vinnudagurinn.

Við hjónin lentum í slæmu bílslysi í júní 2018. Vorum akandi á leið suður og fengum annan bíl framan á okkur hérna megin við Vatnsdalshólana. Bílarnir fóru auðvitað í köku og við möl – brotnuðum á brjóstkassa bæði tvö, auk þess sem hún meiddist talsvert innvortis. Ég slapp hins vegar ótrúlega vel, braut nokkur rifbein og fékk slæmt högg á annað hnéð.

Eftir þetta áfall fór óneitanlega að draga af manni. Ég var kominn í þægilega viðgerðarvinnu þegar þetta gerðist, og eftirlit með vatnsúðakerfum. Mátti vinna eins og ég vildi, sannkallaður lúxus.

„Það voru oft langar setur fyrir ekki neitt“

„Eitthvað í félagsmálastússinu sem þú manst eftir, úr launaþrefinu og öðru?“

– Ég man eftir að fyrstu samningafundirnir sem ég sat var Torfi Hjartarson tollstjóri skipaður sáttasemjari. Hann var helvíti harður. Hleypti okkur ekki út heldur lokaði okkur inni langtímum saman, Ég man að einu sinni komst ég heim eftir hádegi 17. Júní. Á þessum tíma var ekki boðið upp á kaffi og vöfflur með sultu og þeyttum rjóma eins og síðar varð. Löngu seinna var að eitt af verkefnum mínum hjá Alhliða pípulögnum að vinna við húsnæði sáttasemjara við Borgartún. Þá var reyndar Guðlaugur Þorvaldsson orðinn ríkissáttasemjari, sá fyrsti sem gegndi því embætti eingöngu.

Ég hef reyndar fylgt embættinu í gegnum tíðina og hitti þá alltaf hana Elísabetu Ólafsdóttur, hún er ennþá að baka vöfflur á skrifstofu sáttasemjara. Það voru reyndar oft skemmtilegar stundir hjá sáttasemjara, hver svo sem gegndi embættinu. Menn sátu oft langtímum saman og biðu eftir að eitthvað mjakaðist einhvers staðar.

Það voru oft langar setur fyrir ekki neitt. Oft gekk hvorki né rak fyrr en menn fóru afsíðis tveir og tveir saman og ræddu málin. Við píparar vorum í miklu samstarfi við múrara, málara og veggfóðrara, eignlega allar byggingagreinarnar nema trésmiði. Þeir voru alltaf sér. Það voru margar tilraunir gerðar til að sameina þessi félög í eitt samband á borð við það sem Byggiðn er í dag. En alltaf þegar kom að lokahnykknum vildi trésmiðirnir alltaf meira í sinn hlut en aðrir, í krafti stærðar stéttarinnar, þá sprakk allt. Við Helgi Steinar hjá Múrarafélaginu, Magnús Stephensen hjá Málarafélaginu og Sigurður Pálsson hjá veggfóðrurum unnum mikið saman í þessum málum. Það er svolítið skemmtileg tilviljun að við nafnarnir Sigurður veggfóðrari og ég eigum sama afmælisdag og fæddumst með ársmillibili.

„Þú ert pípari og faðir þinn var pípari og bróðir þinn líka. Áttu kannski líka son sem er pípari?“

– Nei, reyndar ekki og það er ástæða fyrir því, ég á tvær dætur, engan son. En ég á fimm afastráka og af þeim eru tveir komnir í pípurnar. Þannig að fagið lifir enn í genunum. Þannig að það er nokkuð ljóst um hvað er rætt í fjölskylduboðum hjá okkur.

„Lífið að loknum pípulögnum, er það sæmilegt?“

– Já já, það er alveg ágætt. Ég hef nægar tekjur til að komast ágætlega af. Mér finnst að við hjón höfum það ekkert verra en þegar við vorum bæði að vinna. Kostnaðurinn er auðvitað miklu minni, bara við tvö í heimili. Ég væri auðvitað alveg til í meira, hver vill það ekki? En ég er í góðum málum.

„Þegar þú horfir til baka, hefðirðu viljað gera eitthvað annað – eða öðruvísi?“

– Nei, ég held ekki. Ég hef kynnst fjölmörgu fólki af ýmsu tagi; fólki sem maður var að vinna fyrir, eða jafnvel foreldra þess. Það þekkir mann enn og spyr jafnvel hvort maður sé örugglega alveg hættur. En ég tók þá staðföstu ákvörðun á sínum tíma að hætta alveg vegna þess hve slæmur ég er í bakinu. Og hef staðið við það.

Birtist í Fréttabréfi FIT
Desember 2021