Nýr starfsmaður á skrifstofu FIT

Það telst til tíðinda þegar nýr starfsmaður er ráðinn til FIT og vegna þessa var ákveðið að taka örviðtal við Hildigunni Guðmundsdóttur og rekja úr henni garnirnar.

Fyrsta spurningin hlýtur að vera hvaðan Hildigunnur kemur og hver hennar bakgrunnur er?

„Ég er fædd og uppalin í Keflavík og er bara nýflutt í Kópavoginn“ segir Hildigunnur og brosir, heldur síðan áfram. Dóttir verktaka og húsmóður, ein af þremur systrum. Fyrsta starfið mitt var garðsláttur hjá hernum upp á Ásbrú. Þar starfaði ég á sumrin þegar ég var á grunnskólaaldri, einnig fór ég á loðnuvertíðir og í saltfiskverkun. Með framhaldsskóla vann ég afgreiðslustarf í líkamsræktarstöð en vann í veiðihúsi við Laxá í Kjós á sumrin við að þjóna og þrífa segir Hildigunnur dreymin á svip við það að rifja upp gamlar og góðar minningar.

Þú ert reynslumikil og með mjög fjölbreyttan bakgrunn en hvaða leið hefur þú farið innan menntakerfisins?

Ég kláraði stúdentspróf en eftir það þreifaði ég fyrir mér í námi. Tók diplóma nám í flugrekstrarfræði frá flugakademíunni í Keili samhliða vinnu. En eftir ca. 15 ára fjarveru frá skóla þá fór ég aftur í háskólanám sem ég lauk í desember 2019 með mastersgráðu. Ég lauk Bachelor of Science (Bsc gráðu) í Viðskiptalögfræði og síðan mastersgráðu (M.L.) í Lögfræði. Núna er ég í löggildingarnámi til Fasteigna- og skipasala samhliða vinnu og mun eg ljúka því vorið 2022 segir Hildigunnur ákveðin. Við höldum umræðunni áfram og förum að ræða um gildi menntunnar og námsleiðir „þannig að ég er gott dæmi um nauðsyn þess að halda áfram að mennta sig og í raun hvað íslenska menntakerfið er sveigjanlegt.“

Samtalið þróast út í hvað Hildigunnur hefur verði að starfa við síðustu árin.

„Ég vann í 10 ár hjá Tækniþjónustu Icelandair sem þjónustustjóri, vann náið með flugvirkjum og verkfræðingum, þar til árið 2015 þá fór ég í nám í Viðskiptalögfæði. Ég byrjaði aftur hjá þeim haustið 2019 með mastersnáminu sem verkefnastjóri til febrúar 2020. Eftir það vann ég á Lögmannsstofu Reykjaness og Lögbýli Eignamiðlun þangað til að ég var ráðin til Félags iðn- og tæknigreina segir hún og lifnar öll við þegar talið berst að nýja starfinu og við spyrjum því hvaða væntingar Hildigunnar hafi til starfsins, nú þegar hún hefur hafið störf sem sérfræðingur hjá FIT. Hún er snögg að svara „Að þróast vel í starfi og geta unnið þau verkefni sem koma á borð til mín vel og örugglega, halda áfram að þróast í starfi og námi.“

Þú hófst störf í sumar og nú þegar þú hefur fengið smjörþefinn af starfinu, þá er eðlilegt að spyrja, hvað hefur komið þér mest á óvart frá því að þú hófst störf?

„Hvað verkefnin eru gríðarlega fjölbreytt, mikið og breytt svið“

Síðasta spurningin er auðvitað hvort Hildigunnur vilji segja eitthvað að lokum?

„Ég hef haft tækifæri til að öðlast víðtæka starfsreynslu og menntun sem ég er sannfærð um að muni koma mér að notum í þessu starfi“ Við erum sannfærð um að félagsmenn FIT komi til með að eiga gott samstarf við Hildigunni og fá góða þjónustu, vegna reynslu hennar og bakgrunns. Að lokum óskum við henni velfarnaðar í starfi við að þjónusta félagsmenn Félags iðn- og tæknigreina.