Áfram gakk!

Kjarasamningar í haust

landssamtok_lifeyrissjoda_stjorn_print-4.jpg

Nú í haust hefst næsta lota í kjarasamningsgerð og sem fyrr hlusta forsvarsmenn FIT á raddir félagsmanna sinna. Unnið verður í þeim samningum með nokkur atriði að leiðarljósi, ekki síst að verja kaupmátt félaga í FIT og sækja það sem okkur ber af krafti og einurð. Upp úr mánaðarmótum verður send út könnun til félagsmanna þar sem leitað er eftir þinni röddu um hvað leggja beri áherslu á og við hvetjum alla til að láta í sér heyra og taka þátt!

Fjölgun félaga og nýr bústaður

Eins og áður hefur verið skýrt frá bættist Félagi iðn- og tæknigreina góður liðsauki nýlega þegar Félag hársnyrtisveina gekk til liðs við félagið. Sameiningin er hagur beggja, stærra og öflugra stéttarfélag eykur ekki aðeins þjónustuna við félagsmenn, heldur stendur vörð um réttindi og kjör félagsmanna. Og þessum liðsauka fylgdi líka góð búbót fyrir alla félagsmenn, enda fjölgar orlofsbústöðum FIT um einn við þetta. Orlofshúsið að Svignaskarði 27 er í um 20 mínútna akstursfjarlægð frá Borgarnesi eftir þjóðvegi 1. Orlofshúsið er um 77 fm, með stórum palli og heitum potti. Stutt er í sundlaug að Varmalandi, smávöruverslun í Baulu og margir sögufrægir staðir í nálægð.

Félagsmenn í FIT geta sótt um þann bústað, sem og önnur orlofshús í eigu félagsins, frá og með næsta mánuði er hægt að sækja um bústað fyrir næsta sumar og hvetjum við alla til að sækja um.

Allir vinna – fram á haust

Stjórnvöld ákváðu í tengslum við síðasta fjárlagafrumvarp að framlengja átakið Allir vinna fram á haust, þó með breytingum. Átakið hófst árið 2020 sem hluti aðgerða vegna Covid faraldursins og sannaði gildi sitt svo um munaði á skömmum tíma. Full endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna nýbygginga, endurbóta og viðhalds framlengist út ágústmánuð en eftir þann tíma nemur endurgreiðslan 60%. Stjórnvöld treystu sér hins vegar ekki til að framlengja 100% endurgreiðslu vegna viðgerða, réttinga eða málningu bifreiða, og er það miður.

Forsvarsmenn FIT hvetja stjórnvöld til víðsýni og stuðnings við þau mikilvægu störf sem félagsmenn okkar inna af hendi og horfa til lengri tíma með meiri stuðningi. Átakið virkar og því ætti ekki aðeins að halda því áfram, heldur útvíkka og auka!

Mikilvægi VIRK

Í þessu blaði er fróðlegt viðtal við iðnaðarmann sem naut þjónustu ráðgjafa VIRK vegna veikinda og síðan um endurhæfingaráætlunina sem unnið var eftir, sem varð þess valdandi að hann hóf störf að nýju. Það vill enginn lenda í því að missa heilsu eða möguleika til að starfa vegna slíkra aðstæðna. Í næsta mánuði verða rétt 14 ár frá því að samið var um í kjarasamningum um nýtt fyrirkomulag starfsendurhæfingar og var VIRK Starfsendurhæfingarsjóður stofnaður í framhaldi af því. Þeir félagar í FIT sem geta ekki sinnt sínu starfi að hluta eða öllu leyti, geta ekki tekið þátt á vinnumarkaði vegna heilsubrests sem rekja má til veikinda eða slysa eða eru frá vinnu í lengri tíma vegna andlegra þátta, eiga rétt á þjónustu VIRK.

Markmiðið með starfsemi VIRK er að aðstoða einstaklinga til að komast aftur út á vinnumarkaðinn eins fljótt og verða má og er litið til þess að viðkomandi geti tekið þátt í athöfnum daglegs lífs og sinnt starfsendurhæfingu. Starfsemi VIRK er orðin viðurkennd og þekkt í samfélaginu og læknar eru duglegri en áður að vísa á þennan möguleika. Fjölmargir nýta veikindarétt sinn en þegar honum lýkur aðstoða ráðgjafar VIRK hvert hægt er að leita eftir aðstoð. Mikilvægi VIRK fyrir félaga FIT verður ekki undirstrikað nægilega og við hvetjum alla félagsmenn okkar sem telja sig þurfa á þjónustunni að halda, að sækja hana og við liðsinnum að sjálfsögðu þeim sem þurfa.

Vinnutímastytting og launahækkanir

Nú um áramótin tóku gildi tvíþættar launahækkanir og er afar mikilvægt að félagar athugi stöðuna á þeim málum hjá sér. Þegar launahækkanir sem tóku gildi 01. janúar 2022 eru skoðaðar er rétt að benda á að annars vegar var um almenna launahækkun að ræða en sú upphæð er 17.250 kr. hjá þeim sem eru yfir lágmarkslaunum í landinu og hins vegar eru sérstakar hækkanir á lágmarkstöxtum og launatöflum kjarasamninga upp á 25.000 kr.

Þannig greiðist yfirvinna 1 með tímakaupi sem samsvarar 1,00% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu og yfirvinna 2 greiðist með tímakaupi sem samsvarar 1,15% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Það verður aldrei brýnt um of fyrir félagsmönnum að athuga hvort ekki hafi verið staðið við þessar launahækkanir og láta vita ef misbrestur verður þar á. Félagið er með öfluga eftirlitsstarfsemi fyrir félagsmenn og bregst strax við ef ekki er staðið við gerða kjarasamninga.

Þá er jafnframt rétt að benda á að á sama tíma og áðurnefndar launahækkanir tóku gildi, tók jafnframt gildi einhliða ákvörðun starfsmanna í kosningu um styttingu vinnutíma. Þetta er mikið baráttumál sem tókst að knýja í gegn og gildir sú regla að meirihluti ráði í kosningu. Ákvæðið á þó ekki við ef þegar hefur verið samið um styttingu vinnutímans í samræmi við kjarasamninga um styttingu vinnutímans. Leiki einhver vafi á útfærslum, framkvæmd eða gildi þessa ákvæðis, eru félagsmenn hvattir til að hafa samband við skrifstofu félagsins eða senda tölvupóst á fit@fit.is til að leita aðstoðar.

Hilmar Harðarson, formaður FIT
Febrúar 2022.