Sveinalisti aðgengilegur á vefnum

Listi yfir þá einstaklinga innan félaga Samiðnar sem staðist hafa sveinspróf eða hafa fengið sveinsréttindi sín metin af ráðuneyti menntmála á Íslandi hefur nú verið birtur á FIT.is. Listann er til dæmis hægt að nýta til að ganga úr skugga um að iðnaðarmaður hafi þau réttindi sem hann segist hafa. Leitargluggi er á listanum auk þess sem hægt er að raða eftir nöfnum, fæðingardegi, iðngrein eða þeirri dagsetningu sem viðkomandi iðnaðarmaður öðlaðist réttindi.

Aðeins þeir sem hafa til þess réttindi mega vinna við greinar sem njóta lögverndunar. Í níundu grein iðnlaga segir að rétt til að kenna sig í starfsheiti sínu við löggilta iðngrein hafa þeir einir, er hafa sveinsbréf eða meistarabréf í iðngreininni. Um 60 handiðngreinar eru löggiltar og lögverndaðar samkvæmt reglugerð um löggiltar iðngreinar nr. 940/1999.

Þau sem telja að nafn þeirra eigi að vera á listanum, en finna það ekki, geta haft samband við fit@fit.is. Til að fjarlægja nafn sitt af listanum skal hafa samband við sama netfang.

Skoða sveinalistann hér.