Nýtt símanúmer og spennandi nýjung

Breytingar á samskiptaleiðum teknar í notkun 1. febrúar

Breytingar á samskiptaleiðum félagsmanna við FIT verða teknar í notkun 1. febrúar. Tilgangurinn er að efla þjónustuna og stytta boðleiðir. Félagið hefur opnað nýtt símaver sem veitir félagsmönnum og þeim sem eiga erindi við félagið beint samband við starfsmann félagsins. Nýtt símanúmer félagsins er 535 6000. Markmiðið með breytingunni er að viðbragðstíminn styttist, þegar haft er samband við FIT, og þjónustan eflist.

Samhliða þessari breytingu hefur netspjall FIT verið opnað. Hægt er að spjalla beint við fulltrúa félagsins í gegn um Facebook messenger. Félagsmenn eru þó hvattir til að deila ekki viðkvæmum persónuupplýsingum í spjallinu, gagnaöryggis vegna. Vonir eru bundnar við að þessi nýjung auðveldi félagsmönnum að hafa samband við FIT og flýti úrlausn mála.

Í vetur var ný heimasíða félagsins sett í loftið en hún er frá grunni hönnuð með snjalltæki í huga, í takt við breyttan tíðaranda. Fjölmargar nýjungar er að finna á nýja vefnum, ekki síst þegar kemur að framsetningu kjarasamninga og viðmóti þegar kemur að útfyllingu umsókna í snjalltækjum.

FIT hefur lengi verið í fararbroddi stéttarfélaga þegar kemur að því að innleiða nýja tækni. Vonir eru bundnar við að þessar breytingar á samskiptaleiðum og heimsíðu auðveldi félagsmönnum upplýsingaleit og spari þeim tíma.

Félagið hlakkar til að sjá hvernig viðtökurnar við þessum breytingum verða og biður félagsmenn um að sýna umburðarlyndi ef byrjunarörðugleikar gera vart við sig.