Verkefnið er verðbólgan
Verðbólga og vinnudeilur eru á meðal viðfangsefna á 20 ára afmælisári FIT
FIT hefur að undanförnu undirbúið breytingar sem eru til þess fallnar að auka þjónustu við félagsmenn og höfða betur til ungs fólks. Liður í þeirri vegferð var opnun nýrrar heimasíðu í lok síðasta árs, síða sem er frá grunni hönnuð með hliðsjón af almennri notkun snjalltækja. Núna um mánaðamótin opnum við nýtt símaver – með nýju símanúmeri – og tökum um leið í notkun þann möguleika að hægt verður að stofna til netspjalls við starfsmann félagsins. Þessar breytingar eru til þess fallnar að mæta kröfum nútímans um óheftar boðleiðir. Nýja númerið er 535 6000.
Önnur lota hafin
Það var gæfuspor að tekist hafi að ná kjarasamningi sem 77% félagsmanna samþykktu í atkvæðagreiðslu í desember. Öllu máli skiptir að eiga sæti við borðið í upphafi kjaralotu þar sem línan er lögð, eins og Guðfinnur Þór Newman, framkvæmdastjóri Samiðnar, benti á í síðasta Fréttabréfi FIT. Þeim sem eftir sitja reynist afar erfitt að ná fram markmiðum sínum, eins og fréttir undanfarinna daga hafa sýnt.
Eins og kunnugt var aðeins samið til rúmlega eins árs í desember. Það var mat okkar sem sátum í samninganefndinni að lengra yrði ekki komist í þessari lotu. Verkefninu er hins vegar hvergi nærri lokið. Handan við hornið er gerð kjarasamninga fyrir hönd okkar fólks við ríki og sveitarfélög. Þar þarf að halda vel á spilunum. Auk þess er undirbúningur fyrir aðra þætti í kröfugerð okkar gagnvart einkageiranum í fullum gangi. Önnur lota er hafin. Tímasett viðræðuáætlun fer vel af stað en markmiðið er að samtalinu um þá þætti verði lokið áður en árið rennur sitt skeið.
Kjarasamningarnir sem samþykktir voru í desember tóku aðeins á launaliðnum, enda var mikilvægt að hækka laun okkar félagsmanna tafarlaust. Hvert einasta heimili landsins hefur fundið fyrir þeim miklu verð- og gjaldskrárhækkunum sem riðið hafa yfir að undanförnu. Það er lykilatriði að ná verðbólgunni niður og lækka vaxtastigið í landinu. Lækkun vaxta um eitt prósentustig væri strax mikil kjarabót fyrir heimilin. Það er til mikils að vinna.
Myljandi hagnaður fyrirtækja
Útreikningar Samiðnar, í aðdraganda síðustu kjarasamningslotu, sýndu fram á að hagnaður fyrirtækja í landinu hafi aukist mikið undanfarin ár. Jafnframt hefur launahlutfall hjá fyrirtækjum farið lækkandi á umliðnum árum. Launahlutfallið mælir hversu hátt hlutfall verðmætasköpunar fer til launafólks. Þetta hlutfall hefur lækkað og gaf vísbendingar um að svigrúm hafi verið til kjarabóta.
Það er aftur á móti óeðlilegt og óboðlegt að fyrirtæki, sem mörg hver hafa malað gull undanfarin ár, skuli ekki sýna þá samfélagslegu ábyrgð að halda verðhækkunum í skefjum til að ná niður verðbólgunni. Í mikilli verðbólgu rýrnar kaupmáttur fólks, verðtryggð lán hækka og allir tapa. Fyrirtæki á grænni grein ættu að líta á það sem skyldu sína gagnvart samfélaginu að vinna gegn þessu ástandi. Slík fyrirtæki myndu til lengri tíma vaxa í áliti almennings. Stutt er síðan ríkið styrkti ótal fyrirtæki um vænar fjárhæðir vegna COVID 19 og hjálpaði þeim þannig að halda velli. Nú þarf að snúa dæminu við.
Það eru líka vonbrigði að sjá að ríki og sveitarfélög hafa mörg hver ekki haldið aftur af gjaldskrárhækkunum og álögum. Allt vinnur þetta að því að rýra kaupmátt okkar og þannig lífskjör. Spyrna þarf við fæti.
Atlaga að sjálfstæðum samningarétti
Ríkissáttasemjari setti í liðinni viku yfirstandandi kjaraviðræður Eflingar og Samtaka atvinnulífsins í uppnám. Hann lagði fram ótímabæra miðlunartillögu, að því er virtist án nægilegs samráðs við málsaðila, þegar til stóð að greidd yrðu atkvæði um verkfallsaðgerðir. Heggur þar sá er hlífa skyldi. Við sem eigum sæti í miðstjórn ASÍ mótmæltum þessu harðlega.
Undirritaður tekur undir þá skoðun miðstjórnar að framganga embættisins sé atlaga að sjálfstæðum samningsrétti stéttarfélaga og gangi gegn áratuga venjum um samskipti aðila vinnumarkaðarins.
Tímamót
Félag iðn- og tæknigreina fagnar í ár 20 ára afmæli sínu. Óhætt er að segja að tíminn fljúgi. Tíu ár eru nú liðin frá því að félagið lét gróðursetja eina hríslu fyrir hvern félagsmann.
Félagið hefur dafnað, eins og hríslurnar, og aldrei staðið styrkari fótum. Félagsmenn eru í dag ríflega 6.400 talsins. FIT er stærsta einstaka iðnfélagið og fyrir vikið öflugasti málsvari iðn- og tæknifólks á landinu.
Ég óska félagsmönnum til hamingju með stórafmælið og þakka fyrir þann mikla stuðning sem ég hef notið í starfi mínu. Það eru forréttindi að hafa umboð til að berjast fyrir hagsmunum iðn- og tæknigreina.
Hilmar Harðarson, formaður.