Strákarnir flykktust í handanudd

Níu nemendur í snyrtifræði taka þátt í Íslandsmóti iðn- og verkgreina í Laugardalshöll

„Við erum hér fyrir hönd Félags íslenskra snyrtifræðinga og sjáum um framkvæmd keppninnar í snyrtifræði – í samvinnu við skólann auðvitað,“ segja þær Brynhildur Íris Bragadóttir (til hægri á myndinni) og Beata Emilia Kocot (til vinstri), sem báðar eru snyrtifræðingar. Þær standa vaktina í Laugardalshöll þessa dagana þar sem fram fer Íslandsmót iðn- og verkgreina fer fram. Yfirskrift keppninnar er Mín framtíð.

Keppt er í 22 greinum auk þess sem 15 iðngreinar eru til sýnis. Snyrtifræði er ein af keppnisgreinunum tuttugu og tveimur. Keppendur eru níu talsins að þessu sinni en þrír keppa í einu. Um er að ræða nemendur sem eru á annarri, þriðju og fjórðu önn í námi í snyrtifræði í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti.

„Þær framkvæma andlitsmeðferð, litun og plokkun og svo förðun og hafa til þess þrjár klukkustundir,“ útskýrir Beata og bætir við að keppendur ráði í hvaða röð þeir framkvæmi meðferðirnar. „Allir gera bara sínu bestu meðferð – það er bara þannig,“ segir hún og brosir. Dómarar, þær Heiðdís og María, taka út verkið og gefa stig fyrir hvern þátt. Þær horfa meðal annars til frumleika og framkvæmdar meðferðarinnar en nemendum ber einnig að greina húð síns módels og skila á blaði auk þess sem þær rökstyðja meðferð sína og útskýra. „Þetta er mjög krefjandi,“ segir Brynhildur og bendir á að keppendurnir séu að vinna með vörur sem þær hafi ekki kynnst áður.

Á básnum er líka borð þar sem boðið er upp á handanudd. Óhætt er að segja að það uppátæki hafi slegið í gegn því langar biðraðir mynduðust á fyrsta degi, þegar grunnskólanemendur og aðrir gestir flykktust í nuddið.  „Snyrtifræðingar í skólanum sitja hérna og taka vaktir í nuddi. Það kom okkur skemmtilega á óvart hve margir strákar sóttu í nuddið. Þeir voru mjög áhugasamir og voru að spyrja hvað við lærðum í skólanum. Þeir sýndu þessu mikinn áhuga.“ Brynhildur tekur í sama streng. „Þetta er eiginlega sönnun þess að það vilja allir láta dúlla svolítið við sig, hvort sem það eru karlar eða konur.“

Þeim ber raunar saman um að strákar séu orðnir duglegri að nýta sér þjónustu snyrtistofa. Þeir séu duglegri að koma í fótsnyrtingu eða húðhreinsun en áður, svo dæmi séu tekin. „Það var minna um þetta áður en núna vilja þeir nota krem, fara vel með sig og líta vel út,“ segir Beata.

Keppendurnir þrír sem voru í óða önn að snyrta og farða, þegar FIT bar að garði á fimmtudag, voru á fjórðu önn í verklegu námi – og því að útskrifast í vor. Þær stöllur segja að þessir nemendur fari á samning og taki svo sennilega sveinspróf í haust eða næsta vor – eftir því hvernig starfsnáminu vindur fram. „Og þegar maður er búinn með sveinsprófið þá er maður orðinn löglegur snyrtifræðingur,“ útskýrir Beata að lokum.

FIT mun fjalla um fleiri keppnisgreinar hér á vefnum næstu daga. Óhætt er að hvetja félagsmenn til að líta við í Laugardalshöll. Opið er fyrir almenning eftir hádegi á morgun, svo dæmi sé tekið. Opnunartími og dagskrá hér.