Stúlkum fjölgar í múrverkinu

„Þegar ég byrjaði að kenna fyrir sex árum voru ríflega 20 nemendur í múrverkinu en núna eru þeir orðnir 57,“ segir Þráinn Óskarsson, kennari í múrdeild Tækniskólans. Þrír nemendur keppa nú í múrverki á Íslandsmóti iðn- og verkgreina sem fram fer í Laugardalshöll.

Á mótinu er keppt í 22 iðngreinum auk þess sem 15 greinar eru sýndar.

Tveir keppendanna eru á leið í sveinspróf en sá þriðji, stúlka, er á öðru ári í námi. Verkefni þeirra á mótinu má sjá á meðfylgjandi mynd. „Þeim er falið að hlaða veggi með svona kassa í horninu,“ segir Þráinn og bendir á teikninguna. „Veggirnir eru úr sjö sentímetra vikurstein og svo er múrað svo úr verði 10 sentímetra þykkur veggur. Á suma veggina fer hvítur múr en grár á aðra,“ útskýrir hann. Nemendurnir hafa 18 tíma til að leysa verkefnið. „Þetta eru margir fletir þó þetta sé ekki stórt stykki,“ segir Þráinn.

Múrverkið er fjögurra ára nám, með öllu. „Strákarnir eru að klára núna en hún er á öðru ári. Þetta eru fimm annir í skóla og svo vinnur maður í hálft annað ár.“

Þráinn segir aðspurður að sex konur séu nú að læra múrverk, eða um 10% nemenda. „Það byrjuðu fjórar í haust svo hlutfallið er að batna,“ segir hann.

Hann bendir á að múrverk sé afar fjölbreytt iðngrein. Múrarar fáist við flíasalagnir, utanhússviðgerðir og hleðslu veggja, svo fátt eitt sé talið. Á sumrin vinni margir utandyra en á veturna eru inniverkin meira áberandi.

Uppfært: Sigurvegari í keppninni er Arnar Freyr Guðmundsson, Tækniskólanum. FIT óskar Arnari Frey til hamingju með árangurinn.