Haf og hamfarir á Íslandsmóti í hársnyrtiiðn

Mikilvægt fyrir listamenn að fá tækifæri til sköpunar

Haf og hamfarir á Íslandsmóti í hársnyrtigreinum

„Það er gífurlega mikilvægt fyrir unga listamenn að fá tækifæri til að vera svona skapandi,“ segir Lilja Sæmundsdóttir, starfsmaður FIT og umsjónarmaður keppni í hársnyrtiiðn á Íslandsmóti iðn- og verkgreina sem fram fór í Laugardalshöll í síðustu viku 16.18. mars. FIT heldur áfram að fjalla um mótið, sem var hið glæsilegasta í alla staði.

Keppt var í þremur mismunandi flokkum þar sem frábærir fagmenn framtíðarinnar öttu kappi. „Það hefur verið hefð hjá greininni að leyfa sem flestum að taka þátt vegna þess að það er mjög þroskandi og reynir á mikla skipulagshæfni, þrek og þor, að stíga inn á keppnisvöllinn,“ segir Lilja.

Nemendur á fyrstu til þriðju önn hófu keppni í fantasíu þar sem hafið var þemað. Lilja segir að þau formaður Meistarafélags hársnyrta, Andri Týr Kristleifsson, hafi þótt hafið tilvalið þema. Hafið umkringi okkur öll og sé alltaf hluti af okkur Íslendingum.

Dómaratöffarar sem dæmdu herratískulínu, frá vinstiri Gréta Ágústsdóttir, Gummar Malmquist og Birna Rut Ragnarsdóttir.

Svo fór að Berglind Elma Baldvinsdóttir, nemandi í Fjölbrautarskóla Suðurnesja, sigraði einstaklingskeppnina fantasíu. Í örðu sæti varð Laufey Lind Valgeirsdóttir, úr sama skóla en Bryndís Sigurjónsdóttir, nemandi úr Tækniskólanum hafi hafnað í þriðja sæti. Fjölbrautarskóli Suðurnesja var því með flest stig samanlögð en keppt var í liðum. Þrír keppendur úr FS, Tækniskólanum og VMA kepptu.

Kátir og glaðir keppendur ásamt herramódelum.

Lilja segir að Tækniskólinn hafi um árabil sigrað þessa keppni en gaman sé að bikarinn fari nú í Reykjanesbæ. Þess má geta að dómarar keppninnar vissu ekki hvaða nemendur áttu hvaða listaverk, þegar þeir mátu verkin. Allir keppendur fengu þátttökuverðlaun frá ISON heildverslun og Regalo auk þess sem sigurvegarinn fékk HH Simonsen sléttujárn frá Bpro.

Nemendur á fjórðu til sjöttu önn túlkuðu þemað „hamfarir“ í sinni keppni. Þar mátti meðal annars sjá eld, fellibyl og fleiri fyrirbrigði náttúrunnar. Úrslitin urðu á þá leið að Elísabet Eir Hjálmarsdóttir, nemandi í Tækniskólanum sigraði, Kormákur Rögnvaldsson nemandi í VMA varð annar og Irina Gloria, nemandi í Tækniskólanum, hafnaði í þriðja sæti. Skólabikarinn í þessum flokki fór því í Tækniskólann. Keppendur í þessum flokki fengu einnig þáttökuverðlaun frá ISON heildverslun og Bpro og siguvergarinn fékk HH Simonsen sléttujárn.

Lilja segir að starf dómara í þessum keppnum hafi verið afar krefjandi. „Eins og sjá má þá var mikill metnaður í verkum nemendanna – verkin voru hver öðrum flottari. Á meðfylgjandi myndum má sjá þau glæsilegu verk sem nemendur túlkuðu eftir þemunum „hafið“ og „hamfarir.“

Stoltir keppendur í HAMFARIR.

Einstaklingskeppnin var ekki síður glæsileg. Irena Fönn Clemmensen, sem lærði hársnyrtiiðn hjá Verkmenntaskólanum á Akureyri, og kom sá og sigraði í einstaklingsflokknum en í þeim flokki var keppt alla þrjá dagana. Meistarinn hennar er Sigríður Inga Einisdóttir á Adell á Akureyri.

Keppnin var hnífjöfn frá degi til dags og ekki ljóst hver myndi sigra fyrr en eftir að búið var að dæma síðasta hluta keppninnar; brúðargeiðsluna. Keppendur kepptu í dömu-tískulínu og litun, herra-tískulínu auk þess að gera greiðslu eftir fyrirmynd.

Það var sem fyrr segir Írena Fönn sem varð hlutskörpust. Hún verður fulltrúi Íslands á Euroskills í Gdansk sem fer fram í byrjun september. Keppendur í einstaklingskeppninni fengu allir þátttökuverðlaun frá Bpro ásamt því að vinningshafinn fékk einnig HH simonsen sléttujárn.

Lilja er í skýjunum með hvernig til tókst. „Ég er ofsalega stolt af þátttakendum og hvernig þeir leystu þessi verkefni af hendi. Það er alveg ljóst að framtíðin í hársnyrtiiðn á Íslandi er björt,“ segir hún að lokum.

Keppendur með glæsilegu brúðarmófelin sín.

Fleiri myndir frá keppninni má sjá hér.