FIT 20 ára: Mikilvægt að vanda til verka

Árni Rúnarsson

Víðsýni, jákvæðni og eldmóður einkennir félagsfólk í Félagi iðn- og tæknigreina, sem rætt er við í tilefni 20 ára afmælis FIT. Í viðtölunum lýsir fólkið hvernig hvernig það rataði á þá starfsbraut sem það hefur valið sér og hvaða verkefni það fæst við frá degi til dags. Í viðtölunum birtiast ekki síður áhugaverð sjónarmið um félagið og hvert það á að stefna.

Félagsmaður: Árni Rúnarsson
Vinnuveitandi: Reykjavíkurborg
Menntun: Meistararéttindi í garðyrkju

„Ég vinn fyrir Reykjavíkurborg og sé um að klippa gróður og annast umhirðu á grænum flötum innan borgarinnar,“ segir Árni í samtali við FIT. Garðyrkjufræðingar sitja ekki auðum höndum í janúar, þótt frost sé í jörðu og snjór yfir öllu. „Þessa dagana vinnum við til dæmis við að klippa gróður og snyrta krónur á trjám. Það er alltaf eitthvað að gera.“ Árni segir aðspurður að í það minnsta fjórir garðyrkjufræðingar vinni með honum hjá borginni en hann segir að ef til vill séu þeir fleiri.

Spurður hvernig það kom til að hann valdi sér þessa starfsgrein svarar Árni því til að hann hafi alltaf verið viðriðinn garðyrkju. „Það var eiginlega alveg sama við hvað ég var að fást hverju sinni, ég var alltaf eitthvað að snyrta garða fyrir skyldmenni eða vini. Það rann svo upp fyrir mér að allt eins gott væri að sækja sér menntun í þessu, svo maður hefði þetta allt á hreinu.“ Hann lærði á Reykjum í Ölfusi og segir að námið hafi verið afar gagnlegt. „Ég lauk náminu árið 2020 og sótti mér svo meistararéttindi á nýliðnu ári,“ útskýrir hann.

Árna líst nokkuð vel á nýgerðan kjarasamning FIT við Samtök atvinnulífsins. „Þetta virkar bara mjög fínn samningur; hann er stuttur og inniheldur góða launahækkun. Það er allt í svo mikilli óvissu í samfélaginu að það væri óráðlegt að semja til margra ára.“ Árni fylgist svolítið með starfi FIT og segist ekki annað sjá en að vel gangi. „Ásókn í iðnnám hefur aukist mikið og maður sér að skólarnir sem kenna iðnnám eru þétt setnir. Það er hægt að rekja til vinnu þeirra sem fást við þessi mál og starfa innan þessara greina.“ Hann segist greina mikla viðhorfsbreytingu gagnvart iðnnámi og að ásýnd iðnaðarmanna hafi breyst til hins betra. „Það verður ekkert úr engu og þess vegna mikilvægt að vanda til verka.“

Viðtalið birtist fyrst í afmælisblaði FIT