FIT 20 ára: Þriðji ættliður húsasmiða

Benedikt Viggósson

Víðsýni, jákvæðni og eldmóður einkennir félagsfólk í Félagi iðn- og tæknigreina, sem rætt er við í tilefni 20 ára afmælis FIT. Í viðtölunum lýsir fólkið hvernig hvernig það rataði á þá starfsbraut sem það hefur valið sér og hvaða verkefni það fæst við frá degi til dags. Í viðtölunum birtiast ekki síður áhugaverð sjónarmið um félagið og hvert það á að stefna.

Félagsmaður: Benedikt Viggósson
Vinnuveitandi: ÍAV
Menntun: Sveinspróf í húsasmíði

„Ég fékk nýlega viðurkenningu frá ÍAV fyrir að hafa náð 30 ára starfsaldri,“ segir húsasmiðurinn Benedikt Viggósson í samtali við FIT, spurður hvað hann hafi starfað lengi í faginu. Þegar viðtalið var tekið var Viggó staddur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Reykjanesbæ en ÍAV hefur verið að endurinnrétta þriðju hæðina frá grunni.

Vinna við sjúkrahúsið var langt komin þegar FIT ræddi við Benedikt. Næsta verkefni ber ef til vill vott um fjölbreytileika þess að starfa sem húsasmiður. „Við erum að fara í verkefni í Grindavík, fyrir NATÓ. Við eigum að setja upp vatnstank, slökkvikerfi og eitthvað fleira fyrir fjarskiptastöðina, sem er neðan við Þorbjörn. Við erum allir sem þar verðum búnir að fara í gegn um bakgrunnskoðun hjá Ríkislögreglustjóra,“ útskýrir hann.

Benedikt er þriðji ættliður húsasmiða í fjölskyldu sinni. Pabbi hans og afi voru báðir húsasmiðir en Benedikt er barnabarn Benedikts Davíðssonar, fyrrverandi forseta Alþýðusambands Íslands. Ef til vill má segja að í æðum Benedikts yngri renni félagsmálablóð. Hann hefur enda gegnt stöðu trúnaðarmanns í sínu fyrirtæki um árabil en nýleg stöðuhækkun hans felur í sér að þar þarf nýr starfsmaður að taka við keflinu.

Benedikt segir þátttöku í félagsstörfum afar mikilvæga. „Ef við ætlum að bæta launin okkur eða berjast fyrir auknum réttindum þá verðum við að vinna vinnuna. Það kemur ekkert af sjálfu sér og þess vegna þarf maður að láta sig málin varða. Við getum ekki bara verið á hliðarlínunni og reiknað með að einhverjir aðrir berjist fyrir okkur. Hann segir að ungir menn virðist því miður hafa lítinn áhuga á því að mæta á fundi og að meðalaldurinn á fundum hækki hratt. „Unga fólkið nennir því miður ekki að taka þátt í þessu. Stærsta verkefnið okkar hlýtur að vera að reyna að virkja þetta fólk.“

Viðtalið birtist fyrst í afmælisblaði FIT.