Tók u-beygju eftir háskólanám

Víðsýni, jákvæðni og eldmóður einkennir félagsfólk í Félagi iðn- og tæknigreina, sem rætt er við í tilefni 20 ára afmælis FIT. Í viðtölunum lýsir fólkið hvernig hvernig það rataði á þá starfsbraut sem það hefur valið sér og hvaða verkefni það fæst við frá degi til dags. Í viðtölunum birtiast ekki síður áhugaverð sjónarmið um félagið og hvert það á að stefna.

Félagsmaður: Erla B. Guðlaugsdóttir
Vinnuveitandi: Sjálfstætt starfandi
Menntun: Snyrtifræðingur

„Það er alltaf svolítið strembið að byrja með eigin rekstur. Ég hef hins vegar verið mjög heppin og einhvern veginn hefur þetta undið hratt upp á sig.“ Þetta segir Erla B. Guðlaugsdóttir snyrtifræðingur. Hún er leigir aðstöðu hjá snyrtistofunni Beauty Salon í Firði í Hafnarfirði.

Erla fór hefðbundna leið í gegn um nám, ef segja má svo. Hún kláraði framhaldsskóla og fór þaðan í háskóla þar sem hún lauk námi í ensku. Hún segist reyndar alltaf hafa ætlað í talmeinafræði en valdi enskuna. Þegar námi lauk hafi gamall draumur hins vegar knúið dyra. „Mér hefur alltaf fundist gaman að dekra við fólk; lakk neglur og dúlla mér eitthvað. Ég fór eftir háskólanámið að velta þessu betur fyrir mér og ákvað að skella mér í snyrtifræði,“ segir Erla.

Hún viðurkennir að það hafi verið skrýtið að taka þessa u-beygju og fara aftur í fjölbrautarskóla, en snyrtifræðin er kennd í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti. „Ég var svolítið smeyk við þetta en að sama skapi mjög ákveðin – og ég sé alls ekki eftir því.“

Erla fæst við alls fjölbreytt verkefni í vinnu sinni, innan snyrtifræðinnar. Hún litar, plokkar auk þess að vinna með augnháralengingar frá NovaLash. „Ég tek fólk líka í vaxmeðferðir, fótsnyrtingar og andlitsmeðferðir. Þetta er bara mjög fjölbreytt,“ útskýrir hún.

Áhugasamir geta fylgst með störfum Erlu á Instagram (nafn: erlagudlaugssnyrting) en þar deilir hún myndum af verkum sínum. „Mér finnst mjög gaman að setja inn myndir, til dæmis af augabrúnum eftir plokkum eða hárlengingum. Það er gaman að geta sýnt öðrum hvað maður er að gera,“ segir hún.

Viðtalið birtist fyrst í afmælisblaði FIT