„Á vel við mig að umgangast fólk“

Víðsýni, jákvæðni og eldmóður einkennir félagsfólk í Félagi iðn- og tæknigreina, sem rætt er við í tilefni 20 ára afmælis FIT. Í viðtölunum lýsir fólkið hvernig hvernig það rataði á þá starfsbraut sem það hefur valið sér og hvaða verkefni það fæst við frá degi til dags. Í viðtölunum birtiast ekki síður áhugaverð sjónarmið um félagið og hvert það á að stefna.

Félagsmaður: Snorri Hreiðarsson
Vinnuveitandi: Sjálfstætt starfandi (SH múrverk slf.)
Menntun:Sveinspróf í múrverki

„Ég er múrari og búinn að vera í því alla mína tíð. Ég byrjaði 16 ára og er í dag 47 ára,“ segir Snorri í samtali við FIT. Snorri, sem lærði hjá Guðmundi Hallsteinssyni múrarameistara og lauk sveinsprófi 1994, hefur sérhæft sig í flísalögnum í heimahúsum. Hann hefur fengist við það í áratug.

Snorri segist ekki vita hvers vegna hann lagði fyrir sig flísalagnir. „Þetta bara gerðist,“ segir hann. Snorri veit þó að samskipti við fólk eiga afar vel við hann og að þess vegna forðist hann að taka að sér flísalagnir í stórum nýbyggingum. „Maður er auðvitað að raska ró heimilisins þegar maður er til dæmis að gera upp baðherbergi hjá fólki, og bæði fjölskyldumynstur og fjölskylduaðstæður eru allskonar. Maður þarf að sýna því virðingu. Ég er stundum spurður hvernig ég nenni þessu en staðreyndin er sú að það á afar vel við mig að umgangast fólk. Góð samskipti eru lykillinn að velgengni í þessum heimabransa.“

Verkefnaskortur hefur aldrei plagað Snorra. Spurður hverju hann þakki það svarar hann því til að sennilega hafi fólk verið ánægt með vinnu hans. „Svo bara festist maður í þessum bransa og allt í einu eru afkomendur þeirra sem maður vann fyrir áður farnir að hringja,“ segir hann glaðbeittur.

Orðspor deyr aldregi, segir í Hávamálum.

Snorra líst ágætlega á nýgerðan kjarasamning en viðurkennir að sem einyrki, sem aðeins greiði sjálfum sér laun, fylgist hann ekki vel með kjarasamningum. „Maður er svolítið einangraður í sinni vinnu, þegar maður starfar einn.“ Hann segist þó ræða reglulega við félaga sína í iðngreinum og bera saman bækur. „Ég geri auðvitað kostnaðaráætlanir fyrir fólk sem tekur mið af launum, sköttum og því sem þarf að standa straum af til að reka lítið fyrirtæki,“ segir hann.

Snorri segir FIT skipta hann miklu máli, ekki síst þegar kemur að því að vera öryggisnet ef eitthvað kemur upp á. Áföllin geri ekki boð á undan sér en hann hafi verið heppinn hingað til. „Ég hef hins vegar nýtt mér bústaðina og styrkina; til dæmis líkamsræktar-og sálfræðistyrk. Öll samskipti mín viðfélagið hafa verið ljómandi góð.“