Skemmtilegt að horfa á hlutina verða til

Unnur Ósk Eggertsdóttir

Víðsýni, jákvæðni og eldmóður einkennir félagsfólk í Félagi iðn- og tæknigreina, sem rætt er við í tilefni 20 ára afmælis FIT. Í viðtölunum lýsir fólkið hvernig hvernig það rataði á þá starfsbraut sem það hefur valið sér og hvaða verkefni það fæst við frá degi til dags. Í viðtölunum birtiast ekki síður áhugaverð sjónarmið um félagið og hvert það á að stefna.

Félagsmaður: Unnur Ósk Eggertsdóttir
Vinnuveitandi: Eykt
Menntun: Tækniteiknun

„Það er mjög skemmtilegt að teikna hlutina og horfa svo á þá verða til fyrir framan sig,“ segir tækniteiknarinn Unnur Ósk Eggertsdóttir. Hún starfar í dag hjá verktakafyrirtækinu Eykt og vinnur viðbyggingu nýs Landspítala. Unnur var áður hjá verkfræðistofu en nýtur þess í dag að vera á vettvangi.

„Þetta er mjög spennandi. Áður þurfti maður lítið að hugsa um verkefnin eftir að maður sendi frá sér teikningarnar. Þetta er mjög lærdómríkt,“ segir hún.

Á meðal helstu verkefna Unnar í vinnunni er að gera teikningar í þrívídd, fyrir járn, steypu og mót og áætla magn þegar kemur að innkaupum. Hún prentar líka út teikningar og plastar fyrir þá sem eru að vinna verkin. Unnur lauk námi úr Tækniskólanum árið 2013. Hún segir að námið hafi verið mjög gagnlegur grunnur en að stóran hluta þekkingarinnar hafi hún öðlast þegar hún byrjaði að vinna við fagið.

Unnur hefur setið í stjórn FIT í átta ár en hún á einnig sæti í miðstjórn Samiðnar. Hún segist vera ánægð með nýgerða kjarasamninga en að hún heyri einnig raddir þeirra sem eru ekki eins ánægðir. „Ég heyrði alveg óánægjuraddir en ég er mjög sátt við samninginn. Mér hugnast styttri samningar, ekki síst þegar óvissa er uppi. Það er gott að taka stöðuna reglulega og semja í ljósi þeirra forsendna sem uppi eru hverju sinni.“