Bílaáhuginn er krónísk veiki

Víðsýni, jákvæðni og eldmóður einkennir félagsfólk í Félagi iðn- og tæknigreina, sem rætt er við í tilefni 20 ára afmælis FIT. Í viðtölunum lýsir fólkið hvernig hvernig það rataði á þá starfsbraut sem það hefur valið sér og hvaða verkefni það fæst við frá degi til dags. Í viðtölunum birtiast ekki síður áhugaverð sjónarmið um félagið og hvert það á að stefna.

Félagsmaður: Gestur Pálsson
Vinnuveitandi: Ísal (álverið í Straumsvík)
Menntun: Sveinspróf í bifvélavirkjun

„Ég er með króníska bíladellu og man ekki eftir mér öðruvísi en að vera að hrærast í kringum bíla,“ segir Gestur Pálsson, bifvélavirki og trúnaðarmaður FIT í álverinu í Straumsvík. Hann starfar þar á vinnuvélaverkstæði ÍSAL og sinnir viðhaldi á tækjum álversins, sem eru af fjölbreyttum toga. Hann nefnir skautskiptitæki, efnisbíla, sérsmíðaða lyftara og rafmagnsbíla. Gestur fæst við vélar, glussa- og hráolíukerfi og járnsmíði, svo eitthvað sé nefnt.

Á verkstæðinu starfa 13 bifvélavirkjar og um 10 vélvirkjar. Aðspurður segist hann helst sérhæfa sig í dísilvélum og olíukerfum. „Við reynum að beina mönnum í það sem þeir eru bestir í,“ útskýrir hann.

Eins og áður segir er Gestur þeirrar skoðunar að bíladellan sé krónísk veiki. Frá blautu barnsbeini hafi hann haft áhuga á bílum. „Ég er fæddur og uppalinn í Kópavogi en var í sveit fyrir vestan níu sumur sem krakki. Ég byrjaði að keyra bíl 12 ára gamall og dráttarvélar um leið og ég náði niður – sjö eða átta ára. „Maður losnar ekkert við þetta svo það er eins gott að mennta sig bara og vinna við þetta,“ segir hann.

Gestur er trúnaðarmaður FIT á verkstæðinu og er í samninganefnd félagsins. Hann segist auk þess mæta á aðalfundi og fylgjast nokkuð vel með. Starfsmenn álversins úr röðum FIT eru með sér kjarasamning en hann gildir til 2026. Hann telur að samninganefndir iðnaðarmanna hefðu þurft að gera betur þegar kemur að nýgerðum kjarasamningum. „Það hefði þurft að gera betur, umtalsvert betur. Það eru meiri hækkanir í þjóðfélaginu en þetta.“