„Ég er alltaf að læra“
Greta Ágústsdóttir hefur klippt frá árinu 1967. Hún undirbýr nemendur í hársnyrtiiðn fyrir sveinspróf.
„Þetta gefur mér alveg svakalega mikið. Ég er sjálf alltaf að læra eitthvað af þessum nemendum, alveg eins og þegar ég var að kenna. Ég er alltaf pikka upp eitthvað nýtt; hvort sem það eru handtök, stíll eða hvernig þau hugsa og framkvæma hlutina.“ Þetta segir hárgreiðslumeistarinn og kennarinn Greta Ágústsdóttir. Hún kennir undirbúningsnámskeið sem FIT stendur fyrir vegna sveinsprófa í hársnyrtiiðn. Eitt slíkt námskeið stendur nú yfir.
Óhætt er að segja að Greta búi yfir mikilli reynslu þegar kemur að hárgreiðslu. Hún hefur klippt frá árinu 1967 og var um langt árabil deildarstjóri og kennari við iðnaskólann í Hafnarfirði. Greta hefur haldið þessi námskeið frá árinu 2016. Þetta er því áttunda árið.
Hún segist hafa brennandi áhuga á faginu og hafi á sínum tíma orðið þess áskynja að of hátt hlutfall nemenda í hársnyrtiiðn hafi fallið á sveinsprófum. „Það þurfti svolítið að hífa þetta upp. Ég er fyrrverandi kennari og tók þetta að mér. Eftir að þessi námskeið byrjuðu hefur dregið úr falli – og það er afar ánægjulegt að sjá.“ Henni til halds og traust á námskeiðunum eru Andri Guðmundsson, annar eigandi Klipphússins, og Sigurlaug Ingvarsdóttir, dóttir Gretu.
Vandasamt að velja módel
Hún segir að einn mikilvægasti partur námskeiðsins sé að leiðbeina nemendum með val á módelum. Mjög algengt sé að nemendur mæti með módel í sveinspróf sem ekki henti þeim verkefnum sem fyrir liggja. Hárið getur verið of stutt eða of litað til þess að hægt sé að nota það með viðunandi árangri á sveinsprófi. „Þetta er grunnurinn að námskeiðinu, að þau mæti með rétt módel í prófin,“ útskýrir Greta og bætir við að einn nemandinn hafi til að mynda komið með þrjú módel sem ekki var hægt að nota á æfingakvöldi – áður en viðkomandi fann módel sem hentaði.
Hún segist stundum þurfa að vera svolítið ströng. „Það hefur alveg komið fyrir að fólk hefur mótmælt eða brostið í grát undan mér en ég vil bara segja þeim alveg eins og er. Ég hef alltaf verið ákveðin og hörð í kennslu en það er bara vegna þess að ég vil að þeim gangi vel.“
Hún segist setja eina ákveðna reglu á hverju námskeiði sem hún heldur. Hún bannar nemendum að varpa frá sér ábyrgð þegar eitthvað fer aflaga á sveinsprófi. „Ég byrja alltaf hvert námskeið á að segja: „Ekki segja „Greta sagði það“. Þau mega ekki skýla sér á bak við mig þegar út í sveinsprófið er komið,“ segir hún ákveðin en glettin.
Uppbygging námskeiðsins
Námskeiðið er þannig byggt upp að á fyrsta kvöldinu er farið í gegn um hvers nemendurnir mega vænta á sveinsprófinu og hvernig módelin þurfa að vera. Greta fer yfir sveinsprófslýsinguna og útskýrir hvernig prófið fer fram. Hún hefur búið til lista með 110 spurningum úr iðnfræði sem hún fer með nemendur í gegn um. „Stundum dett ég í að fara að kenna þeim eitthvað, ég er auðvitað gamall kennari, en það er nú bara af hinu góða,“ segir Greta og hlær.
Hin kvöldin eru æfingakvöld þar sem Andri og Silla, eins og hún er kölluð, hjálpa henni við að aðstoða nemendur; meta módelin, velja liti og æfa klipping, svo dæmi séu tekin. „Andri sér til dæmis alveg um herraklippingarnar og Silla um verklýsingar,“ útskýrir hún og bætir við að sumir nemendurnir mæti á öll æfingakvöldin en aðrir á færri. Sjálf einbeitir hún sér að því að kenna nemendum að gera permanett og blása hár – sem hún segir raunar að sé mörgum erfiður ljár í þúfu á sveinsprófum. „Það er dálítið mikið fall í blæstri svo ég tek það mjög vel fyrir,“ bætir hún við.
Á námskeiðunum færist í aukana að nemendur fái fræðslu um réttindi sín hjá Félagi iðn- og tæknigreina og fræðslu um aðra mikilvæga þætti þegar kemur að því að hefja störf á hárgreiðslustofum. Greta segist hafa góða reynslu af þessu. „Þegar ég var að kenna í iðnskólanum fékk ég stundum fólk úr atvinnulífinu til að mæta og útskýra fyrir nemendum hvað þarf að hafa í huga þegar það fer að vinna á stofu. Það þarf að hyggja að ýmsu og þetta getur nýst nemendum vel þegar þeir eru komnir með réttindi og eru að hefja störf á stofunum.“
Gerir þetta af hugsjón
Greta, sem er enn að klippa tvo daga í viku, þó hún sé orðin 73 ára, segir að þessi námskeið gefi henni mikið. Hún segist búa yfir eðlislægri þjónustulund og vilja til að aðstoða aðra sem vilji læra þetta fag. Hún nefnir sem dæmi að hún haldi iðulega áfram að hjálpa nemendum eftir að námskeiðinu lýkur; til dæmis með því að mæta á stofurnar þeirra. Henni þykir jafnframt afar vænt um það traust sem hún segist finna fyrir frá nemendum og þá ánægju sem hún verður vör við. „Ég er fyrst og fremst að gera þetta af hugsjón – það er minn styrkleiki,“ segir hún að lokum.
Meðfylgjandi myndir af námskeiði hjá Gretu, Andra og Sillu tók Rúnar Hreinsson á dögunum.