Irena Fönn stigahæst Íslendinga á Euroskills
Dagana 5. – 9. september fór Evrópumót iðn-, verk- og tæknigreina, Euroskills 2023, fram í Gdańsk í Póllandi. Ellefu ungir og efnilegir keppendur frá Íslandi tóku þátt í jafn mörgum iðn- og verkgreinum, en Ísland hefur aldrei átt jafn marga þátttakendur og á Evrópumótinu í ár. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Verkiðn.
Verðlaunaafhending og lokaathöfn Euroskills 2023 fór fram með pomp og prakt á stórum íþróttaleikvangi í Gdańsk frammi fyrir þúsundum áhorfenda í gærkvöldi. Þó Ísland hafi ekki átt verðlaunahafa á mótinu að þessu sinni náðu fjórir íslenskir keppendur framúrskarandi árangri og hlutu viðurkenninguna „Medallion for Excellence“. Þá fékk Irena Fönn Clemmensen, Verkmenntaskólanum á Akureyri, sérstök verðlaun fyrir að vera stigahæsti keppandinn í íslenska landsliðinu, en hún keppti í hársnyrtiiðn.
Íslensku keppendurnir sem hlutu viðurkenninguna „Medallion for Excellence“:
- Irena Fönn Clemmensen, Verkmenntaskólanum á Akureyri, fyrir framúrskarandi árangur í keppni í hársnyrtiiðn.
- Finnur Guðberg Ívarsson, Hótel- og matvælaskólanum, fyrir framúrskarandi árangur í keppni í bakaraiðn.
- Benedikt Máni Finnsson, Tækniskólanum, fyrir framúrskarandi árangur í keppni í iðnaðarstýringum.
- Hinrik Örn Halldórsson, Hótel- og matvælaskólanum, fyrir framúrskarandi árangur í keppni í matreiðslu.
Íslensku keppendurnir og þjálfarar þeirra geta verið stoltir af þátttöku sinni í Euroskills 2023 og koma heim til Íslands frá Póllandi með troðfulla ferðatösku af minningum og reynslu sem mun nýtast þeim vel í sinni iðn- og verkgrein.
Stoltur af íslenska landsliðshópnum
„Árangur íslenska landsliðsins var mjög góður og andinn í hópnum var frábær,“ segir Georg Páll Skúlason, formaður Verkiðnar / Skills Iceland. „Það sem er kannski mikilvægast er að keppendur hafa safnað mikilvægri reynslu og minningum sem þau varðveita til framtíðar. Ísland hefur aldrei sent jafn marga fulltrúa í Euroskills, en ætla má að íslenski hópurinn hafi talið um 40 manns með þjálfurum og aðstoðarfólki. Ég er afskaplega stoltur af þessum hópi og er sannarlega bjartsýnn á framtíðina þegar kemur að iðn- og verknámi á Íslandi,“ segir Georg Páll.
Næsta Euroskills fer fram árið 2025 í Herning í Danmörku.