Fengu höfðinglegar móttökur á Bessastöðum

Óhætt er að segja að gleði hafi skinið úr hverju andliti þegar þátttakendur Íslands á Euroskills, þjálfarar þeirra og aðstandendur, þáðu heimboð forseta Íslands á Bessastöðum 21. september.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur í embætti sínu sýnt iðngreinum mikinn stuðning. Á því var engin undantekning að þessu sinni. Hann flutti kraftmikla ræðu um mikilvægi þessara starfa í samfélaginu og þann frábæra árangur sem fulltrúar Íslands náðu á Euroskills í Gdansk á dögunum. Loks afhenti hann þátttakendum og þjálfurum viðurkenningarskjöl fyrir framlag sitt og árangur. Fjórir þátttakendur voru verðlaunaðir sérstaklega fyrir árangur sinn á mótinu.

Veðrið sýndi sínar allra bestu hliðar þegar móttakan á Bessastöðum fór fram. Rúnar Hreinsson ljósmyndari tók fjölmargar myndir af því sem fram fór en óhætt er að hvetja fólk til að skoða þær vandlega.

Eins og áður hefur komið fram náðu fulltrúar FIT frábærum árangri á Euroskills. Félagið óskar þátttakendum, þjálfurum og aðstandendum keppenda innilega til hamingju.

Fjölmargar myndir frá viðburðinum má sjá í myndasafni FIT