„Var tilbúinn að prófa eitthvað nýtt“

Víðsýni, jákvæðni og eldmóður einkennir félagsfólk í Félagi iðn- og tæknigreina, sem rætt er við í tilefni 20 ára afmælis FIT. Í viðtölunum lýsir fólkið hvernig hvernig það rataði á þá starfsbraut sem það hefur valið sér og hvaða verkefni það fæst við frá degi til dags. Í viðtölunum birtiast ekki síður áhugaverð sjónarmið um félagið og hvert það á að stefna.

Félagsmaður: Hákon Fannar Briem Kristjánsson
Vinnuveitandi: Súperlagnir ehf.
Menntun: Sveinspróf í pípulögnum

„Núverandi yfirmaður minn hafði samband við mig þegar ég var 21 eða 22 ára en þá var ég að vinna í eldhúsi og var tilbúinn að prófa eitthvað nýtt,“ segir Hákon Fannar Briem Kristjánsson í samtali við FIT um tilurð þess að hann gerðist pípari. Hákon, sem er 28 ára í dag, lauk sveinprófi 2019 og ber náminu góða sögu. „Já, ég er mjög sáttur við það. Þetta var stutt og hnitmiðað,“ segir hann.

Hákon vinnur hjá Súperlögnum ehf. og er þessa daganna, ásamt fjórum til fimm öðrum pípurum, að leggja í ofna í tvær blokkir sem eru í byggingu. „Þetta er mjög þægileg vinna,“ segir hann um píparastarfið og bætir við að þetta sé ef til vill það hreinlegasta þegar byggingagreinarnar eru bornar saman, ásamt starfi rafvirkja. Hann segir aðspurður að nóg sé fram undan og verkefnaskortur sé ekki vandamál. „Það er bara alltaf nóg að gera.“

Hákon er ánægður með kjarasamninginn sem FIT gerði við Samtök atvinnulífsins á dögunum en segir erfitt að semja þegar Efling eigi eftir að semja. Fram að þeim tíma ríki alltaf ákveðin óvissa. „En ég er bara sáttur við samninginn.“ Hákon er hins vegar þeirrar skoðunar að stéttafélögin geti takmörkuð áhrif haft á almenn lífskjör í landinu. Hann segir mikilvægast að launahækkanirnar hverfi ekki í hækkandi útgjöld heimilanna. Vandamálið liggi í háum framfærslukostnaði á landinu. Það sé ekki bardagi stéttarfélaganna. „Launahækkanir á Íslandi skila sér aldrei til fólksins.“

„Það er ekkert eðlilegt við að það sé helmingi dýrara að lifa hér en í Svíþjóð,“ segir Hákon en þangað á hann tengingar. „Ég gæti keypt 450 fermetra höll í nágrenni Gautaborgar, sem er búið að taka algjörlega í gegn, fyrir 30 milljónir króna. Það er sú upphæð sem húsið mitt í Hveragerði hefur hækkað um, síðan ég keypti það. Þetta er svo kjánalegt.“