Þurfum að halda vel utan um fólkið okkar

„Það er baráttuhugur í okkar félagsfólki og alveg ljóst að við munum ekki taka fregnum af ofsagróða stórfyrirtækja og aðgerðarleysi stjórnvalda þegar kemur að verðbólgu og vöxtum þegjandi.“ Þetta segir Hilmar Harðarson, formaður Félags iðn- og tæknigreina. Kjarasamningar verða lausir í upphafi nýs árs og undirbúningur fyrir þær – í samvinnu við aðildarfélög Samiðn – eru í fullum gangi.

Góð þátttaka var að venju í kjarakönnun FIT en upplýsingar úr henni verða félaginu dýrmætar þegar sest verður við samningaborðið. Hilmar segir afar mikilvægt að ná góðum samningum að þessu sinni enda hefur verðbólgan þegar étið upp þær launahækkanir sem samið var um undir lok síðasta árs. „Þarna bera fyrirtæki og stjórnvöld mikla ábyrgð. Því miður hefur þeim ekki auðnast að halda aftur af verðbólgunni, heldur velt kostnaðarhækkunum út í verðlagið,“ útskýrir Hilmar.

Félagið hefur vaxið hratt

FIT fagnar í ár 20 ára afmæli sínu. Félagið hefur vaxið hratt á undanförnum árum og eflst á marga vegu. Í dag er það stærsta einstaka iðnfélagið á Íslandi. „Það er engin tilviljun að sífellt fleiri iðngreinar sjá hag sínum best borgið innan FIT,“ segir Hilmar, aðspurður um þessa þróun. Félagið kappkostar að veita félagsfólki fyrsta flokks þjónustu og er öflugur öflugur málsvari félagfólks þegar kemur að réttindum og hagsmunum iðnaðarmanna. „Við sinnum líka upplýsingagjöf af natni, erum óhrædd við að tileinka okkur tækninýjungar og styðjum vel við okkar fólk þegar veikindi ber að garði eða ágreiningur kemur upp við vinnuveitendur,“ bætir Hilmar við.

Óhætt er að segja að mikill vöxtur og stór verkefni einkenni starfsemi FIT. Kjarasamningar eru alltaf fyrirferðarmiklir en einnig þarf að huga að brýnum réttindamálum og menntun. Þannig hefur verið sótt að löggildingu iðngreina og brögð eru af því víða, sérstaklega í byggingagreinum, að ófaglærðir vinni störf sem aðeins iðnfólk með réttindi má sinna.

Hilmar nefnir einnig skólana. „Það gengur ekki til lengdar að á sama tíma og hér bráðvantar fleiri iðnmenntaða einstaklinga – þurfi að synja mörg hundruð nemendum um skólavist á hverju hausti. Þetta verðum við að laga,“ segir formaðurinn. Haustið 2022 var tæplega 500 nemendum sem sóttu umskólavist í starfsnámi synjað um skólavist.

Framtíðin er björt

Þrátt fyrir að krefjandi verkefni bíði félagsins verður ekki annað sagt en að framtíð þess sé björt. Stórar útskriftir iðnnema hafa verið haldnar á árinu, bæði í vor og haust. Þannig tók metfjöldi nýsveina tók við sveinsbréfum sínum við hátíðlega athöfn á Hótel Nordica í september. Þar var ungt og efnilegt félagsfólk úr FIT verðlaunað fyrir framúrskarandi árangur. Loks má ekki gleyma frábærum árangri Íslands á Euroskills á dögunum, þar sem félagsmaður í FIT skaraði fram úr.

„Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með unga fólkinu okkar í ár, hvort sem við horfum til Íslandsmóts iðn- og verkgreina sem haldið var í Laugardalshöll, árangurs Íslands á Evrópumóti iðngreina eða þessara fjölmennu athafna þegar við höfum verið að afhenda fólki framtíðarinnar sveinsbréfin sín. Það er alveg ljóst að framtíð iðngreina á Íslandi er björt. Við þurfum að halda vel utan um fólkið okkar,“ segir Hilmar að lokum.