Gagnlegt samtal við Samtök atvinnulífsins

Samninganefnd Samiðnar, sem fer með samningsumboð fyrir FIT og önnur aðildarfélög, hefur átt níu fundi með Samtökum atvinnulífsins (SA) frá 23. ágúst síðastliðnum. Viðfangsefni fundanna hefur verið vinna við tímasetta verkáætlun sem er hluti af núgildandi kjarasamningi. Kjarasamningar iðnaðarmanna verða lausir í upphafi næsta árs.

Samtalið hefur verið gagnlegt og ýmsar lagfæringar hafa verið gerðar á texta og bókunum. Í verkáætluninni er tekið á mörgum viðfangsefnum en helstu verkefni síðustu vikna hafa verið yfirferð kjarasamnings og uppfærsla bókana auk ýmissa réttindamála.

Þar ber helst að nefna vinnustaðaskírteini, starfsmannaleigur, aðkomu atvinnulífsins að vinnustaðaeftirliti og keðjuábyrgð. Þá hafa mörg álitamál komið upp við yfirferð á stólaleigu í snyrtifræði og hárgreiðslu.

Á næsta fundi eru menntamál og málefni iðnnema til umfjöllunar.