Orlofshús FIT boðin Grindvíkingum
Félag iðn- og tæknigreina hefur ákveðið að rýma orlofseignir félagsins í Svignaskarði og Ölfusborgum í óákveðinn tíma. Lokað hefur verið fyrir bókanir húsa félagsins á þessum stöðum auk þess sem þær bókanir sem þegar hafa verið gerðar verða afbókaðar.
Eins og kunnugt hafa Grindvíkingar þurft að yfirgefa heimili sín vegna náttúruhamfara. Óvíst er hvenær neyðarstigi Almannavarna verður aflétt og hvort eða hvenær Grindvíkingar geta snúið aftur heim. Þessi aðgerð hefur verið í undirbúningi síðustu daga en formaður FIT hefur meðal annars fundað með Almannavörnum í því skyni. Orlofshúsin verða nýtt til að skjóta skjólshúsi yfir Grindvíkinga, eins og þörf krefur.
FIT fer þess á leit við félagsmenn að þeir sýni þessum aðstæðum umburðarlyndi og skilning. Hugur okkur allra er hjá Grindvíkingum.