Hamfarir og kjaramál
Pistill formanns í Fréttabréfi FIT í desember 2023
Hamfarir og kjaramál
Náttúruhamfarirnar í Grindavík eru rækileg áminning um að náttúran fer sínu fram, óháð því hvað klukkan slær í samfélaginu okkar. Hálf öld er liðin frá því ríflega 5.000 manns þurftu að flýja heimili sín í ofvæni vegna eldgossins í Vestmannaeyjum. Að þessu sinni þurftu um 4.000 þúsund manns að yfirgefa heimabæinn sinn. Þrátt fyrir að eldgos sé ekki hafið, þegar þetta er skrifað, er framkvæmd og úrvinnsla þessa verkefnis ákveðinn prófsteinn á íslenskt samfélag. Við þurfum öll að leggjast á árarnar þegar á bátinn gefur.
FIT hefur, eins og fleiri stéttarfélög, lagt Grindvíkingum lið eftir fremsta megni. Eins og fjallað er um í þessu blaði hefur félagið rýmt orlofseignir svo hýsa megi Grindvíkinga á meðan þeir þurfa á að halda. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka félagsfólki, sem gaf eftir bókanir sínar, fyrir að sýnt þessum aðstæðum skilning. Um leið og við vonum að vel fari um Grindvíkinga í húsunum okkar bindum við jafnframt vonir við að fólkið komist sem fyrst til síns heima, þeirra vegna.
Ögurstund í efnahagslífinu
Það eru ekki bara náttúruhamfarir sem steðja að Íslendingum. Við stöndum á ákveðnum krossgötum þegar kemur að efnahagslífinu og skiptingu gæða í okkar samfélagi. Í byrjun september hafði verðbólgan gleypt þær launahækkanir sem um var samið í upphafi ársins. Ljóst er að verðlag á Íslandi hefur hækkað langt umfram laun og kaupmáttur hefur dregist saman. Hinu opinbera; ríkinu, sveitarfélögunum hefur mistekist það hlutverk sitt að halda aftur af verðhækkunum. Þetta eru aðilar sem hefðu þurft að ganga á undan með góðu fordæmi, til að vinna gegna verðbólgunni. Það er sérstaklega sláandi að sveitarfélögin, sem veita grunnþjónustu í samfélaginu, skuli ekki hafa haldið aftur af hækkunum sínum.
Loks hafa ýmis stórfyrirtæki, sem skilað hafa miklum hagnaði undanfarin ár, hækkað verð úr hófi. Gífurlegar hækkanir hafa þannig til dæmis orðið á matvælaverði, eins og verðlagseftirlit ASÍ benti á í haust. Þeir aðilar sem hér hafa verið taldir upp geta ekki lengur skýlt sér á bak við þá skýringu að verðbólgan sé að stærstum hluta launahækkunum að kenna. Þeir þurfa að líta í eigin barm.
Loks má nefna að eina meðal Seðlabanka Íslands, hækkun stýrivaxta, hefur reynst dýrkeypt. Mjög hefur þrengt að heimilunum og greiðslubyrði lána hefur farið upp úr öllu valdi. Á komandi ári munu fastir vextir losna hjá fjöldanum öllum af heimilum. Snjóhengjan mun falla með miklum þunga, ofan á allt annað.
Það er hlutverk okkar sem senn setjumst við samningaborðið að bæta félagsfólki upp þann kaupmátt sem það hefur glatað. Við verðum að standa vörð um lífskjör okkar fólks og sjá til þess að það búi við mannsæmandi kjör. Til að það megi verða þurfa allir að taka þátt. Fyrirtækin í landinu og hið opinbera þarf að axla ábyrgð á gjörðum sínum.
Samtalið við SA
Samtal Samiðnar við Samtök atvinnulífsins hefur að mörgu leyti gengið vel þrátt fyrir að kjarasamningsviðræður séu ekki hafnar. Aðilar hafa fundað í á annan tug skipta um þær bókanir sem gerðar voru við síðasta kjarasamning. Viðfangsefni fundanna hefur þannig að mestu verið vinna við verkáætlun sem er hluti af núgildandi kjarasamningi. Fjallað hefur verið um starfsmannaleigur, aðkomu atvinnulífsins að vinnustaðaeftirliti og keðjuábyrgð, svo eitthvað sé nefnt. Menntamál og málefni iðnnema hafa einnig verið til umfjöllunar, enda er ótækt að fleiri hundruð manna sé synjað um inngöngu í iðnnám á hverju hausti á sama tíma og hér bráðvantar menntað iðnfólk. Þarna þurfa stjórnvöld að gera miklu betur.
Ýmis atriði sem varða stólaleigu í snyrtifræði og hárgreiðslu hafa einnig verið rædd á þessum fundum.
Hafið þökk fyrir
Þrátt fyrir allar þessar áskoranir er ekki annað hægt en að færa þátttakendum í kjarakönnun félagsins þakkir. Þátttaka í könnuninni var mjög góð en könnunin var gerð til að fylgjast með þróun mála hjá félagsfólki; til dæmis til að kanna hvort umsamdar launahækkanir skiluðu sér. Þessi góða þátttaka er til marks um áhuga félagsfólks og sterka stöðu okkar stóra félags, enda sýndu niðurstöðurnar okkur að það er baráttuhugur í okkar fólki.
Ég vil líka nota þetta tækifæri og þakka því félagsfólki sem mætti á félags- og faggreinafundi FIT núna í haust. Beint samtal veitir mér bæði dýrmæta innsýn í hugðarefni félagsfólks og innblástur til að vinna áfram að bættum hag félagsfólks FIT.
Þrátt fyrir að krefjandi verkefni hafi rekið á fjörur félagsins á 20 ára afmælisári þess verður ekki annað sagt en að framtíð þess sé björt. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með unga fólkinu okkar í ár, hvort sem við horfum til Íslandsmóts iðn- og verkgreina sem haldið var í Laugardalshöll, árangurs Íslands á Evrópumóti iðngreina eða þessara fjölmennu athafna þegar við höfum afhent fólki framtíðarinnar sveinsbréfin sín. IÐAN fræðslusetur hefur afhent 658 sveinsbréf á árinu. Það er 23% fjölgun frá því í fyrra og 38% fjölgun miðað við 2020.
Hilmar Þór Harðarson formaður.
Pistillinn birtist fyrst í Fréttabréfi FIT, í desember 2023.