Lærði múrverk í skugga áfalla

Bróðir Önnu Hildar Jónsdóttur múrara hvarf sporlaust

„Ég er svolítið gömul og tók þetta bara eins og lífið bauð mér upp á,“ segir Anna Hildur Jónsdóttir múrari. Anna lauk námi í Tækniskólanum í vor og þreytti sveinspróf í múraraiðn. Sveinsstykkin voru sýnd í Byggingatækniskólanum á Skeljanesi í maí, þar sem FIT var á staðnum og tók myndir.

Lífið tekur stundum óvænta stefnu en það má með sanni segja um síðustu ár í lífi Önnu. Hún er með réttindi sem einkaþjálfari en segist sjálf hafa misst áhugann á að „plokka peninga af fólki fyrir ekki meiri vinnu.“ Hugurinn hafi því leitað á önnur mið. „Ég eignaðist barn árið 2013 og var komin á fullt í heimilisþrif – stundum með krakkana með mér,“ segir hún í samtali við FIT.

Sá rekstur vatt hratt upp á sig; hún stofnaði hreingerningafyrirtæki og var komin með fólk í vinnu. Með henni í þrifunum var Magnús Sigurðsson múrari og vinur hennar. Samvinna þeirra þróaðist með þeim hætti að þau hjálpuðu hvort öðru á víxl, Anna í múrverki og Magnús í þrifum, eftir því sem verkefnastaðan krafðist. „Mér fannst þetta bara skemmtilegt en ég viðurkenni að það var stundum erfitt að vera með ungar konur í vinnu,“ segir hún hreinskilinn. Það var þannig sem það vildi til að hún fór að múra á fullu með Magnúsi og sagði skilið við hreingerningar.

Anna byrjaði í námi í Tækniskólanum árið 2018 og tók þá þrjú eða fjögur bókleg fög. Hún dúxaði meðal annars í áfanga sem hún hefði með réttu átt að taka á þriðju önn. Sá árangur blés henni byr undir báða vængi.

Bróðir hennar hvarf sporlaust

En það var þá sem ógæfan knúði dyra. Fregnir bárust af því að bróðir hennar, Jón Þröstur Jónsson, hefði horfið sporlaust á Írlandi, eftir að hafa tekið þátt í pókermóti. Leit að Jóni, sem hvarf þann 9. febrúar 2019, hefur enn engan árangur borið. Anna gerði hlé á námi sínu og dvaldi á Írlandi í nokkra mánuði til að freista þess að finna bróður sinn. Allt kom fyrir ekki. Hún segir að enn séu ekki öll kurl komin til grafar og vonast til að Jón Þröstur finnist, áður en langt um líður. Það sé mikilvægt fyrir fjölskylduna að flytja hann heim.

„Það er gaman að segja frá því að mín fyrsta flísalögn var með bróður mínum. Hann hjálpaði mér – pro bono,“ rifjar hún upp.

Múrverkið vindur upp á sig

Þegar Anna sneri aftur heim til Íslands hélt hún áfram að læra til múrara – á sínum hraða. Hún útskrifaðist sem fyrr segir í vor og hefur nóg fyrir stafni. „Það er brjálað að gera,“ segir hún um stöðu mála í dag. Hún fæst aðallega við flísalagnir en hefur líka verið að steypa gangstéttir í Hafnarfjarðarbæ. „Ég er góð í að flísaleggja og finnst það gaman. Þetta getur samt verið andlega krefjandi. Maður er oftast síðasta manneskjan út og tekur þetta með sér heim, í kollinum,“ útskýrir hún og tekur fram að fólk geti illa án baðherbergis verið í marga daga. Hún sé þess vegna oft í kapphlaupi við tímann.

Nú er svo komið að Anna er að stofna sitt eigið fyrirtæki. „Ég hef verið að bíða eftir tækifæri til að stofna fyrirtæki og fékk núna tækifæri á að kaupa félag sem ég þurfti ekki að borga mikið fyrir. Ég fór svo að flísaleggja fyrir bókara og þar með var ég komin með góða manneskju í það hlutverk, einhvern sem kennir mér hvað má og hvað má ekki. Lífið hendir þessu öllu upp í hendurnar á mér,“ segir hún einlæg.

Fjölbreytileikinn heillandi

Anna, sem er rúmlega fertug, er mjög ánægð með námið en segir að lífreynslan hafi létt henni lærdóminn. Margt af því sem var kennt hafi hún skilið vel og kannski betur en sumir samnemendur hennar sem voru flestir um tvítugt. „Það er öðruvísi að koma inn í þetta nám með reynslu en þetta var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt,“ áréttar hún. Anna segir aðspurð að fjölbreytileikinn sé það sem sé skemmtilegast við múrverkið. „Maður er ekki bara að múra heldur líka stilla niðurföll, færa til pípu- eða raflagnir eða setja þröskulda. Þau eru mjög fjölbreytt, verkefnin sem fylgja þessu,“ segir hún að lokum.

Viðtalið birtist fyrst í Fréttabréfi FIT, desember 2023