„Vona að ég geti verið fyrirmynd“

Aníta Björk Jóhannesd. Randíardóttir var verðlaunuð fyrir að vera hæst á sveinsprófi í pípulögnum þegar 145 sveinar tóku við sveinsbréfum sínum á Hótel Nordica í haust. Aníta var jafnframt verðlaunuð við útskrift skólans fyrir besta námsárangurinn. FIT tók Anítu tali fyrir Fréttabréf FIT, sem er nýkomið út.

Aníta var á göngu í Katmandu þegar FIT hafði samband við hana. Óhætt er að segja að þar fari ævintýramanneskja enda segist hún sjálf hafa fengist við ýmislegt og að lífið hafi dregið hana í alls kyns áttir. „Ég ólst upp á Ísafirði og eftir menntaskóla flutti ég til Reykjavíkur og fór í háskólanám í þjóð- og kynjafræði. Ég fann að lífið í borginni hentaði mér vel, þar prufaði ég að vinna á veitingastað og síðar kaffihúsi og naut þess á milli vakta að hanga á öðrum kaffihúsum, fara í sund og hitta vini.“ Hún ákvað þó eitt sumarið að skipta um gír. „Ég ákvað sækja um vinnu í Skaftafelli í Vatnajökulsþjóðgarði og þá var ekki aftur snúið – náttúran átti hug minn allan. Ég vann þar í þrjú sumur í kaffiteríu og tók svo landvarðaréttindin og starfaði þar eitt sumar sem landvörður, áður en ég færði mig í Dyrhólaey og svo í Kerlingarfjöll. Sem landvörður fann ég hvernig líkamleg vinna átti vel við mig,“ segir hún.

Það var að sögn á ferðalagi um Nepal og Indónesíu veturinn 2019 til 2020 sem Aníta fékk þá hugmynd að fara í iðnnám. „Það fyrsta sem mér datt í hug voru pípulagnir en ég ákvað þó að skoða allar greinarnar. Að lokum hélt ég mig við pípurnar og hugsaði með mér að ég myndi allavega ekki tapa neinu á því að prufa. Svo endaði þetta á að vera hinn fullkomni tími til að fara í nám því um leið og ég kom heim úr ferðalaginu, með nánast ekkert plan um framtíðina, skall heimsfaraldurinn á.“

Fjölbreytileikinn er kostur

Hún segir að helsti kosturinn við pípulagnir sé hversu fjölbreytt starfið er. Nýjar áskoranir komi fram nánast daglega og til að hægt sé að halda áfram með verkin þurfi að finna út úr hlutunum. „Í það fer kannski mikil hugsun og svo jafn mikil líkamleg vinna, en mér finnst mjög gaman hvernig þetta tvennt tvinnast saman,“ útskýrir hún.

Nánar er rætt við Anítu í blaðinu.