Að brenna af úr dauðafæri

Leiðari eftir Hilmar Harðarson formann

Það eru mikil vonbrigði að Samtök atvinnulífsins skyldu ekki hafa séð hag sinn í því ganga til samninga við breiðfylkinguna um hóflegar launahækkanir og kjarasamninga sem voru til þess fallnir að draga úr verðbólgu og vöxtum í landinu en um leið gera löngu tímabæra leiðréttingu á barna- húsnæðis- og vaxtabótum. Það er því miður ekki aðeins í handboltanum sem dauðafærin klikkuðu í janúar. Þarna brenndi SA af.

Ávinningurinn af því samkomulagi sem virtist um tíma vera í sjónmáli hefði bætt kjör íslenskra heimila – og um leið íslenskra fyrirtækja – svo um munaði. Nærri lætur að hvert prósentustig í vaxtalækkun spari fjölskyldu með hefðbundið, óverðtryggt húsnæðislán um 33 þúsund krónur á mánuði. Að sama skapi myndi lækkun verðbólgu hægja á hækkun höfuðstóls verðtryggðra lána og verja kaupmátt launafólks.

Eins og fram kom í yfirlýsingu frá breiðfylkingunni nýverið var viðsnúningur SA í þessum viðræðum illskiljanlegur. Samtökin lögðu þann 24. janúar síðastliðinn fram tilboð um lægri krónutöluhækkun en þau höfðu áður lagt fram. Það er afar undarleg nálgun í kjaraviðræðum, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Viðræðuslit og vísun deilunnar til ríkissáttasemjara var óhjákvæmilegt skref á þessum tímapunkti.

Ábyrgð ráðherra

Ummæli Bjarna Benediktssonar, nú utanríkisráðherra, um að boðaður aðgerðarpakki stjórnvalda til handa Grindvíkingum gæti orðið til þess að stjórnvöld gætu ekki orðið við kröfum verkalýðshreyfingarinnar voru ekki til þess fallin að auðvelda það verkefni sem við tökumst á við. Það er ábyrgðarhluti af ráðherra í ríkisstjórn landsins að etja saman hópum með þessum hætti enda eru kjarasamningar til næstu fjögurra ára risavaxið efnahags- og velferðarmál. Stjórnvöld geta ekki skorast undan ábyrgð og skýlt sér á bak við verkefnið í Grindavík. Okkur ber skylda til að gera vel við Grindvíkinga í erfiðri stöðu en við verðum líka að standa þannig að kjarasamningum að samfélagið geti þrifist og fólk eigi til hnífs og skeiðar.

Það er ekki aðeins heimilum og fyrirtækjum mikilvægt að draga úr verðbólgu og lækka vexti. Ef hófsamir kjarasamningar yrðu til þess að skapa aðstæður til að stýrivextir gætu lækkað hratt, myndi ríkið um leið spara sér háar fjárhæðir í vaxtabyrði lána sinna. Það fengi útlagðan kostnað vegna stuðningsaðgerða við kjarasamninga að nokkru leyti til baka, ef vel tækist til. Ríkið á þannig sjálft mikið undir því að farsæl lausn náist í kjaraviðræðum launafólks.

Ábyrgð ríkisvaldsins

Undirritaður bindur vonir við að ríkisstjórninni auðnist að horfa á heildarmyndina. Erfitt er að trúa, fyrr en á reynir, að ríkisvaldið muni skorast undan ábyrgð í þessum efnum. Ríkisvaldið ber nefnilega umtalsverða ábyrgð á ástandinu. Hagfræðingur ASÍ er einn þeirra sem á nýliðnu ári benti á að stjórnvöld hefðu kynt undir verðbólguna með hækkun skatta og opinberra gjalda.

Fleiri lykilleikendur í íslensku samfélagi bera ábyrgð á verðbólgunni. Það var ekki að ástæðulausu sem viðskiptaráðherra óskaði í haust eftir skýringum frá helstu verslanakeðjum á því hvers vegna dagvara hækkaði jafn mikið í verði og raun bar vitni. Það gerðist á sama tíma og krónan styrktist og verðbólga í heiminum hjaðnaði. Sterkara gengi hefði með réttu átt að skila sér í lægra vöruverði. Fleiri aðila má nefna, svo sem tryggingafélög og sveitarfélög. Ríkið og Samtök atvinnulífsins þurfa með öðrum orðum að líta í eigin barm, þegar finna þarf blóraböggla vegna efnahagsástandsins.

Virkjum fleiri úrræði

Eins og áður segir vinnur ríkisstjórnin að því að útfæra hvernig megi kaupa Grindvíkinga út úr þeirri pattstöðu sem þeir standa frammi fyrir. Það hvernig ríkisvaldið kemur til móts við Grindvíkinga á þessum erfiðu tímum er mikilvægur mælikvarði á samfélagið okkar. Það var ánægjulegt að sjá hvernig mörg stéttarfélög lögðu sitt af mörkum í þeim húsnæðisvanda sem upp kom þegar bærinn var rýmdur í haust.

Það er líka ljóst að búferlaflutningar heils bæjarfélags munu auka enn þenslu á húsnæðismarkaði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Afar mikilvægt er að leita leiða til að draga úr áhrifum þessa á verðbólgu, enda er vart á bætandi.

Að sama skapi er mikilvægt að endurvekja úrræði á borð við endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda og framlengja heimild til að greiða skyldusparnað inn á húsnæðislán. Efnahagsástandið hefur gengið mjög nærri heimilum landsins og mikilvægt er að öllum færum úrræðum sé beitt til, sem létt geta fólki lífið.

Viðvarandi skortur á iðn- og tæknimenntuðu fólki

Þessi veruleiki beinir enn á ný sjónum að þeirri staðreynd að á Íslandi er viðvarandi skortur á iðn- og tæknimenntuðu fólki. Skortur er á nýju húsnæði og þeirri þekkingu sem þessar stéttir búa yfir. Það er óskiljanlegt að stjórnvöld hafi ekki fyrir löngu ráðist í stórátak í menntun iðn- og tæknifólks. Vissulega hefur eitthvað verið gert en betur má ef duga skal. Á sama tíma og hér bráðvantar menntað iðnaðarfólk þá er staðan enn sú að synja þarf fleiri hundruð um skólavist í þessum verðmætu greinum á hverju hausti. Það er óboðleg staða.

Byggingafyrirtæki reiða sig í auknum mæli í dag á innflutning erlends vinnuafls. Því miður ber allt of mikið á að brotið sé á réttindum þessa hóps; bæði hvað varðar laun, vinnutíma og aðbúnað. Mörg fyrirtæki standa vel við bakið á starfsfólki sínu, sama hvaðan það kemur, en svartir sauðir eru víða. Reyndin er að of stór hluti þessa hóps er réttindalaus. Þar er ekki við þessa ágætu verkamenn að sakast. Þessi staða er miklu frekar vitnisburður um hvernig stjórnvöldum hefur mistekist að tryggja nægt námsframboð í þessum lykilgreinum í íslensku samfélagi.

Því fyrr sem ríkið grípur til aðgerða og eykur kraftinn í framboði á iðn- og tækninámi, því fyrr verður hægt að saxa á þann húsnæðisskort sem virðist vera orðinn að lögmáli á Íslandi. Það myndi jafnframt létta svolítið á álaginu á húsnæðismarkaði ef hægt væri að manna fleiri stöður í byggingariðnaði með  því að mennta ungt fólk sem hér býr og vill læra, í stað þess að flytja inn verkamenn í þúsundatali sem allir þurfa tímabundið húsnæði.

Iðn- og tækninám á Íslandi er afar gott og vandað enda eru þessar greinar mjög eftirsóttar hjá ungu fólki. Við þurfum á fólki að halda sem þekkir íslenskar aðstæður og kaupendur þurfa að geta treyst því að verkið hafi verið unnið af fagmanni sem kann til verka. Taka þarf tillit til sjónarmiða um neytendavernd. Við megum sem samfélag ekki fara á mis við áhuga þessa vaxandi hóps, hóps sem hefur áhuga á iðn- og tækninámi.

Óskandi væri að ríkið nýtti dauðafærið.

Hilmar Harðarson formaður.
Leiðarinn birtist í Fréttabréfi FIT sem út kom 31. janúar 2024.