„Mér finnst rigningin æðisleg“

Garðyrkjufræðingurinn Svavar Skúli í viðtali

„Ég sá fyrir mér að þetta gæti orðið skemmtilegt. Ég hef gaman að því að vera úti í öllum veðrum og svo ég hef alltaf haft svolítinn áhuga á þessu.“ Þetta segir Njarðvíkingurinn og garðyrkjufræðingurinn Svavar Skúli Jónsson, starfsmaður Reykjavíkurborgar í Grasagarðinum.

Afi Svavars var mikið í trjárækt sem og kartöflu- og gulrótarræktun, þegar Svavar var ungur drengur. Hann fékk þannig nasaþefinn af garðyrkjunni snemma. „Þegar kom að því að velja hvað ég myndi leggja fyrir mig var þetta ofarlega á blaði.“

Svavar er 31 árs en byrjaði tvítugur í garðyrkjunáminu að Reykjum. Hann lauk bóknámi 24 ára; lærði fyrst lífræna ræktun en tók verknámið í Grasagarðinum. Þar fann hann sig vel. Svavar er í dag trúnaðarmaður FIT á vinnustaðnum en í Grasagarðinum eru átta starfsmenn, þar af fimm með garðyrkjumenntun.

Aldrei lognmolla

Spurður hvort janúar sé rólegur tími hjá garðyrkjufólki á Íslandi segir Svavar það af og frá. „Sumarið hér er svo stutt að það þarf að halda afar vel á spilunum. Allt þarf að vera tilbúið þannig að við erum á fullu allt árið um kring. Stundum er meira að segja meira að gera á veturna en á sumrin. Það þarf til dæmis að yfirfara öll gróðurhús og sinna viðhaldi á verkfærum, svo dæmi séu tekin.“ Hann segist oft hugsa með sjálfum sér að hann grípi í einhver tiltekin verkefni þegar um hægist yfir vetrartímann en raunin verði iðulega sú að hann hafi meira en nóg að gera. „Þetta róast aldrei,“ segir hann glaðbeittur.

Þegar FIT ræddi við Svavar var hann að vinna við að bjarga hellum sem frosið höfðu niður í kuldanum, áður en það hlánaði. „Ég er svo að bíða eftir frosti til að geta farið að fella tré,“ svarar hann spurður um verkefni vikunnar. Viðtalið var tekið snemma í janúar. Þrátt fyrir að þá hafi verið langt í vorið voru starfsmenn Grasagarðsins þegar byrjaðir að undirbúa sáningu, sem hefst í febrúar. „Ég er að jafnaði byrjaður að hugsa um sumarið þegar ég kem úr jólafríinu,“ segir hann og bætir við að undirbúa þurfi gróðurhúsin vel fyrir sáningu. Til dæmis þurfi að þrífa húsin og sótthreinsa, til að fyrirbyggja smit á milli plantna. „Þau eru mörg, handtökin sem við þurfum að vinna á þessum árstíma,“ áréttar hann.

Helst ekki í sumarfrí á sumrin

Það þarf sennilega ekki mikinn spámann til að geta sér til um að uppáhaldsárstíð garðyrkjumannsins sé sumarið. Það má til sanns vegar færa í tilfelli Svavars. „Ég gerði þau mistök síðastliðið sumar að taka mér sumarfrí í maí og júní en það ætla ég helst að reyna að forðast. Maður þarf að halda vel á spilunum á sumrin.“

Það sem heillar Svavar hvað mest við garðyrkjuna er starfsumhverfið. Það á sérstaklega vel við hann að vinna úti í öllum veðrum. „Rigning og hláka er uppáhaldsveðrið mitt. Mér finnst rigningin alveg æðisleg. Það þýðir reyndar lítið að vera garðyrkjumaður á Íslandi og kunna ekki að meta góða rigningu.“ Hann rifjar upp að hjá þeim í Grasagarðinum hafi eitt sinn unnið Ítali. Hann hafi snemma spurt hvaða verkefnum þau sinntu þegar rigndi. „Hann sá fyrir sér einhver þægileg inniverkefni,“ segir Svavar og bætir við að garðyrkjufólki yrði lítið úr verki á Íslandi ef það héldi sig innandyra í rigningu.

Hann segir raunar að glampandi sólskin sé mest krefjandi veðrið. „Maður er langþreyttastur eftir að hafa verið úti í sól allan daginn. Maður þarf stöðugt að verja sig fyrir sólinni.“

Ánægður á vinnustaðnum

Svavar er nýtekinn við sem trúnaðarmaður starfsmanna. Honum líst að sögn vel á að vera samstarfsfólki sínu innan handar þegar eitthvað bjátar á. Hann hefur sótt einhver námskeið vegna hlutverksins en á eftir að læra meira. Svavar segist taka við góðu búi því fyrrverandi trúnaðarmaður sé enn starfsmaður í Grasagarðinum. „Hún hefur verið dugleg að minna mig á að nýta það sem stendur til boða.“

Garðyrkjan er starf sem Svavar hyggst stunda út starfsævina, að óbreyttu. „Ég er ekki að fara neitt. Ég var heillengi að fá fastráðningu hérna og er raunar í smá vandræðum. Mig dreymir stundum um eitthvað annað en ég er bara svo ánægður hér að ég get ekkert hugsað mér að fara neitt annað.“

Vorið kemur ekki í apríl

Það er erfitt að kveðja garðyrkjumann án þess að biðja hann um heilræði fyrir vorið, þegar garðverk húseigenda eru annars vegar. FIT kemur ekki að tómum kofanum þar. „Ekki fara of snemma af stað. Algengustu mistökin sem fólk gerir er að halda að vorið sé komið í apríl, þegar það hlýnar í nokkra daga. Vorið kemur aldrei í apríl svo þú ættir ekki að fara að bera á garðinn þinn þá. Einbeittu þér frekar að því að fræðast um garðyrkju og passa að vera tilbúinn þegar sumarið kemur, til dæmis dytta að verkfærum. Ekki vaða af stað í apríl.“

Viðtalið birtist fyrst í Fréttabréfi FIT, sem út kom 31. janúar 2024.