Húsið í Kiðárbotnum sem nýtt

„Það má segja að við séum að vinna að allsherjarbreytingu á húsinu,“ segir Elvar Alfreðsson, annar tveggja sem nú í vetur vinna að endurbótum og umfangsmiklum breytingum á orlofshúsi FIT í Kiðárbotnum.

Beðinn um að lýsa framkvæmdunum svarar Elvar því til að bæði sé verið að lengja og breikka húsið. „Við erum að smíða tvær viðbyggingar við húsið. Við skiptum um þak á húsinu, alla innveggi, veggjaklæðningar, innihurðir og gólfefni. Ný klæðning verður sett utan á allt húsið og einangrun,“ segir Elvar og bætir við að í raun muni aðeins grind hússins verða óhreyfð, sem og hluti af þaki. „Þetta verður virkilega flott,“ bætir hann við.

Kalli félagsfólks svarað

Eins og fram kom í orlofshúsakönnun FIT, sem lögð var fyrir félagsfólk í haust, var tími kominn á viðhald hússins. Ákveðið var að ganga skrefi lengra og gera húsið sem nýtt. Með lengingu hússins, upp á 2,3 metra, verður bæði stofan og eldhúsið stækkað. Helmingur hússins verður svo breikkaður. Þar bætist við herbergi, baðherbergi og forstofa. „Þetta er rosalega mikil breyting og þetta verður glæsilegt hús, þegar verkinu verður lokið.“

Elvar og félagi hans dvelja í öðru húsi félagsins í Húsafelli á meðan á verkinu stendur. Þeir gista alla jafna frá mánudegi til fimmtudags, nema veður riðli þeim áætlunum. Oftast eru þeir tveir að vinna í húsinu en stundum allt að fjórir. Það ræðst af þeim verkefnum sem fyrir liggja hverju sinni.

Á undan áætlun

Elvar segir að verkið gangi í raun ótrúlega vel. Hann meti það svo að þeir séu á undan áætlun miðað við umfang breytinganna. „Við höfum verið að rembast eins mikið og við getum utandyra og erum til dæmis búnir að klæða þrjár hliðar af sex. Við höfum reynt að spara inniverkefnin með það fyrir augum að geta verið inni þegar koma vond veður. Veðrið hefur verið það gott að við erum mjög vel á veg komnir utandyra og í raun komnir lengra en við höfðum þorað að vona miðað við árstíma“ segir hann.

Elvar segir að stefnt sé að því að taka húsið í notkun fyrir sumarið en nánari dagsetning hafi ekki verið ákveðin. Hún ráðist af framvindu verksins. „Svona verkefni hefur tilhneigingu til að vinda upp á sig. Það bætist oft við verkefnalistann þegar verkið er hafið – enda borgar sig að gera þetta almennilega,“ segir hann að lokum.

Greinin birtist fyrst í Fréttabréfi FIT

Fleiri myndir í myndasafni FIT