Skrifað undir kjarasamning í Karphúsinu

Samiðn undirritaði í Karphúsinu í síðdegis í dag undir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins. Auk Samiðnar skrifuðu Efling og Starfsgreinasambandið undir samninga.

Samningarnir gilda til fjögurra ára, til 2028, og kveða á um árlegar kauphækkanir.

Samkvæmt samningunum hækka laun árlega að lágmarki um 23.750 krónur 1. febrúar síðastliðinn og í hlutfalli við það upp launflokka. Almenn launahækkun er 3,25 prósent á þessu ári en 3,5 prósent á næstu þremur árum þar á eftir – þær hækkanir koma til framkvæmda 1. janúar ár hvert.

Desemberuppbót fyrir starfsmann í fullu starfi verður 106 þúsund krónur á þessu ári og hækkar um 12 þúsund krónur á samningstímanum. Þá verður lágmarksorlof 25 dagar, hafi starfsmaður unnið í sex mánuði hjá fyrirtæki en 28 dagar að fimm árum liðnum.

Rauði þráðurinn í samningi Samiðnar og SA er sá metnaður að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu.

Hilmar Harðarson, formaður FIT, segir að um sé að ræða tímamótasamning ,sem sé afrakstur mikillar vinnu og samstöðu verkalýðsstéttarinnar. „Ég vil þakka þessum hópum fyrir frábært samstarf, sem undirstrikar mátt hreyfingarinnar. Það er úrslitaatriði fyrir íslensk heimili að vinna bug á verðbólgunni og stuðla að lækkun vaxta. Í því felst stærsta kjarabótin.”

Nánar verður greint frá innihaldi samningins hér á síðunni. Dagskrá næstu daga verður kynnt svo fljótt sem auðið er.

Lesa nýjan kjarasamning Samiðnar og SA