Uppalin á garðyrkjustöð

Ágústa Erlingsdóttir er námsbrautarstjóri skrúðgaryrkjubrautar Fjölbrautaskóla Suðurlands

„Ætli þetta sé ekki í blóðinu, því að mamma mín, elsta systir mín, systursonur og föðurbróðir eru öll garðyrkjufræðingar. Amma mín vann í mötuneyti Garðyrkjuskólans fyrstu ár hans og afi minn var mikill frumkvöðull í garðyrkju á Íslandi og hóf ferilinn í Hveragerði“ segir Ágústa Erlingsdóttir sem er námsbrautarstjóri skrúðgaryrkjubrautar Fjölbrautaskóla Suðurlands þegar hún er spurð út í það hvenær áhugi á garðyrkju hófst.

Ágústa byrjaði að kenna í Landbúnaðarháskólanum (Garðyrkjuskólanum) á vorönn 2008 og var svo fastráðin sem námsbrautarstjóri skrúðgarðyrkjubrautar í apríl það ár og hefur starfað þar síðan en nú er skólinn orðinn hluti af Fjölbrautaskóla Suðurlands. Töluverðar breytingar hafa orðið í Garðyrkjuskólanum á Reykjum síðustu misserin, þar sem garðyrkja hefur verið kennd síðan 1939.

Fjölbreytni

Fyrsta spurningin til Ágústu hlýtur samt ávallt að vera um hvar hún hafi fæðst og alist upp. „Ég fæddist á Akranesi en er frá Laufskálum II í Borgarfirði og ólst þar upp en ég bjó í Hveragerði í 2 ár á unglingsaldri á meðan móðir mín var í Garðyrkjuskólanum.“ Þannig að áhuginn á garðrækt byrjaði snemma? „Ég er uppalin á garðyrkjustöð og hef unnið við flest fög innan garðyrkju“ og hún hélt áfram eftir smá umhugsun „En eftir að hafa lokið námi í tækniteiknun ákvað ég að læra skrúðgarðyrkju því mér fannst það vera fjölbreyttasta starfið innan garðyrkjunnar og mig langaði að læra betur hellulagnir og hleðslur.“

Þegar samtalið berst að námi og kennslu í skólanum segir Ágústa „Það sem er skemmtilegast við námið er fjölbreytni faga, gaman að fá að læra að hlaða úr torfi og grjóti, gera tjarnir, fella tré og margt fleira“.

Spurð hvort það hafi orðið miklar breytingar í faginu þann tíma sem hún hefur kennt í Garðyrkjuskólanum segir Ágústa „Það hefur orðið mikil þróun í annarsvegar umhverfismálum og nýjar aðferðir komið til eins og blágrænar ofanvatnslausnir. Einnig hefur tækni fleygt fram og mikið af tækjum komin til sem létta manni verkin í vinnunni“.

Skólinn útskrifar nema annað hvert ár og það eru á bilinu 10-20 nemar sem útskrifast úr skrúðgarðyrkju við þau tækifæri.

Menntun

Þegar við ræddum við Ágústu þá komumst við að því að hún hefur aflað sér mikillar þekkingar í gegnum tíðinna. Hún lærði tækniteiknum í Iðnskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan 1999 og hóf síðan verknám í skrúðgarðyrkju hjá meistara í byrjun ársins 2000 og byrjaði á skrúðgarðyrkjubraut í Garðyrkjuskóla ríkisins þá um haustið. Hún útskrifaðist sem garðyrkjufræðingur af skrúðgarðyrkjubraut í maí 2002 og tók sveinspróf um haustið. Meistari hennar var Yngvi Sindrason, og vann hún áfram hjá honum út árið 2003. Ágústa skráði sig í diploma nám í skrúðgarðyrkjutækni hjá Garðyrkjuskóla ríksins haustið 2004. Síðan rann skólinn inn í Landbúnaðarháskóla Íslands í byrjun árs 2005 og útskifaðist hún úr diplomanáminu (þá frá LbhÍ) í desember 2005. Á þessum tíma vann hún í fjölskyldufyrirtækinu Sigur-Görðum í Borgarfirði sem verkstjóri.

Við þökkum Ágústu fyrir spjallið og óskum henni áframhaldandi velgengni í störfum hennar að mennta garðyrkjufræðinga framtíðarinnar.

Viðtalið birtist fyrst í Fréttabréfi FIT