Hátíðardagskráin 1. maí

Baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, verður haldinn hátíðlegur næstkomandi miðvikudag, venju samkvæmt.

ASÍ hefur opnað vefinn 1mai.is þar sem finna má stutt og skemmtileg myndbönd, með leikarann Aron Mola í aðalhlutverki, um sigra verkalýðshreyfingarinnar í gegn um tíðina.

Slagorð dagsins að þessu sinni er Sterk hreyfing – sterkt samfélag.

Félagsfólk um allt land er hvatt til að taka þátt í hátíðarhöldunum.

 

Dagskráin í Reykjavík verður sem hér segir:

13:00 Safnast saman á Skólavörðuholti.

13:30 Kröfugangan hefst og fer niður Skólavörðustíg, Bankastræti og Austurstræti að Ingólfstorgi. Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur spila á Skólavörðuholti og síðan í göngunni niður á Ingólfstorg.

14:00 Útifundur hefst.

  • Fundarstjóri er Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar.
  • Ræðu flytja einnig Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Þórainn Eyfjörð, formaður Sameykis.
  • Bríet og Úlfur Úlfur munu taka lagið og í lok fundarins syngur fundarfólk og tónlistarfólk.

Hér fyrir neðan er dagskrá 1. maí í Reykjavík, Reykjanesi, Selfossi, Akranesi og Vestmannaeyjum.

Reykjanesbær:

Á þessum degi fögnum við því sem áunnist hefur í réttindabaráttu verkafólks í gegnum tíðina og leggjum áherslur á nýjar og breyttar kröfur í þágu vinnandi stétta. Stéttarfélögin á Suðurnesjum bjóða félagsfólki og öðrum íbúum svæðisins á baráttufund í Stapa, Hljómahöll kl.14:00 til 16:00. Öll velkomin á meðan húsrúm leyfir.

  • Mummi Hermanns leikur ljúfa tóna. Guðbjörg Krismundsdóttir, formaður VSFK, setur dagskrá.
  • Ræðumaður dagsins er Hilmar Harðarson, formaður FIT.
  • Bjartmar Guðlaugsson tekur nokkra klassíska slagara.
  • Guðlaugur Ómar frá Leikfélagi Keflavíkur, Karlakór Keflavíkur slær botninn í dagskrána.

Að venju bjóða stéttarfélögin upp á ókeypis bíósýningu fyrir börnin kl. 13.00 í Sambíóinu við Hafnargötu.

Vestmannaeyjar

Alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins verður fagnað þann 1. maí í Akóges í Vestmannaeyjum. Húsið opnar klukkan 14:00. Þar verður tekið á móti börnum á öllum aldri með andlitsmálningu og blöðrum. Tónlistarveisla er á dagskránni frá Tónlistarskóla Vestmannaeyja. Fram koma meðal annarra Skólalúðrasveit Vestmannaeyja og Skólahljómsveit vestur- og miðbæjar.

Ávarp verður flutt auk þess sem kaffi, vöfflur og fleira góðgæti verður á boðstólnum. Öll velkomin og aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis.

Selfoss

Lúðrasveit Selfoss leiðir kröfugöngu frá Austurvegi 56 kl. 11:00 að Hótel Selfoss þar sem dagskrá og skemmtun fer fram. Kynnir verður Jónas Yngvi Ásgrímsson frá VR en ræðumaðurinn að þessu sinni er Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Frá námsmönnum í ML verður Klaudia Joanna Figlarska.

Fríða Hansen tekur lagið með Alexander Frey. Afrekshópur Dansakademíunnar kemur fram en fimleikadeild UMFS sér um andlitsmálun.

Kaffi og veitingar verða á boðstólnum.

Akranes

Félag iðn- og tæknigreina. Verkalýðsfélag Akraness, Sameyki, VR, Kennarasamband Íslands og Sjúkraliðafélag Íslands standa fyrir dagskrá á hátíðar- og baráttudegi verkafólks 1. Maí.

Safnast verður saman við skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness að Þjóðbraut 1,  kl. 14 og genginn hringur að bæjarskrifstofum Akraness þar sem hátíðardagsrá hefst í sal eldri borgara.

Björg Bjarnadóttir framkvæmdarstjóri SGS flytur hátíðarræðu, fjöldasöngur og  Kvennakórinn Ymur syngur nokkur lög.

Boðið verður upp á kaffi og kökur að hætti kórsins.