„Þetta heppnaðist alveg ótrúlega vel“
BL sá um keppni í bifreiðasmíði, bílamálun og bifvélavirkjun á Íslandsmóti iðn- og verkgreina

„Í ár fengum við það verkefni að sjá um keppnirnar í bifreiðasmíði, bílamálun og bifvélavirkjun á Íslandsmótinu. Starfsmenn okkar sáu um framkvæmdina – allt frá undirbúningi verkefna yfir í að útvega tækjabúnað og verkfæri. Þetta var heilmikil vinna og við lögðum mikið upp úr því að verkefnin endurspegluðu raunveruleg dagleg verkefni á verkstæðinu,“ segir Reynir Örn Harðarson, sem starfað hefur hjá BL í sautján ár.
„Við lögðum áherslu á fjölbreytni – keppendur unnu meðal annars með samskeytingu og suðu, bæði í stáli, kopar og áli. Við lögðum einnig fyrir keppendur plastviðgerðir og réttingar, bæði með handverkfærum og tækjabúnaði. Í máluninni reyndum við að líkja eftir raunverulegum aðstæðum en undirbúningurinn fyrir þá grein fór fram í okkar húsnæði þar sem ekki var hægt að mála bíla hér í Laugardalshöllinni. Við notuðum þess vegna okkar vinnuaðstöðu og sýndum frá þeirri keppni í beinu streymi hér á skjá í höllinni. Við vorum með beinar útsendingar úr sprautuklefanum, sem vöktu mikla athygli,“ segir Reynir.
Reynir er afar ánægður með hvernig til tókst. „Þetta heppnaðist alveg ótrúlega vel. Keppninni er nú lokið og ég get sagt að þetta hafi verið frábær hópur. Krakkarnir stóðu sig svakalega vel – voru snyrtilegir, fylgdu reglum og voru sannarlega til fyrirmyndar. Þetta eru framtíðar fagmenn í bílgreinum.“
Fengu að prófa bílamálun
Á bílgreinasvæðinu gat fólk til dæmis spreytt sig á bílamálun, með stafrænum hætti, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Reynir segir að bílgreinarnar hafi vakið mikla athygli ungmenna en eins og fram hefur komið mættu á bilinu 9 til 10 þúsund nemendur í efstu tveimur bekkjum grunnskóla.
„Þetta svæði okkar vakti gífurlega mikla athygli – fólk var stöðugt að fylgjast með, spyrja, skoða og prófa. Það sem skiptir mestu máli er að kveikja áhuga ungs fólks á þessum greinum. Ef það hefur tekist og við fáum einhverja af þessum krökkum á námið þá er tilganginum náð.
Reynir skorar á skipuleggjendur mótsins að halda áfram á þessari braut þegar kemur að keppni í bílgreinum. „Það er svo mikilvægt að sýna fögin og draga fram allt það frábæra sem felst í þessum greinum,“ segir hann að lokum.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá svæðinu. Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri.
- Gestir og gangandi mátuðu sig við bílamálun.
- Reynir Örn Harðarson frá BL