Var fimmta konan til að ljúka húsasmíðinni

Viðtal við Sigríði Runólfsdóttur húsasmíðameistara

„Ég er búin að starfa á þessum vettvangi í um fjörutíu ár,“ segir Sigríður Runólfsdóttir deildarstjóri, sölumaður og ráðgjafi í timburdeild Húsasmiðjunnar á Selfossi. Sigríður lauk sveinsprófi í húsasmíði jólin 1987. „Ég held ég hafi verið sú fimmta í röðinni á landsvísu sem útskrifaðist úr þessu námi,“ segir hún.

Sigríður segir að ákveðinn mótþrói hafi leitt hana í húsasmíðina á sínum tíma. Í raun hafi námið orðið fyrir valinu af þeirri ástæðu að þetta var stysta námið sem hún gat fundið. „Það var smá uppreisn í gangi hjá mér. Það var ætlast til að ég færi í nám en ég vildi það ekki,“ segir hún glöð í bragði þegar hún lítur til baka. Hún upplifði mótbárur úr ýmsum áttum þegar hún ákvað að fara í húsasmíðina – enda var þetta á þeim tíma karlastarf. „Ég fann mjög vel fyrir þeim viðhorfum. En fyrir vikið var ekki í stöðunni fyrir mig að hætta og fara í eitthvað annað.“

Byggingakranar voru fátíðir

Hún vann við trésmíði í þrjú ár eftir sveinsprófið en segist fljótt hafa áttað sig á að hún þyrfti að finna menntun sinni annan farveg ef hún ætlaði að eiga gott líf á efri árum. Á þessum tíma voru byggingakranar og lyftarar ekki á hverju strái. Starf húsasmiða var mjög líkamlega krefjandi – mikill burður. „Ég ákvað að nýta þessa menntun og gat fengið vinnu í byggingavöruverslun SG.“

Hún segist lengi vel hafa mætt fordómum, fyrir að vera kona í karlastarfi. „Ég fann mjög vel fyrir því að ég var kona að fara inn í karlastarf. Miðaldra konur voru verstar hvað þetta varðar, þegar ég var að byrja í þessu. Þær vildu fá að tala við karlmann, þegar þær komu í verslunina til að fá ráðgjöf. Þær vildu jafnvel frekar tala við kornunga stráka í sumarafleysingum heldur en mig, sem var húsasmíðameistari með ágæta reynslu.“ Hún segir að þetta viðhorf hafi breyst mikið. Nú finnist mörgum konum bara gott að geta átt þess kost að ræða við aðra konu um smíðaverkefnin.

Sigríður er þannig vön því að brjóta niður samfélagslega múra. Og hún er ekki hætt að stuðla að því. „Mér finnst sérstaklega gaman að hjálpa ungum konum sem eru að takast á við verkefni sem kannski er búið að segja þeim að þær geti ekki. Þær fara alsælar heim og klára verkið. Það gefur mér mjög mikið.“

Sigríður er fædd árið 1966 og verður því 59 ára á árinu. Hún segist í dag ekki sjá annað en að hún muni ljúka starfsævinni í þessu starfi. „Ég hef alltaf sagt að þann dag sem ég hlakka ekki til að fara í vinnuna – þá fer ég og geri eitthvað annað. En mér finnst enn mjög gaman í vinnunni. Eins og staðan er núna þá stefnir í að ég starfi hér út starfsævina.“

Rólegra eftir mikla uppbyggingu

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á Selfossi undanfarin ár. Sigríður segir að nú hafi hægst verulega þar á. „Það er ekki svona brjálað eins og verið hefur. Fæstir eiga peninga í dag og það hefur keðjuverkandi áhrif, þegar fólk er að reyna að kaupa eignir. Þetta verða oft langar keðjur þar sem lítið má út af bregða.“ Hún bendir hins vegar á að nóg sé um að vera hjá nágrannasveitarfélögunum, þrátt fyrir að hægst hafi á uppbyggingunni á Selfossi.

Umhugað um kjör stéttarinnar

Sigríður, sem er bæði sveinn og meistari í húsasmíði, var virk í starfi félagsins áður en hún eignaðist börn. Þá dró hún sig í hlé í félagsstörfunum. „En ég hef alltaf verið mikil baráttukona fyrir okkar kjörum og talað fyrir mikilvægi þess að við látum ekki vaða yfir okkur.“

Hún er líka talsmaður þess að efla og standa vörð um iðnnám. „Í dag getur hver sem er ákveðið að byggja hús – það er ekki sanngjarnt og gildir ekki um margar faggreinar. Við þurfum að standa vörð um iðnnám og þau réttindi sem fólk hefur áunnið sér.“ Hún er sérstaklega ánægð með Hildi Ingvarsdóttur, skólastjóra Tækniskólans. „Við þurfum fleira fólk eins og hana, konu sem stígur fram, tekur þátt í umræðunni og ver þessar mikilvægu starfsgreinar.“

Viðtalið birtist fyrst í Fréttabréfi FIT, í febrúar 2025.