Húsasmiðanemar í Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Fjölbrautaskóli Suðurnesja (FS) starfrækir námsbraut í húsasmíði og hefur brautin verið starfandi allt frá því að skólinn var stofnaður árið 1976. Skólinn var stofnaður í samstarfi ríkisins og allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Þar sameinuðust Iðnskóli Keflavíkur og framhaldsdeildin við Gagnfræðaskólann í Keflavík. Nemendum á námsbrautinni hefur fjölgað ört undanfarin ár og nú á haustönn eru 25 einstaklingar sem stunda nám við húsasmíði.

FIT styður við verkefni tengt starfsnámi

Til þess að efla starfsnámið enn frekar hefur FS verið í samstarfi við grunnskólana á Suðurnesjum, þar sem nemendum 10. bekkjar hefur boðist valáfangi í verklegum greinum. Þetta samstarf hefur gengið vel og hafa margir af þeim nemendum sem tekið hafa þennan valáfanga hafið verknám við FS. Jafnframt hefur Vinnuskólinn í Reykjanesbæ verið með starfsdaga tengda verknáminu. Félag iðn- og tæknigreina styrkti FS í því verkefni sem heitir „Látum verkin tala – Verknámssmiðjur í FS” en tilgangur þess var að kynna og vekja áhuga nemenda í 9. bekk grunnskóla Reykjanesbæjar og Sandgerðis á verknámi.

Nemar byggðu tvær hæðir ofan á skólann

Í gegnum tíðina hafa nemendur á húsasmíðabraut jafnframt fengið að spreyta sig á fjölbreyttum smíðaverkefnum. Sem dæmi má nefna að á öðru starfsári skólans fengu nemendur ásamt kennara sínum það verkefni að byggja tvær hæðir ofan á skólann. Þegar skóla lauk að vori 1978 var þakið rifið af skólanum og byggðar voru tvær hæðir ofan á skólann. Þessu var öllu lokið um haustið og gátu nemendur sest á skólabekk aftur fjórum mánuðum síðar og þá í nýju húsnæði en þar fengu kennarar skólans nýja starfsaðstöðu á þriðju hæð. Í dag vinna nemendur við það verkefni að byggja sumarhús sem eru staðsett á skólalóðinni á meðan á byggingu stendur. Byggð hafa verið 17 sumarhús og hefur gengið vel að selja þau öll.

Það er bjart framundan varðandi verkefni fyrir nemendur húsasmíðabrautar. Uppgangur á Suðurnesjum Mikill uppgangur er nú á Suðurnesjum og eru stórframkvæmdir fyrirhugaðar á næstu árum. Það sem helst hamlar starfseminni í dag er fjárskortur þ.e.a.s. framlög til skólans frá ríkinu sem hafa engan veginn fylgt fjölgun nemenda við skólann. Mörg fyrirtæki hafa leitað til FS eftir starfsmönnum fyrir sinn rekstur og margar ráðningar hafa átt sér stað í gegnum húsasmíðabraut skólans. Ekki hefur verið vandamál að fá námssamninga fyrir áhugasama nemendur. Fulltrúar Félags iðn- og tæknigreina heimsóttu skólann um daginn og þá voru þessar myndir teknar af áhugasömum nemendum og kennara þeirra Gunnari Valdimarssyni við húsasmíðabrautina.