Vinnustaðaheimsóknir og breytingar á lögum um útsenda starfsmenn og skyldur

Félag iðn- og tæknigreina hefur alla tíð lagt mikla áherslu á öflugt vinnustaðaeftirlit. Mikill fjöldi erlendra starfsmanna er að störfum í bygginga- og mannvirkjagerð, bílgreinum auk fjölda annarra greina hér á landi. Miklar breytingar hafa orðið á íslenskum vinnumarkaði vegna þessa. Fram kemur í kröfugerð Samiðnar að mikilvægt sé að aðlaga eftirlit á vinnustöðum að þessum veruleika og gera eftirlitið miklu markvissara og skilvirkara m.a. með því að:

  • Sameina núverandi vinnumarkaðsstofnanir í eina stofnun sem taki til alls vinnustaðarins þ.e. aðbúnaðar, öryggis og starfskjara.
  • Komið verði á fót úrskurðaraðila sem hafi það hlutverk að úrskurða í ágreiningsmálum varðandi starfskjör starfsmanna og tryggt verði að úrskurðir liggi fyrir innan mjög skamms tíma.
  • Farið verði í sérstakt átak til að útrýma kennitöluflakki.
  • Keðjuábyrgð verði almenn og taki til alls vinnumarkaðarins.

Úrbætur á lögum

Gerðar hafa verið mikilvægar úrbætur á lögum um útsenda starfsmenn og starfsmannaleigur. Alþingi samþykkti 8. júní sl. mikilvægar úrbætur á lögum erlendra þjónustuveitenda nr. 45/2007, lögum um starfsmannaleigur og fleiri lögum. Helstu breytingarnar eru m.a. eftirfarandi:

  • Lögin um útsenda starfsmenn ná nú til starfsmanna erlendra þjónustufyrirtækja sem eru með starfsemi hér á landi þótt fyrirtækin séu ekki með starfsstöð hér á landi eða hafi gert samning við innlent notendafyrirtæki.
  • Sjálfstætt starfandi einstaklingar af Evrópska efnahagssvæðinu skulu tilkynna sig til Vinnumálastofnunar og hefur stofnunin vald til að meta hvort um raunverulega verktöku eða gerviverktöku er að ræða og bregðast við með viðeigandi hætti.
  • Víðtækara hlutverk og ríkari skyldur Vinnumálastofnunar.
  • Ríkari skyldur eru lagðar á erlend þjónustufyrirtæki, þ.m.t. starfsmannaleigur og sjálfstætt starfandi að veita nauðsynlegar upplýsingar um starfsemi sína bæði í heimalandinu og hér á landi. Einnig er ríkari upplýsingaskylda á notendafyrirtæki.
  • Ábyrgð notendafyrirtækis skv. lögum um útsenda starfsmenn, nær til vangoldinna launa og annarra launaþátta starfsmanna erlendra þjónustufyrirtækja í byggingariðnaði eða mannvirkjagerð sem það gerir samninga við – svokölluð keðjuábyrgð.
  • Ábyrgð notendafyrirtækis skv. lögum um starfsmannaleigur nær til vangoldinna launa og annarra launaþátta starfsmanna, allra innlendra sem erlendra fyrirtækja, í öllum atvinnugreinum sem það gerir samninga við – svokölluð keðjuábyrgð.
  • Tekin eru af tvímæli um að þau stjórnvöld hér á landi sem málið varðar geti miðlað upplýsingum um starfsemina sín á milli.
  • Kveðið er á um heimild Vinnumálastofnunar til að óska umsagnar stéttarfélaganna/aðila vinnumarkaðarins varðandi ráðningarsamninga, launaseðla og vinnutímaskýrslna og skyldur til að afhenda stéttarfélögunum slíkar upplýsingar sé eftir því leitað.
  • Heimildir til að leggja á starfsemina dagsektir gerðar skýrari.
  • Heimild til að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki og sjálfstætt starfandi einstakling sem veitir Vinnumálastofnun ekki upplýsingar eða veitir stofnuninni rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

Heimsóknir á vinnustaði

Hér fylgja myndir af starfsmönnum við vinnustaðaeftirlit. Heimsóknir á vinnustaði eru dæmi um virkt eftirlit sem veitir öllum aðilum aðhald. Við látum hlutaðeigandi aðila vita ef við verðum þess áskynja að erlendir starfsmenn fái ekki notið þeirra réttinda sem kjarasamningur og lög tryggja þeim. Eins hvetjum við félagsmenn FIT til hins sama ef þeir verða áskynja að brotið sé á starfsmönnum.