Mjög fræðandi og eflandi

Í ljósi þess að við erum stöðugt að leita leiða til að virkja grasrótina í Félagi iðn- og tæknigreina þá ákváðum við að taka viðtal við Guðjón Hauk Jóhannsson trúnaðarmann hjá Veitum ohf. og fá hans upplifun af því að taka þátt í starfi FIT.

Guðjón er starfsmaður Veitna ohf. sem er hluti af Orkuvietu Reykjavíkur og hefur starfað þar við góðan orðstír í nokkur ár. Guðjón Haukur byrjaði að vinna við pípulagnir hjá J.B. pípulagnir árið 2005 sem aðstoðarmaður og vann þar í nokkur ár áður en hann fór í raunfærnismat hjá Iðunni fræðslusetri. Guðjón hafði áður verið á málmiðnaðarbraut hjá Tækniskólanum og fékk það að fullu metið. Að hans mati er raunfærnismatið „algjör snilld og kom sér mjög vel fyrir mig“. Guðjón lauk síðan sveinsprófi 2011 og hefur unnið við við iðn sína samfellt síðan þá. Aðspurður hvort að Guðjón sé að hugsa um að verða meistari í pípulögnum? „Nei ég hugsaði um það fyrst eftir sveinsprófið en eins og er þá er það á bið. Tíminn hjá mér núna fer mest í fjölskylduna og svo auðvitað vinnuna, en ég er giftur og á 2 börn.“

Það besta við starfið er félagsskapurinn segir Guðjón og bætir við „það er mjög góður andi á vinnustaðnum og hópurinn sem er að vinna í pípulögnum er bæði skemmtilegur og mjög fjölbreyttur“ Hann segir jafnframt að aðbúnaðurinn hafi líka mikið að segja og hann er til fyrirmyndar hjá Veitum og starfið er bæði krefjandi og fjölbreytt.

Hvað ertu búinn að vera lengi sem trúnaðarmaður og hver er þín upplifun af því hlutverki? „Ég er búin að vera trúnaðarmaður í tæp 4 ár og búinn að fara á trúnaðamannnámskeið 1 og 2“. Guðjón heldur áfram og segir „maður er í mikilli tengingu við það sem er að gerast hjá Félagi iðn- og tæknigreina og einnig á vinnustaðnum“ og eftir smá hugsun heldur hann áfram „maður er meira inn í málunum, réttindi félagsmanna, tengslanetið stækkar því það er mjög gott að hitta aðra trúnaðarmenn og mynda tengsl við þá“. Aðspurður hvað varð til þess að Guðjón gerðist trúnaðarmaður?

„Eftir samtal við starfsmann FIT þá ákvað ég að slá til eftir að trúnaðamannastaðan losnaði hjá fyrirtækinu, ég sé ekki eftir því“. Okkur lék þá forvitni á að vita hvernig upplifun hans var af kjaraviðræðum. Nú hefur þú tekið þátt í kjaraviðræðum fyrir FIT við Orkuveitu Reykjavíkur, hvernig var sú upplifun? „Hún var mjög upplýsandi og maður fékk mikla innsýn í þetta ferli sem samningar eru, allt frá því að vinna við kröfugerð og þangað til að skrifað er undir samninga. Samningavinnan tekur ótrúlega langan tíma og eins voru síðustu samningar merkilegir vegna þess að allir iðnaðamannahóparnir voru saman í sinni kröfugerð og viðræðum við Orkuveitunna“.

Eitthvað sem þú vilt segja að lokum? „Ég hvet fólk að kynna sér starfsemina sem fram fer innan félagsins og vera opin fyrir því að taka að sér hlutverk m.a. trúnaðarmanns því það hefur verið mjög fræðandi og eflandi fyrir mig“

Við þökkum Guðjóni Hauki kærlega fyrir spjallið og hlökkum til að taka á móti honum ög öðrum trúnaðarmönnum á trúnaðarmannanámskeið númer 3. Sem fer fram hér hjá okkur að Stórhöfða 31 16. og 17. mars.