Almennt um verknám

Verknám er ekki bara mjög gagnlegt – það býður líka góða tekjumöguleika og spennandi áskoranir:

  • Nám í bílgreinum er mjög breytt frá því sem áður var. Bíllinn er í raun flóknasta tölva heimilisins og því er óhætt að segja að slíkt nám feli ekki bara í sér smurningu upp að olnbogum og skínandi skiptilyklasett að námi loknu.
  • Málm- og véltæknigreinar fela í sér vinnu með tölvustýrð verkfæri auk þess sem hugvit og handverk er stór þáttur. Þú getur menntað þig í blikksmíði, stálsmíði, rennismíði og vélvirkjun auk fleiri greina.
  • Byggingagreinar bjóða upp á margvíslega menntun. Þú getur orðið málari, múrari, húsasmiður eða pípulagningamaður. Þessar greinar fela líka í sér að þú munt vinna með tölvustýrðar framleiðsluvélar sem krefjast bæði þekkingar og verkkunnáttu.
  • Í garðyrkjugreinum gefast mismunandi og fjölbreyttir möguleikar á vistvænni ræktun og útivinnu í bland við garðhönnun, blómaskreytingar og fleira.
  • Í hönnunar- og handverksgreinum fær sköpunargáfan að njóta sín, til dæmis í gullsmíði og söðlasmíði.

Vissir þú…

… að skólafólk með iðnmenntun á ekki einungis auðveldara með að finna sumarvinnu heldur eru launin líka hærri.

… að í nágrannalöndunum fara u.þ.b. 70% unglinga í iðnnám en á Íslandi fara um það bil 30% unglinga í iðnnám.

… að sem iðnnemi hefur þú kost á að taka námslán.

… að það er einfalt að taka stúdentspróf samhliða iðnnámi.

… að ef þú hefur lokið iðnnámi á Íslandi þá er námið viðurkennt innan Evrópu og því er auðvelt að fá vinnu erlendis.

… að iðnnám kemur að góðum notum sem grunnur í tækninámi í háskóla.

… að Iðan fræðslusetur hefur umsjón með námssamningum í fjölmörgum iðngreinum.

Eftir útskrift bíður vinnumarkaðurinn eftir þér. Hver gætir þess að þú fáir rétt laun og…

…að þú getir notið aðstoðar ef á móti blæs, til dæmis vegna veikinda?

… að þú getir farið í endurmenntun til að auka hæfni þína og möguleika á vinnumarkaðnum.

…að sérfræðingar geta liðsinnt þér í launamálum ef þú áttar þig ekki nógu vel á þeim?

…að þú getir farið í sumarbústað árið um kring og haft það gott?

Félag iðn- og tæknigreina er stéttar- og fagfélag fyrir iðnaðarmenn og starfsfólk í tæknigreinum og megintilgangur þess er að auka fjárhagslegt öryggi og bæta lífsgæði félagsmanna.

Félag iðn- og tæknigreina sér um þetta og fleira

Við stöndum með þér!