Óbilgjarn auðhringur

Á árinu 2015 hefur Félag iðn- og tæknigreina gert um þrjátíu kjarasamninga fyrir ýmsa hópa félagsmanna. Þótt ekki sé þeim öllum lokið er þó einn samningur sem hefur algera sérstöðu hvað það varðar því samningaviðræður hafa staðið nánast allt árið. Hér er auðvitað átt við kjarasamninginn við Rio Tinto Alcan í Straumsvík.

Þar er komin upp ótrúleg staða, sem miklu máli skiptir að verkalýðshreyfingin takist á við af fullri einurð. Skömmu áður en boðað verkfall átti að hefjast í álverinu í Straumsvík í upphafi desember eftir um 30 árangurslausa fundi hjá Ríkissáttasemjara var samninganefnd gerð grein fyrir því að enginn vilji væri til að semja um niðurstöðu í deilunni hjá móðurfélagi Ísal, Rio Tinto Alcan. Um leið og verkfall hæfist mundi forræði málsins flytjast til höfuðstöðva Rio Tinto Alcan vestahafs en stjórnendur Ísal hér á landi yrðu þá án samningsumboðs. Vegna þessa ákvað samninganefnd starfsmanna að aflýsa verkfalli þótt kjaradeilan væri óleyst.

Samninganefndin taldi þýðingarlaust að láta verkfall hefjast þar sem verkfallið mundi ekki auka líkur á að deilan leystist með samningum. Þvert á móti gæti Rio Tinto Alcan notað verkfallið sem tylliástæðu til standa við hótanir um að hætta starfsemi í Straumsvík og varpa sökinni á kröfur starfsfólks. Þó krafðist starfsfólkið þess eingöngu að fá þær launahækkanir sem samið hefur verið um á almennum markaði án þess að þurfa að afsala sér almennum réttindum íslenskra launþega.

Þriðja heims vinnumarkaðsumhverfi

Óvíst er hvernig deilan í Straumsvík á eftir að þróast en segja má að það hafi orðið ákveðin tímamót vegna tilrauna þessa fjölþjóðlega auðhrings, Rio Tinto Alcan, til að brjóta niður þær grundvallarreglur sem gilt hafa á íslenskum vinnumarkaði um ráðningarsamband launafólks og atvinnurekenda. Upphrópanir forsvarsmanna Rio Tinto Alcan og SA um að þeir, einir fyrirtækja á Íslandi, þurfi að búa við það óréttlæti að geta ekki ráðið inn verktaka er vísað til föðurhúsanna. Í fyrsta lagi eru verktakafyrirtæki í álverinu sem hafa starfað þar í áratugi og álverið sjálft ákveðið nánast einhliða hvað þeim er greitt fyrir vinnuna. Í annan stað hefur álverið fengið að ráða inn verktaka þegar á hefur þurft að halda vegna afleysinga eða veikinda.

Það er ekki bara krafa þessa auðhrings (með SA í fararbroddi) að nánast ótakmörkuð verktakastarfssemi verði heimiluð á svæðinu, heldur er það líka krafa að ekki megi semja við verktaka um að greidd verði hærri laun en lámarkslaun á markaði. Endurgjaldið sem boðið er fyrir tilslakanir er EKKERT, ekki einu sinni bætur fyrir að halda fólki án launahækkana mánuðum saman, engin endurskoðunarákvæði eða launaskriðstrygging, EKKERT. Verkalýðshreyfingin og allt samfélagið munu áfram berjast fyrir rétti íslensks launafólks gegn alþjóðlegum stórfyrirtækjum sem vilja innleiða þriðja heims vinnumarkaðsumhverfi á Íslandi.

Vaxandi svört atvinnustarfsemi

Barátta gegn svartri atvinnustarfsemi er líka liður í því að koma í veg fyrir þriðja heims vinnumarkaðsumhverfi á Íslandi. Félag iðn- og tæknigreina, ásamt Byggiðn og Rafiðnaðarsambandinu, hafa um árabil haldið uppi eftirliti með vinnumarkaðnum og komið upp um hundruð brota á kjarasamningum og lögum og upplýst um svarta atvinnustarfsemi. Undanfarna mánuði hefur þetta eftirlit verið í samstarfi við Ríkisskattstjóra, Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitið og gefið mjög góða raun.

En ástandið hefur farið hríðversnandi undanfarna mánuði. Í hverri viku finnast ný dæmi á vinnustöðum um einstaklinga sem ekki geta framvísað vinnustaðaskilríkjum og hafa ekki íslenska kennitölu. Vaxandi umsvif eru í atvinnulífinu og stærsti hluti þeirra iðnaðarmanna sem fór úr landi eftir hrun er enn við störf erlendis. Við hvetjum alla félagsmenn til að styðja okkur á virkan hátt í baráttunni gegn svartri atvinnustarfsemi. Þar er um að ræða mikilvægt mál sem snýst um að tryggja heilbrigt atvinnulíf, eðlilega samkeppni og um það að standa vörð um þau réttindi sem launafólk á að njóta samkvæmt lögum og kjarasamningum.

Ég óska öllum félagsmönnum í Félagi iðn- og tæknigreina og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsæls komandi árs og þakka fyrir samstarfið á árinu.

Hilmar Harðarson, formaður FIT
Desember 2015